Lítil stelpa labbar hægt eftir gangstéttinni. Hún er rauðhærð og freknótt, í gulum kjól og appelsínugulum sokkabuxum. Hún er í hvítum strigaskóm og heldur á grænni sundtösku. Hún stoppar, beygir sig niður og tekur upp eitthvað glansandi sem liggur á götunni. Svo gengur hún áfram eftir stéttinni.
Hún kemur að stóru, dökkrauðu húsi, með fallegum garði. Hún opnar hliðið varlega og læðist upp tröppurnar, að útidyrunum. Þar stendur hún í smátíma og virðir fyrir sér hurðina. Það er engin dyrabjalla. Við hliðina á dyrunum stendur steyptur blómapottur sem hún stígur upp á. Hún er næstum búin að missa jafnvægið, en nær að rétta sig við, teygir sig upp í rúðuna og bankar fast. Hún hoppar niður af pottinum. Hún heyrir fótatak nálgast að innan, og lagar ósjálfrátt snjáðan kjólinn. Dyrnar opnast, og sköllóttur maður brosir á móti henni. Hann vísar henni inn og tilkynnir komu hennar háum rómi. Tveir strákar, litlu eldri en hún, koma hlaupandi niður stigann af efri hæðinni. Þeir eru klæddir í náttföt og inniskó. Annar þeirra er með rautt hár eins og hún, en hinn er ljóshærður.
Mamma hennar var líka ljóshærð. Hún var með sítt hár, og það var svo mjúkt. Stundum sátu þær saman fyrir framan spegilinn og greiddu sér. Svo klippti mamma allt hárið af og hún fékk nýtt hár. Nýja hárið var ekki jafn mjúkt, en það var líka fallegt. Bara öðruvísi fallegt. Svo fór mamma á spítalann og kom ekki heim í voða langan tíma. En nú er hún komin aftur, og þá verður allt eins og það var. Hún fær hárið sitt aftur og þær geta setið saman við spegilinn og greitt sér með gullburstanum hennar mömmu.
Rauðhærði strákurinn spyr hvort hún sé búin að borða morgunmat. Hún þegir, en dregur röndótt nestisbox upp úr sundtöskunni. Pabbi lét hana hafa banana og kókómjólk í nesti. Ef hún yrði svöng eftir sundið. Hann sagði að hún yrði að vera dugleg hjá stuðningsfjölskyldunni, þau ætluðu að hjálpa á meðan mamma væri að jafna sig. Hún er of þreytt til að geta hugsað um litlu stelpuna sína. Stundum liggur hún bara í rúminu og segir ekkert í marga daga. Nema við pabba. Hún talar við pabba, og stundum ömmu þegar hún kemur í heimsókn. En ekki stelpuna sína. Ekki við litla sólskinið sitt. Pabbi segir að það sé ekki hanni að kenna, mamma sé bara lasin, og henni batni bráðum. Um daginn kom kona og sýndi henni bók um konu sem varð veik og þurfti að taka meðal til að henni batnaði. Mamma þarf líka að taka meðal. Konan fór með henni og pabba að heimsækja stuðningsfjölskylduna. Hún þorði ekki að segja neitt allan tímann, hvíslaði bara að pabba og lét hann segja upphátt.
Sköllótti maðurinn leiðir hana fram í eldhús og réttir henni disk og glas. Hann spyr hana hvort hún vilji fá ristað brauð og jógúrt með strákunum og geyma bananann þangað til eftir sundið. Hún kinkar kolli og sest á stólinn sem sköllótti maðurinn dregur fram. Henni finnst jógúrt ekkert rosalega góð, en hún þorir ekki að segja nei. Pabbi sagði að hún ætti að vera dugleg og stillt. Strákarnir koma inn, fullklæddir, og setjast við hliðina á henni. Þau borða ristaða brauðið og jógúrtina. Strákarnir reyna að spyrja hana um eitthvað, hvað finnst henni gaman að gera? Hefur hún séð tölvuna þeirra? Smám saman minnkar feimnin og hún þorir að svara. Hennni finnst gaman að lesa. Þeim finnst það líka. Hún fær að prófa tölvuna. Hún er miklu flottari en tölvurnar í skólanum. Svo fara þau öll út í bílinn. Stuðningsfjölskyldan á stóran, rauðan jeppa. Sköllótti maðurinn hjálpar henni að spenna beltið, og svo keyra þau lengi, lengi. Strákarnir spyrja hana hvort hún þori í stóru rennibrautina. Hún þorir.