Ég vaknaði einn morgun, frekar slappur. Mér fannst ég hálfveikur, með dálítinn hausverk og hálfórólegur í maganum. Ég fann spegil einhversstaðar, skrítinn í laginu, eins og málningaklessa. Ég held hann hafi verið skorinn út þannig, ég veit ekki. En í speglinum leit ég út fyrir að hafa ekki sofið í mörg ár. Augun sokkin og bólgin, þungir baugar, hárið í algjörri óreyðu. Ég var líka með vont bragð í munninum, eins og maður á von á að hestaskítur bragðist en gerir samt ekki. Svo virti ég fyrir mér hvar ég var. Ég var í fölgulu, litlu herbergi með glugga á einni hlið, hurð (og dyrum) á móti. Annars var ekkert í herberginu nema þrjár dýnur ofan á hverri annarri og skítugt teppi, sem ég hafði víst nýtt mér til svefns, þó ég muni ekki eftir því.
Mér var litið út um gluggann og þá sá ég ekkert nema gula móðu svo langt sem augað eygði, þó það eygði ekki langt. Það var ekkert hljóð. Hvorki í mér né nokkru öðru. Ég heyrði ekki einu sinni hjartað í mér slá, né litlu röddina sem sagði mér að fara aftur að sofa. Ég leit á sjálfan mig. Ég var klæddur í þunn náttföt, dökkblá með hvítum doppum. Ég var feitur.
Ég ákvað að nýta mér dyrnar sem útgang og skildi hurðina eftir þeim til hliðar. Ég held hún hafi verið nokkuð sátt við það. Fyrir utan tók við langur, teppalagður gangur í báðar áttir sem teygði sig eins langt og manni sýndist. Meðan ég stóð þarna og velti fyrir mér hvora áttina ég skyldi fara heyrði ég fyrstu hljóð dags míns. Það var fótatak. Ég leit eftir ganginum á mína vinstri hönd. Þar sá ég tvo hluti koma æðandi að mér, tvo menn reyndar, klædda í ítölsk jakkaföt með bros á vör, flissandi og hoppandi eins og óþekkir krakkar. Þeir þutu til mín með hlátursköllum (sem glampaði á) hlupu nokkra hringi kringum mig, ég taldi þá ekki, og þutu svo niður eftir ganginum mín til hægri. Þetta fannst mér áhugaverð upplifun.
Ég ákvað að fylgja fordæmi flissandi jakkafatamannanna og rölti á eftir þeim niður eftir ganginum mér til hægri. Eftir tuttugu mínútur gekk ég hjá glugga, eða kannski glerskápi sem var byggður í vegginn. Innan í honum var algjört myrkur, nema að í miðjum skápnum stóð tré sem virtist glóa í myrkrinu. Það var vel laufgað og sterkbyggt og ef mér hefði ekki verið svona óglatt hefði mér kannski fundist það fallegt og huggandi, ef ég hefði þarfnast huggunar. Ég hélt áfram eftir ganginum sem teygðist, að mér sýndist, út í eilífðina.
Eftir fjörutíu og þrjár mínútur og tvær sekúndur tók ég eftir því að veggirnir (mín beggja vegna) voru þaktir í málverkum af trúðum. Ég veit ekki hversu lengi þeir höfðu verið þar, ég bara tók eftir þeim. Það voru gamansamir trúðar, sorgmæddir trúðar, fúlir trúðar og krullhærðir trúðar. Þeir voru í grænum fötum, bláum kjólum, rauðum smekkbuxum, gulum sokkum og höttum af öllum skrúðum. Þeir urðu fljótt pirrandi.
Sautján sekúndum síðar rakst ég á hurð. Sem betur fer reyndist hún standa í dyrum og lét vingjarnlega undan þegar ég ýtti laust við henni. Ég sat ekki á mér heldur gekk rakleitt inn. Handan dyranna reyndist vera herbergi. Í því voru þrír veggir vinstra megin við dyrnar og sófi stóð í miðju herberginu. Hann sneri að Hinu-Guðdómlega-Fiskabúri-Sem-Kemur-Ekki. Á móti mér var auður veggur. Á honum var stór málningaklessa, svört og endurspeglandi, aðlaðandi. Ég gekk að henni og athugaði hana nánar. Ég gerði mér grein fyrir því að mér var kalt. Ég settist í sófann og hallaði mér að hjartanu mínu sem var dökkrautt og á stærð við tennisbolta. Ég horfði á Hið-Guðdómlega-Fiskabúr-Sem-Kemur-Ekki, og velti því fyrir mér hvar fiskarnir væru. Svo drukknaði ég…
Ég vaknaði einn morgun, frekar slappur.