Húsið var að kæfa mig. Þannig leið mér stundum, jafnvel þótt ég væri ein heima. Hefði ég verið niðri í bæ hefði ég fengið mér gögnutúr í sjoppuna og keypt mér ís, þrátt fyrir frostið. En fimm kílómetra göngutúr niður í bæ eftir ís í frosti var ekki sniðugasta hugmyndin. Pabbi og mamma voru á þarnæsta bæ á þorrablótsnefndarfundi. Ég klæddi mig í dúnúlpuna, snjóbuxurnar, húfu og vettlinga. Mælirinn sýndi –5° C. Þótt mig langaði út langaði mig ekki að verða kalt.
Ég gekk út í myrkrið. Um það bil 10 metra frá húsinu var lítil klettaborg. Auðvelt var að klifra upp á lægsta steininn og þar var hægt að sitja og halla bakinu upp að öðrum kletti. Á sumrin sat ég þarna oft með bók eða þegar ég hafði um mikið að hugsa. Síðustu vikur hafði farið þarna út eftir til að hugsa ekki, eða reyna að hugsa ekki.

Ég var ekki viss hvað hafði breyst. Það var enginn einn atburður nákvæmlega en eitthvað hafði breyst í skólanum, í bekknum. Andrúmsloftið var öðruvísi, mér fannst ég meira útundan en áður. Jafnvel þótt ég hefði búið hérna í bráðum fimm ár var ég aðflutt. Það sagði það enginn berum orðum, allir voru vingjarnlegir, ég þekkti alla og átti góða vini, en samt var ég aðflutt. Ætli mér myndi nokkurn finnast ég eiga heima nokkursstaðar, falla inn í?

Það marraði í snjónum þegar ég gekk út að klettinum og klifraði upp á sylluna mína. Frostið beit í kinnarnar en ég var nógu vel klædd til að sitja í smá stund. Ég hallaði bakinu að steininum og reigði hálsinn til að líta upp í stjörnum prýddan himininn. Ein lítil norðurljósaslæða teygði sig þvert yfir himininn. Ég starði á hana þar til hún byrjaði að dansa, breikka og mjókka, teygjast og hreyfast. Ég fylgdist með ljósaspilinu fyrir ofan mig þangað til mig fór að verkja í hálsinn. Ég sneri hörfðinu varlega til beggja hliða til að liðka kalda vöðvana og gleymdi mér svo aftur í grænu logunum á svörtum himninum.


Ég flaut í svörtu. Það var ekkert nema dimmt. Mér leið ekki illa. Þetta var frekar notalegt myrkur, mjúkt og hlýtt. Það hefði verið auðvelt að gleyma sér hér. Fljóta um í þessu indæla ginnungagapi, laus við allar áhyggjur, vandræðalegheit, hugsanir og allt.

Eitthvað kom við kinnina á mér. Ég var ekki ein. Mér fannst sem legði lófa við vanga minn. Snertingin var logandi heit. Fram að því fannst mér myrkrið hlýtt en nú áttáði ég mig á því að ég var gegnköld og gat ekki lengur hreyft mig fyrir kulda. Snertingin á vanganum var það eina sem aftraði hræðslunni að ná undirtökunum og innilokunnarkenndinni að yfirtaka mig. Ylurinn breiddist um anditið og streymdi eftir skinninu niður hálsinn og axlirnar og svo áfram. Tilfinningin var ekki lík nokkru sem ég hafði áður upplifað.

Snertingin breyttist í stroku. Einhver strauk mér um vangann. Ég reyndi að snúa höfðinu og þrýsta kinninni út í lófann sem lá upp við hana en ég var ennþá of köld til að geta það. Ég gat samt opnað augun.

Myrkrið var farið og fyrir framan mig var vera sem strauk mér um vangann. Hann var mannlegur í útliti en birtan sem geislaði útfrá honum og hrakti burt myrkrið sem áður hafði umlukið mig gerði hann ævintýralegan. Svo var hann ævintýralega myndarlegur. Sætur dugði ekki til að lýsa honum. Jafnvel þótt hann lýsti ekki upp myrkrið eins og sól hefði bjartur verið orðið til að lýsa honum. Hann var á svipuðum aldri við mig, kannski aðeins eldri eða aðeins yngri. Augun voru rétt nógu blá til að teljast blá en ekki hvít, umlukin löngum dökkum augnhárum sem stungu í stúf við ljósa yfirlitið. Varirnar voru rauðar, nefið beint, kinnbeinin há og kinnarnar örlítið bleikar. Hann brosti og lyfti þeirri hendi sem ekki snerti mig til að greiða gulllitað hárið, sem klippt var beint í kjálkahæð, á bak við eyrað.

Hann horfði á mig og brosti, sagði ekki neitt. Ég var of upptekin við að reyna að halda hjartanu inni í brjóstholinu til að hafa einbeitingu í að reyna að tala við þessa guðdómlegu veru fyrir faman mig. Hann sat klofvega ofan á lærunum á mér. Skyndilega fannst mér mikil synd að vera jafn kappklædd og ég var. Hann var bara í ljósum langerma bol og brúnum buxum. Skyldi honum ekki vera kalt?

Lófi hans strauk upp og niður vangann á mér og hitinn sem frá honum stafaði breiddi sig út um líkama minn. Hann hallaði sér fram og andlit hans og kom nær mér. Ætlaði hann að kyssa mig? Ég hallaði aftur augunum þegar ljósið hans blindaði mig og bjóst við að finna fyrir vörum hans á mínum hvað og hverju. Heitur andardráttur hans lagðist yfir varir mínar og ég andaði honum að mér. Svo færði hann sig aftur en ég fann að hann var ennþá nálægt mér. Svo snerti hann hina kinnina. Án þess að sjá það vissi ég að hann hafði lagt vanga sinn við minn.

Aftur flaut ég í einhvers konar móki en núna var bjart og heitt og blóðið ólgaði í æðum mér í stað þess að frjósa. Mér var orðið heitt um allan skrokkinn og undarlegur fiðringur lék um mig.

Andardráttur hans var við eyrað á mér núna.

„Elísa,“ sagði hann mjúlega með fallegri klingjandi rödd. „Þú verður að vakna.“

Ég skildi ekki hvað hann átti við. Ég hafði aldrei verið jafn vakandi og akkúrat á þessu augnabliki.

„Þú verður að vakna.“

Hann sneri höfðinu og þrýsti vörunum að kjálkanum á mér. Hann færði sig og smellti kossi á kinnina, svo á munnvikið og loks fann ég mjúkar og heitar varirnar við mínar. Hann færði sig tók efri vörina mína á milli sinna og ég reyndi að gera það sama við neðri vörina hans. Hitinn og tilfinningin var yfirþyrmandi og mér fannst mig svima þar til hann sleppti mér.

Ég opnaði augun og mætti augnaráði hans á ný. Hann var ekki eins glaður og áður.

„Vaknaðu nú,“ sagði hann og málrómurinn var biðjandi. Hefði hann beðið mig um að skera af mér aðra hendina hefði ég sagt já við því án þess að hugsa mig um.

„Allt í lagi.“

Hann hallaði sér að mér aftur og smellti stuttum kossi á varir mínar og mér var kalt. Hann var farinn og myrkrið komið aftur. Nú var það ekki mjúka hlýja myrkrið sem hann hafði fundið mig í heldur var það kalt myrkur vetrarnæturinnar undir stjörnuhimninum. Ég vissi ekki hversu lengi ég hafði setið hérna en ég var orðin verulega stirð og þurfti að vanda mig til að komast niður af klettinum án þess að detta.

Ég hlaut að hafa sofnað á klettinum. Ég hafði verið úti í rúman klukkutíma það virtust ekki vera nema kannski tuttugu mínútur. Ég vissi að það var hættulegt að sofna úti í svona kulda og það hefði getað farið illa.

Ég hengdi upp fötin og dreif mig inn í eldhús, setti vatn í hraðsuðuketilinn og náði í kakómaltið inn í skáp. Ég fylgdist með katlinum hitna og titra þegar vatnið fór að sjóða. Ég bar fingurna upp að vörunum og reyndi að muna nákvæmlega hvernig varir hans löguðust á mínum. Þetta var besti fyrsti koss sem nokkur stelpa gat ímyndað sér. Og hann hafði ekki verið draumur.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.