Við höfðum ekki gengið lengi þegar við rákumst á hauskúpuna. Ég hélt þetta væri bara eitthvað djók, plasthauskúpa eða eitthvað, svo ég sparkaði bara í hana og hló. En hún var of hörð til vera plast og svo flísaðist líka úr henni. Ég sagði: “Gah!” við kærustuna og sagðist halda að þetta væri raunverulegt mannshöfuð. Við fórum strax að næsta símasjálfsala og hringdum í lögregluna. Þegar við fórum aftur á staðinn þar sem hauskúpan hafði verið var hún horfin. Við ákváðum samt að bíða eftir lögreglunni og lýsa því sem við sáum. Fyrst eftir að löggan kom trúðu þeir okkur ekki, héldu að við hefðum bara verið að gera at, en að lokum komust þeir að þeirri niðurstöðu að trúlega hefði einhver sett hauskúpuna þarna til að hræða gangandi vegfarendur og síðan tekið hana aftur með sér. Jæja, gott og vel með það, en þegar við kærastan komum heim þá sat hauskúpan á stofuborðinu og virtist horfa beint á okkur. Við æptum í kór: “Gah!” og gripum um hvort annað. Við vissum ekki okkar rjúkandi ráð og ákváðum að henda hauskúpunni fram af svölunum svo ég náði í grilltöngina og tók upp hauskúpuna og henti henni niður af svölunum. “Sjúkkett!” andvarpaði ég og taldi að ég myndi aldrei framar sjá þessa ljótu hauskúpu aftur, en þar skjátlaðist mér…
Næsta dag, er ég var á leiðinni í vinnuna, tók ég eftir því að nágrannakisinn hvæsti á mig. Hún sem var vanalega svo blíð og góð og hljóp til mín á hverjum morgni til að fá smá klór á bakvið eyrun. Ég settist í bílinn og skríkti þegar ég leit í farþegasætið. Þar lá hauskúpan! Ég tjúllaðist og stökk út úr bílnum, hljóp inn í hús, skipti um nærbuxur og fékk mér bolla með mjög sterku kaffi og vodkalögg útí. “Þetta er bara draumur! Þetta er bara draumur!” endurtók ég í sífellu í huga mér. Ég kleip mig fast í höndina til að athuga hvort ég væri ekki örugglega bara sofandi. “Átsj!” Nei, ég var vakandi.. því miður.. Ég hringdi í kærustuna mína í vinnuna og bað hana að koma og bjarga mér en hún komst ekki vegna anna. Þá fór ég aftur niður á bílastæði og leit inn í bíl úr hæfilegri fjarlægð. Jú, kúpan var enn þar svo ég hringdi í lögguna og bað þá að taka hana. Þegar löggubíllinn var að keyra inn götuna hljóp að mér óður labrador hundur sem beit mig í rassinn. Ég orgaði og gargaði en lögreglumennirnir náðu að bjarga mér áður en rasskinnin var alveg farin af. Ég var fluttur á sjúkrahús og allir gleymdu hauskúpunni. En ég fékk ekki að gleyma henni lengi því þegar búið var að gera að sárum mínum fór ég inn á sér stofu og á lá þar á maganum. Gamla ljóta græna málningin á veggjunum og spítalalyktin gerðu það að verkum að mér varð flökurt svo ég hallaði mér fram úr rúminu og tók fram koppinn til að æla en þá var hauskúpan í koppnum! Ég ældi á hana og staulaðist svo fram úr rúminu hinu megin með gríðarlegan verk í rassinum. Ég fór inn á klósett og læsti á eftir mér. Svitinn lak niður bakið mitt og ég andaði ótt og fann þörfina til að míga. Ég opnaði klósettið og hvað starði upp á mig úr klósettinu annað en hauskúpan! Nú var ég kominn með nóg. Ég hrópaði: “Hvað í andskotanum viltu mér, ógeðslega hauskúpuógeðið þitt!!” og sturtaði niður í bræði. Hauskúpan snerist í skálinni og sagði: “Mig langaði bara að vera vinur þinn…”

© absent