Ég veit ekki við hvern ég er að tala, ég veit að ég er ekki að tala við mig sjálfa.
Ég verð að vera að tala við einhvern.
Ég verð að fá svör.
Ég get engu svarað.

*

Í fullkomri, óþægilegri einlægni veit ég hálfpartinn ekki um hvað ég er að tala.

Ég þekki vitanlega eigin sögu, ég veit um hvað þetta snýst. En blæbrigði þess eru mér óskýr.

*

Ég veit að mér líður illa, ég veit að mér líður illa af því að ég veit að honum líður illa.

Hann er sonur minn.

Hann er sextán ára.
Hann er veikur.
Ég er til þess að gera ung kona, ég er ekki einu sinni orðin fertug. Vel komin á fertugsaldur samt, en ég er ekki fertug.
Maðurinn er ekki einu sinni kominn með grillur um kaupa fáránlegan bíl eða að sofa hjá alltof ungri konu.
Fiðringurinn ætti enn að vera bjartur, síðan grár en aldrei svona svartur.

*

Hann er þunglyndur, alveg mjög.
Ég vildi að ég gæti lýst því betur, að ég þekkti betur inn á barnið mitt og að ég gæti sagt frá því fagurfræðilega, eða í hávísindalegum smáatriðum. Rakið uppruna þess.

Lýst því aðeins betur en: Alveg mjög.

Kannski er ég bara svona heimsk.
Kannski er ég bara svona vond mamma.

*

Það er raunar ekkert vafaatriði, ég er vond mamma.

Honum líður svona og hann segir mér ekkert.
Hann ætti að segja mér eitthvað, ég á að passa hann. Hjúkra honum. Honum að líða vel og hann á að koma til mömmu ef honum líður illa.
Ég á að kyssa bágtið.

*

Ég veit að þetta er mér að kenna, mér og manninum mínum báðum eflaust.
Við erum örugglega köld, fjarverandi og allt það.
Við gerðum eitthvað vitlaust, annars væri hann skælbrosandi á mynd með stelpu og bjór á Facebook.
Vinir hans myndu skrifa: “Refurinn þinn!” eða: “Rebbinn!” sennilega. (Ég meina, hann er í MS)

En hann er það ekki.

*

Ég skil þetta og ég þarf ekki að fara betur út í það, ég örugglega ekki að tala við neinn.

Það sem ég skil ekki er ég sjálf, ég veit ekki hverju ég er að syrgja.

*

Er ég að syrgja barninu mínu, hann er búinn að vera svona í fleiri ár.
Er ég að syrgja stráknum sem hann var?
Sem ég missti. Ég missti barnið mitt fyrir löngu og lifi nú við þetta þögla skrímlsi. Skrímsli ekkert illt vill en særir, ristir dýpra en nokkuð annað.

*

Er ég að syrgja eigin lífi?
Ég missti það fyrir fleiri árum, eigin geðheilsu, stefnum, vonum, draumum.
Ég lifi fyrir hann og hann vill ekki lifa.
Er ég virkilega, ofan á það að vera vond mamma og hálfviti, sjálfselsk? Það sjálfselsk að ég syrgi frekar en sjálfa mig en barnið mitt, sem er og hefur verið í fleiri ár, við dauðans dyr?
Hvað er að mér?

*

Ég vil svar.
Ég öskra í tómið í von um að fylla það.

*

Er aðgerðarleysi mitt refsivert?
Ég veit að ég ætti að vera löngu búin að vista hann.
Ég veit að hann tekur sitt eigið líf og ég veit að hann gerir það bráðum.

En hann vill það ekki. Hann er langveikur.
Má hann ekki slökkva á sér?
Væri rétt að koma í veg fyrir það?

*

Ég sýkti hann, á ég þá að halda honum sjúkum?

*

Ég hlýt að hafa sýkt hann.
Er ég kannski einfaldlega að syrgja syni mínum?
Er það möguleiki? Að ég búi yfr vott af góðmennsku?
Kannski vil ég bara ekki kveðja.
Kannski þykir mér frekar skítið að vera að kveðja son minn, að sjá dauða hans í hvert sinn sem ég loka augunum.
Að koma að líkinu hans í hvert sinn sem mig dreymir.

Kannski vil ég bara eiga son, son minn. Ég elska hann alveg. Sama hvað ég hef gert honum, án þess að vita hvað það er.

*
Hvern græt ég?
Ég vil svar.
Sama hver það er sem ég spyr.

http://wwww.smasogursiv.wordpress.com