Ég hélt aldrei að þú myndir deyja. Í alvörunni ekki. Auðvitað hugsaði ég um það, en ég trúði því aldrei.

Nú eru liðin þrjú og hálft ár og enn hugsa ég um þig á hverjum degi. Líklegast hefur dauði þinn haft margfalt meiri áhrif á mig en líf þitt hefði nokkurntímann haft.

Ég hugsa um þennan dag á fjallinu, daginn sem þú sagðir orðið “krabbamein” fyrst. Ég held samt að þú hafir verið leiðari yfir því að hætta með kærustunni. Ekkert okkar tók þetta alvarlega. Ég man að ég tók utan um þig og hélt þér fast í augnablik. Svo var það búið og lífið hélt áfram.

Ertu
þarna?

Ég man eftir kvöldinu sem við grófum snjóhúsið. Ég hringdi sérstaklega í ykkur öll til að fá ykkur til að koma á fundinn. Kveikti á öllum kertunum í stóra kertastjakanum. Ég var ekki með neitt plan, mig langaði bara að gera eitthvað með ykkur. Ég slökkti ljósin, man eftir þér í kertaljósinu, sköllóttum. Þið nenntuð samt ekkert að hanga, þurftuð alltaf að gera eitthvað. Svo við fundum okkur skafl og grófum snjóhús. Ég man að þú varðst fljótt þreyttur á að moka, en þú varst samt ekkert að deyja. Bara þreyttur eftir lyfjameðferðina.

Mannstu?

Ég man þegar við fórum út að keyra í snjónum og þú rústaðir stýrinu á bílnum hans pabba þíns. Ég man þegar við vorum alltaf að tala saman á MSN um sumarið, ég í vinnunni og þú á spítalanum. Ég man þegar þú fórst út í hjólastólnum á 17. júní. Það var samt ekkert mál, þú varst að fara í aðgerð til að láta taka æxlið frá tauginni.

Vissirðu þá
að þú værir að deyja?

Ég man eftir síðasta skiptinu sem ég sá þig. Á 11E, lengst inni á ganginum á stofu 13. Þú lást í rúminu og ég veit ekki hvort þú vissir af mér, en ég vona það. Jafnvel þá var ég viss um að þú myndir hafa það af. Síðan þá hef ég séð marga í því ástandi sem þú varst í þá, nú veit ég hvað það þýðir.

Ég man eftir deginum sem þau sögðu það fyrst. Deginum sem þau sögðu að þú værir að deyja. Mamma sótti mig í vinnuna.

Ég man eftir vikunni sem þú barðist, vikunni sem við biðum. Deginum sem fréttirnar komu. Deginum sem ég uppgötvaði hvað ég átti stóra fjölskyldu. Deginum sem veruleikinn sló mig. Þú varst farinn.

Eða varstu farin?

Í lífinu varstu sonur, bróðir, vinur, skólafélagi, skátaforingi, fyrirmynd. Í dauðanum ertu allt þetta og meira til. Þú ert eilíf áminning til okkar sem eftir erum um hvað lífið er dýrmætt. Hversu skyndilega við getum misst það sem við vissum varla að við höfðum. Með hugrekki þínu og heiðarleika hveturðu okkur áfram. Hvetur okkur til að gera meira, elska meira, þakka fyrir meira. Með dauða þínum hefurðu vakið mig til lífs.

Eitt tár
að lokum.