Ég gekk ósköp varfærnislegum skrefum yfir svellið fyrir framan tröppurnar í áttina að þessari forljótu byggingu. Leit á hana eitt andartak. Hún leit út eins og hún hafi klárað peninginn hálfnuð með fegurðaraðgerðina sína. Vinstri hliðin var glæný og alsett þessu fína ljósbrúna betrekki, á meðan gamli hlutinn var grár gugginn og einhvernveginn rigndur niður.

Fyrir innan innganginn sást ung stúlka rembast við að renna upp háhæla stígvéli, sem virtist í fyrstu of lítið á hana. Þegar ég kom nær sá ég að rennilásinn var bara bilaður, úff hvað hún hafði fallega fótleggi, og fallegt ljóst hár sem var bundið laust í hnút. Guð hvað hún var bara allt í allt fallegust.

Ég reyndi að glápa ekki of mikið á hana þegar ég hristi snjóinn af skónum og hélt áfram inn. Hún leit upp og brosti, hmm, kurteisisbros, hún er ekkert skotin í mér, eða hvað?
Gömul skipsbjalla hékk utan á veggnum rétt við salernin, ég man aldrei hvaðan þessi bjalla kom, úr einhverjum gömlum ryðdalli. Þetta var svona bjalla sem hringdi út tímann sem þú hafði til að fara á klósettið, hehe. Ég glotti með sjálfum mér er ég gekk áfram að samkomusalnum. Það var enginn inni, allir í tíma, eða enn sofandi heima. Æj, þurfti ég að hugsa um svefn.

Sófarnir út í horni urðu skyndilega eins og svalandi hilling í vökueyðimörkinni. Svartir og mjúkir, og sjálfsagt skítugir en mér var sama. Smá kríu, og einn hrafn kannski með.
Ég fékk mér sæti og henti frá mér sögubókinni, var ekki alveg viss um það hvort ég ætti að leggjast, ég myndi sofna strax og það gekk ekki alveg. Ég mátti ekki missa af tímanum mínum, svo ég hallaði mér aftur og leit upp í loftið.

Tíminn leið bara of hratt því um leið og ég lokaði augun gekk herskari af nemendum inn í salinn, skvaldrandi og hlægjandi. Einhver þeirra virtist hlamma sér niður í næsta stól því það brakaði svo hressilega í einhverju. Enginn friður hérna bölvaði ég í huganum, stóð upp og tók upp bókina mína.
Það hringlaði í einhverju í vasanum mínum, reyndar ekki einhverju, þetta voru tvöhundruð krónur. Og þeim átti að fórna í kók og snickers í sjoppunni, sem var verið að opna. Ég stikaði framhjá þvögunni sem hafði þegar myndast fyrir framan litla sjoppukrílið út í horni og heilsaði vini mínum sem var annar þeirra sem afgreiddu í dag. Bað hann um kók og snick,,, nei hérna kleinurhring, með karamellu, nei ekki þennan.

Það reyndist ekkert svo auðvelt að komast út úr þessari sjoppuholu með kók og kleinuhring í annari hendinni og þykka bók í hinni, en það tókst og ég beit áfergjulega í kleinuhringinn á leið minni að skólastofunum. Ég leit á klukkuna, fimm mínútur í viðbót, ég skokkaði upp tröppurnar upp á þriðju hæð, heilsaði konunni á skrifstofunni og strunsaði inn í stofu 11.

Agalega voru fáir mættir, og búið að færa til öll fjandans borðin. Ég færði til eitt borðið aftarlega í stofunni í fékk mér sæti, bað næsta mann um lán á blýanti. Ég er viðutan og hvílíkt utan við mig og hef nær alltaf verið. Og einmitt líka núna þar sem ég áttaði mig á því að ég hafði ekki bara gleymt penna og áherslutússinu mínu, heldur líka verkefninu sem við áttum að skila. Fjandans hálfviti sagði ég við sjálfam, án þess að segja orð.

Það var farið að rigna aftur, vonandi færi þessi blessaði snjór bráðum. Ég var orðinn hundleiður á þessu slabbi og hálku alltafhreint. Mig langaði í sól og grænt gras, og lauf á trjánum, amk þeim fáum trjáhríslum sem lifðu með herkjum í görðum bæjarins. Það vantaði tré, skóg hérna. Þetta var einn ókostur við það að búa á lítilli eyju út í rokrassgati, saltið drap allt sem reyndir að vaxa upp fyrir einn og hálfan metra.

Raggi sögukennari gekk hröðum skrefum inní stofuna, bauð góðan daginn og lagði frá sér pappírsstafla og bækur. Voðalega eru fáir mætti sagði hann og opnaði litla bók á borðinu. Hann settist niður og drykklöng stund leið á meðan fleiri og fleiri týndust inn í skólastofuna og tíminn gat loks hafist.
Anna?
Já sagði dökkhærð stúlka fyrir framan mig, og þannig gekk nafnakall fljótt fyrir sig. Ég jánkaði þegar mitt nafn kom og reyndi að muna á hvaða blaðsíðu við vorum komin. Ég fékk lánuð nokkur blöð og merkti. Jæja, nú var ég í sæmilega grunnum skít. Ætti að geta hóstað úr mér góðri afsökun og fengið að skila verkefninu á morgunn, jújú, alveg hægt, sannfærði ég sjálfan mig.
Rigningin lét heyra betur í sér og mér fannst eins og skólastofan væri á leið í gegnum bílaþvottastöð. Ég mundaði pennann og fór að skrifa.

Rigning fellur
og skellur
telur í
dagurinn fyrir bí.
—–