IV

Ég get ekki sofnað. Það er bjart þrátt fyrir að það sé miðnótt. Ég stíg fram úr rúminu og geng fram. Í stofuglugganum flýtur Esjan í regndropum sem renna hægt niður rúðuna. Ása kom í kvöld. Var hérna alveg til miðnættis. Ég held að mömmu hennar sé eitthvað illa við það að hún sé með mér. Ása lýgur að henni um ferðir sínar og seinast þegar ég mætti Sigríði í lyftunni var hún óvenjulega stutt í spuna og leiðinleg.

Ég læt Beethoven í geislaspilarann og opna út á svalir. Svalt og rakt næturloftið streymir inn. Ég geng út og stend um stund í rigningunni. Droparnir falla mjúkir á bert hörund mitt. Ég lygni aftur augum og ímynda mér að hver regndropi sé fingur Ásu. Hversu mjög ég vildi að hún snerti mig, á sama hátt og mig langar til að snerta hana. En það er aðeins langþráður draumur og án vafa ómögulegur. Samt…

Ég vakna seint. Svaf lítið í nótt. En er samt ekkert að pirra mig á því. Ligg frekar aðeins lengur og leyfi hugmyndinni sem ég fékk í nótt að gæla við mig. Hún svífur um í kollinum á mér og kallar fram alls kyns myndir af mér og Ásu. Að lokum fer ég þó á fætur og skelli mér í kalda sturtu, svona til að vakna almennilega.
Veðrið úti er frekar hryllingslegt og kalt. Skýin bytla sér grá og svört fyrir ofan borgina sem í bleytunni virðist fá á sig annarlegan og dökkan, dularfullan blæ. Einhvern veginn er eins og að antík svífi yfir öllu þegar regn hefur fallið á það og hreinsað burt ryk og dust nútímans. Síðan lekur þetta niður eftir rúðum bæjarins og þaðan á göturnar, safnast í polla sem bílar bruna yfir.

Ég á mér markmið. Ég þarf að skipuleggja þetta vel, því að ekkert má fara úrskeiðis, alls ekkert. Ef að allt gengur upp mun ég fá það sem mig hefur svo lengi dreymt um. Ég tek upp símtólið og hringi. Þekki strák úr vinnunni, Mikki. Ég veit að hann getur hjálpað mér með það sem ég ætti annars í mestu vandræðum með að komast yfir.

Þegar við höfum lokið samtalinu þá er komið að því að fara að versla. Ísskápurinn er nokkurn veginn tómur því einhverra hluta vegna hef ég ekki nennt að fara út í búð. Ég skelli mér í skóna glaður í bragði enda fór símtalið á besta veg. Ég stend fyrir framan lyftuna og raula lítið lag á meðan ég bíð eftir að hún komi upp. Tel í huganum með eftir því sem ljósin kvikna á hverju hæðarljósi á fætur öðru. Loks hringir bjallan og lyftuhurðin opnast. Ása stendur í lyftunni. Í bláum regnstakk og svörtum buxum. Rennandi blaut.

-Hæ! segir hún glaðlega, -hvert er verið að fara?
-Sæl, ég? Ég er að fara út í búð.
-Er það? Má ég koma með?
-Já, já, mín vegna.
-Frábært! Ég ætla bara að henda jakkanum inn. Nennirðu ekki alveg að bíða?

Hún hleypur inn og ég held lyftunni á meðan. Síðan, þegar hún er komin fram aftur, stígum við inn í lyftuna og erum hljóð á meðan hún sígur niður. Ása angar af útiveru og St. Ives hársápu. Ég stend mig að því að stara á spegilmynd hennar í lyftuhurðunum sem þjóta hjá. Ranka við mér þegar ég sé að hún brosir. Virðist hafa tekið eftir því. Ég brosi á móti.

Ég keyri niður í Nýkaup. Á meðan segir hún mér frá vinnudeginum sínum og hvernig einn strákur sé alltaf að reyna við hana. Ég finn vissa öfundsýki koma upp í mér en hún líður snöggt hjá. Ég á mér nefnilega markmið. Og þetta markmið er ofar öllu og fyrir vikið er mun auðveldara að vera í kringum Ásu. Ekkert stress, engin óvissa, bara skipulag og vinnusemi.

Við gefum okkur góðan klukkutíma í að versla. Ég kenni henni að velja grænmeti og ávesti, kaupa kjöt og fisk. Hún fylgjist vandlega með öllu, því einhvern tímann ætlar hún að elda fyrir mig. Hún segir mér frá því í óspurðum fréttum að mamma hennar sé að fara eitthvert í burtu um helgina en að hún sjálf verði eftir. Ég bíð henni að vera hjá mér. Hún lítur á mig óvenju alvarleg og spyr hvort að það sé í lagi? Jú, það truflar mig ekki neitt, mér þykir bara fínt að vera með henni, segi ég henni. Hún brosir fallega til mín. Þegar við erum að koma að afgreiðslukössunum kemur hún auga á geisladisk sem henni langar í og þegar hún sér ekki til lauma ég disknum á körfuna.

Þegar við erum aftur sest upp í bíl dreg ég fram diskinn og rétti henni hann. Hún starir orðlaus á mig, eins og að ég hafi rétt henni alla veröldina, undrun og gleði skín úr andlitinu.

-Vá, keyptirðu þetta handa mér?
Ég yppi bara öxlum og þykist ligeglad.

Hún tekur um andlit mitt báðum höndum og kyssir mig beint á munninn. Nú sit ég gáttaður og orðlaus. Hún situr alvarleg í bragði og horfir á mig. Eins og að hún bíði eftir að ég geri eitthvað, segi eitthvað. Síðan brosir hún og kyssir mig aftur, núna á kinnina. Horfir stríðnislega á mig.

-Takk!