Friðbjörn sest niður með rjúkandi kaffibollann sinn. Gjóir augunum snögglega á fyrirsagnir Fréttablaðsins. Bensínlíterinn hækkar upp úr öllu valdi, krassandi fyrirsögnin fangar athygli Friðbjörns ekkert, enda er hann vanur að taka almenningssamgöngur allar sínar götur. Meira að segja í jarðarfarir einsog hann hafði gert um árið hjá Þjóðhildi langömmusystur. Friðbjörn setur kaffibollan niður, um árið? Ætli það séu ekki liðin ein tíu ár síðan Þjolla gaf upp öndina, háöldruð manneskjan. Friðbjörn hristir hausinn lítillega, ó hve tíminn er farinn að líða hratt, hugsar hann. Ýtir þó þessum vafasömu hugsunum á braut þegar hann ákveður að gera sér glaðan dag og stendur upp, ekki lengur svo fimlega, og sækir sér þurra brúnkökusneið í ísskápinn sem er árgerð 1970. Friðbjörn staulast svo að nýju að eldhúsborðinu og sest þar niður. Hann andar frá sér þreytulega, þolið er víst ekki eins og það var hér í gömlu góðu dagana. Friðbjörn blaðar í gegnum blaðið og sýpur handahófskennt af kaffinu. Flestir mundu eflaust segja að Friðbjörn væri að sóa lífi sínu, eða því sem eftir er af því. Því Friðbjörn er orðinn sextíu og sjö ára. Þrjú ár í stóra sjö núll. En enginn veit að undir smáborgaralegu yfirbragði Friðbjörns leynist frækinn könnuður. Já, því Friðbjörn hefur safnað dósum frá árinu 1959, þá sextán ára gamall. Hann hefur safnað yfir milljón dósum á öllum hátíðum þar á meðal; 17 júní, Menningarnótt, Ljósanótt bara nefndu það! Friðbjörn hefur verið á staðnum með lúinn barnavagn og með sixpensarann virðulega á gráum hártæjunum. Hann hefur ætíð dreymt um að eyða ellinni á einhverjum framandi stað. Hann er með eilítinn valkvíða, þrátt fyrir að hafa haft yfir hálfa öld til að gera upp hug sinn. Friðbirni hefur þó tekist að þrengja möguleikana í um tólf lönd. Flest þeirra eru sólarlönd en einstaka lönd einsog Grænland og Nepal en Friðbjörn ákvað að setja það á listann fyrir fjölbreytninnar sakir. Þar sem Friðbjörn er nýsestur í helgan stein hefur hann þennan mánudag algjörlega óplanaðan. Hann gæti gert hvað svosem honum sýnist. Ef hann hefði bara áhuga á því. Því sjáðu til, Friðbjörn er alls ekki maður sem framkvæmir án þess að hafa íhugað það vel og vandlega, yfirleitt í nokkra mánuði. Því honum þykir lífið of stutt fyrir mistök. Friðbjörn leiðir hugann að öllu því káli sem hann hefur treyst bankanum fyrir. Væri það ekki sniðugra að geyma allt þetta fé á öruggum stað, eins og til dæmið undir koddanum? Eða jafnvel undir lausu gólffjölinni inní stofu? Jú, Friðbjörn hefur ákveðið að vera svolítið víðsýnn í dag. Gera eitthvað alveg óútpælt í stundarbrjálæðinu. Hann tekur á sig rögg og stendur upp. Brestur heyrist og Friðbjörn afskræmist í framan, bölvað bakið er að gefa sig. Hann gengur þungur í sporum að útidyrahurðinni, grípur gamla góða flauelsisjakkan sinn og stafinn, hagræðir sixpensaranum og lokar dyrunum að sjötíu fermetra íbúðinni sinni.

Friðbjörn situr fremst í strætisvagninum. Bölvar unglömbum þjóðarinnar fyrir viðurstyggðina sem dynur í eyrum hans. Hann minnist gömlu góðu dagana er raunverulegir hæfileikar voru það eina sem framfleyttu þér í lífinu. Nú til dags er það einungis góð tölva. Friðbjörn þrýstir með lúnum fingrunum á rauðan hnapp. Innan fárra andartaka stansar vagninn og Friðbjörn staulast út. Skýin kúra við jörðina og Friðbjörn spáir því með sjálfum sér að það muni rigna. Bölvað vesen að hafa ekki tekið með sér regnhlíf, hugsar Friðbjörn með sér þegar hann gengur inn um bankadyrnar.
Maður sem fullur er efasemda gengur útúr tvistinum. Með hugann annars staðar gengur hann yfir götuna. Friðbjörn vissi á því andartaki sem rauður Austin mini nálgast á þeim hraða sem ómögulegt er fyrir greyið Friðbjörn að forða sér frá að hann hefði aldrei átt að gera eitthvað óúthugsað.