Sælir rithöfundar og annað áhugafólk um smásögur.

Okkur bárust þrjár sögur í jólasögukeppninni. Kannski ekki stór tala, en gæðin voru afar fín og því keppnin að okkar mati vel heppnuð í alla staði. Við Vefstjóri höfum dæmt sögurnar og hér er okkar gagnrýni og niðurstöður:

—————————

Júníujól - eftir Chantress
Falleg saga með hjartnæmum þræði, mikilvægum boðskap í nútíma samfélagi – og hugljúfum endi, brennimerkjum alla jólasagna. Þó virkar sagan meira eins og frásögn fremur en saga þar sem höfundur tekur sér reglulega leyfi til þess að stíga út fyrir Júníu, í stað þess að lýsa sjón Júníu á lífið og viðbrögðum annara persóna alfarið út frá hugarheimi hennar. Þetta dregur nokkuð úr innlifuninni sem sagan hefur að geyma. Metnaður höfundar kemur hinsvegar skýrt fram, þótt eitthvað hefði mátt yfirfara textann, t.d. málfar og endurtekningar. Sniðugt innskot með lagabútinn sem eflir jólatilfinningu sögunnar.

Allt í allt fínasta jólasaga sem höfundur má vera stoltur af.

Gjöfin frá Lóu - eftir johma
Vel skrifuð saga, sorgleg með hugljúfum endi í anda jólanna. En er þetta jólasaga fyrir utan hugljúfan endi og nokkrar tilvitnanir í jólapakka? Eftir að hafa lesið söguna fer mun meira fyrir áfallinu sem þessi fjölskylda varð fyrir í huga mér fremur en jólunum. Sem áfallasaga er hún flott, vel skrifuð og tilfinningaþrungin. Það er talsverður “pop-teen” keimur af henni (t.d. enskuslettur og tilvitnanir í bandaríska snillinga) sem höfðar einkar mikið til táningsstúlkna í dag - en spurning er hvort að jólasögur ættu ekki að höfða til breiðari markhóps, líkt og sagan “Hinir þöglu áhorfendur” gerði, sem var skrifuð af sama höfundi í jólakeppninni í fyrra? Það er þó ekki algild regla og má vera að höfundur hafi haft leshóp þessa áhugamáls í huga. Semmtileg uppsetning texta var okkur að skapi.

Góð saga, vel skrifuð - en hefði mátt vefja jólunum betur um söguþráðinn.

Litli álfurinn - eftir Violet
Fínasta saga með miklum jólaanda, ekki síst með tenginu í það yfirnáttúru- og ævintýralega. Þó finnst mér, líkt og í Sögu Chantress, frásagnastíllinn vera á flökti þannig að innlifun í söguna reynist erfið ( t.d.“… opnaði ég augun”, “Lítil stelpa tiplandi…”, “Foreldrar hennar…”). Einnig flöktir hugarheimur sögupersónunnar nokkuð á milli hins barnalega og hins fræðilega/afstæða (t.d. “…. upp stigann sem álfarnir höfðu búið til handa mér” “Þar hafði hraunið af einhverjum ástæðum stoppað flæði sitt og myndað 2 metra hraunvegg”).

Allt í allt góð saga með fallegum, jólalegum söguþræði og einkar góðum umhverfislýsingum. Má þó fínstilla frásagnastíl.

—————————

(fyrir úrslit - skoða neðar)






















Allt voru þetta fínustu sögur frá góðum rithöfundum sem við hvetjum til að halda áfram skriftum þar sem greinilegt er að hæfileiki liggur í hverjum og einum þeirra.

En í öllum hefðbundnum keppnum er aðeins einn sigurvegari - og verðum við að skilgreina slíkan hér.

Sigurvegarinn í jólasögukeppni /smasogur er………:

Chantress!

Að okkar mati var saga Chantress sú sem hafði “eitthvað af öllu” sem sannar jólasögur þurfa að hafa. Við óskum Chantress kærlega til hamingju og vonum að hún njóti sigursins þótt að fátt felist í honum nema okkar viðurkenning :)

Að okkar mati höfðu þó allar sögurnar eitthvað til síns ágætis - og vonum við eindregið að höfundar haldi áfram að skrifa þar sem það greinilega liggur fyrir þeim.

en Chantress fer með sigur af hólmi að þessu sinni!

Með kærri kveðju,
Ritstjóri og Vefstjóri Huga
"People hardly ever make use of the freedoms that they do have, like freedom of thought. Instead they demand freedom of speech as compensation" - Kirkegaard