Þessi skemmtilega “örsaga” er reyndar ekki eftir mig, en þýðingin er það. Sagan heitir á frummálinu “Self-Limiting” og er eftir ágæatan mann að nafni Robert L. Forward.



Það eru engir milljarðamæringar á Xanax.

Þó er lífsbaráttan ekki hörð þar. Melkor kóngur sér til þess. Þegar farið er með lítinn Xanaxa af útungunardeildinni, er honum komið í læri hjá meistara, sem hýsir hann og kennir honum sitt fag. Þegar meistarinn andast, tekur lærlingurinn yfir bú hans og starf. Með smá dugnaði streyma zórínurnar inn. Flestum er þeim varið í lífsnauðsynjar og skatta, en Melkor kóngur er skilningsríkur við þegna sína, og því verða alltaf einhverjar zórínur afgangs til geymslu í aurabúrinu fyrir efri árin.

Með árunum fyllist aurabúrið smám saman með stöflum af 1000-zórína mynt. Myntin skartar ásjónu Melkors kóngs, og er slegin úr fögrum og sjaldgæfum silfurgráum málmi sem töframenn kóngs vinna á undraverðan hátt úr eitruðum bergtegundum.

Um miðjan aldur á meðal-Xanaxi rúmlega þúsund 1000-zórín kalla í aurabúri sínu. Um það leyti fær hann lærling í sína umsjón. Næstu árin eru stundum strembin, því kenna þarft lærlingnum fagið. En síðan tekur lærlingurinn yfir, og þá er mál að draga sig í hlé. Nú er kominn tími til að setjast á eggin, spila pastil við aðra aldraða Xanaxa, og segja ný-klöktu ungviðinu sögur af gömlu góðu dögunum og fjarlægum slóðum.

Endalokin eru skjót hjá Xanöxum. Einn góðan veðurdag á sínum efri árum vakna þeir og sjá að hrukkótt húð þeirra hefur fölnað úr grænu yfir í grátt. Xanaxi veit þá, að hann á bara einn dag eftir ólifaðan, hann mun deyja næstu nótt. Hann nær í síðustu zórínurnar úr aurabúrinu sínu, gefur lærlingi sínum veglegan bónus, fer síðan út á götu til að gefa afganginn.

Það er hreint ekki auðvelt að gefa frá sér fé á Xanax. Flestir Xanaxar afþakka pent og segja að þeir eigi alveg nóg sjálfir. En þó kemur alltaf fyrir að einhverjir hafi orðið fyrir veikindum eða slysum um ævina, þannig að aurabúr þeirra er ábótavant. Viðkomandi segja gefandanum hversu mikið þeir telja sig þurfa, og hann lætur þá hafa það umyrðalaust, því óheiðarleiki og græðgi fyrirfinnast ekki á Xanax.

En svo kom að því að eitthvað klúðraðist með egg, og Kvittur klaktist út. Kvittur komst gegnum útungunarstöðina og lærlingsár sín án vandræða. En þegar þar að kom að meistari Kvitts gránaði og fór að gefa síðustu aura sína, var Kvittur ekki nógu ánægður með bónusinn sinn, og laug – sagðist þurfa á ÖLLUM aurunum að halda. Sá gamli var ekki að rengja hann, og eftirlét honum allt sitt fé.

Næsta kvöld stækkaði Kvittur aurabúrið sitt. Aurabúr höfðu vanalega pláss fyrir um það bil tíuþúsund 1000-zórínkalla. Kvittur stækkaði sitt tífalt. Þegar honum tækist að fylla það, myndi það rýma rúman milljarð zórína. Allur líkami Kvitts hríslaðist við tilhugsunina um að verða milljarðamæringur. Honum varð þó ekki skemmt við að sjá að þessir tveir aumu aurasekkir sem hann nú átti, náðu bara rétt að fylla upp í eitt hornið af aurabúrinu hans nýja. Hann yrði greinilega að finna betri leið til fjáröflunar en einungis að vinna við sitt fag. Þá flaug honum eilítið í hug, eitthvað sem var svo fjarri Xanönskum hugsunarhætti að ekki var einu sinni til orð yfir það: Hann myndi “ræna” fleiri zórínum úr aurabúrum nágranna sinna!

Eftir að hafa uppgötvað þessa snilld á sviði óheiðarleika og grægði, var Kvittur ekki lengi að fylla aurabúrið af sekkjum. Daglega fór hann í göngutúra, þar til að hann sá einhvern miðaldra meistara yfirgefa híbýli sín í einhverjum eringagjörðum. Það eru engir lásar á Xanönskum híbýlum, þannig að Kvittur gat einfaldlega labbað beint inn og hreinsað zórínurnar úr aurabúrunum. Hann nennti ekki að tína upp klinkið, hann tók einungis stóru fínu þúsundkallana.

Að hverju ráni loknu settist hann niður við aurabúrið sitt og dáðist að fjársjóðnum. Hann lék sér með myntirnar, hann staflaði þeim og taldi þær. Síðan setti hann þær aftur í sekkina, tíuþúsund stykki í hvern, og setti þá aftur í aurabúrið. Brátt var hann búinn að stafla níu sekkjum við alla veggi aurabúrsins, aðeins var pláss í miðjunni fyrir einn í viðbót. Þegar það pláss yrði fyllt, yrði Kvittur milljarðamæringur!

Daginn eftir var heppnin aldeilis með Kvitt. Hann sá ríkulegan miðaldra meistara halda af stað til vinnu ásamt lærlingi sínum úr álíka ríkulegum híbýlum. Hann fór inn og skóflaði úr haugum af 1000-zórínköllum í pokann sinn. Hann flýtti sér síðan heim á leið. Kvittur var himinlifandi. Sekkurinn með öllum aurunum var jafnvel þyngri en hann átti að venjast. Kvittur kom heim til sín og horfði á aurabúrið sitt glottandi á svip. Hann fleygði nýja sekknum á sinn stað. Nú var hann loksins orðinn milljarðamæringur!

Um leið og sekkurinn með allri plútóníum-239 myntinni komst í snertingu við hina sekkina í búrinu, varð keðjuverkun, og allt sprakk…

Það eru engir milljarðamæringar á Xanax.
_______________________