Sólin kvaddi mig með handabandi rétt í þessu. Hvíslaði í eyra mitt að hún væri búin að fá nóg af sjálfri sér, nóg af birtunni sem heldur mannkyninu gangandi. Nokkrum andartökum síðar var hún flúin á brott, í óendanlegan flótti frá sjálfri sér. Ósigrandi barátta tilfinninga sem skipta hvort eð er engu máli þegar uppi er staðið, en hvað með það. Hún er farin en innst inni veit ég að hún mun koma vesalingsleg til baka, því það gerir hún alltaf.

Brotthvarf birtunnar snertir mig ekki hið minnsta, kallar ekki fram eitt einasta tregafulla tár, neinar efasemdir um eilífðina né auka hjartslag í brjósti mér. Andstætt því þá snerta viðbrögð mín mig á ýmsan og lygilegan hátt. Fá mig til þess að hugsa og hvað í þessum heimi er verra en að hugsa? Hvað er svo flókið að það jafnast á við ótal hugsanir á sveimi í einni og sömu sálinni? Segðu mér að það sé ekkert. Burt séð frá öllum þeim sannleika sem orð geta mögulega falið í sér. Burt séð frá því að það sé álíka ósatt og þessi þurru tár þín sem leka niður kinnar þínar, eingöngu af illri nauðsyn. Hvað er ég svo sem án sólarinnar eftir allt saman? Líklega ekkert nema lítið peð í jafn ósigrandi baráttu og sjálf sólin. Á endanum eru það hugsanlega þessar vonlausu baráttur sem halda mér (og þér) gangandi, sú veika uppgerða von sem ávallt býr í brjósti okkar er það eina sem fær hjartað til að slá. Og það er svo mun auðveldara þegar við eru saman, hönd í hönd.

Ég gefst upp á sólinni (eða gafst hún kannski frekar upp á mér?) og daðra við tunglið. Ekki með orðum, þau eru of augljós. Ekki með því að strjúka höndunum í gegnum hárið, það er ekki mín aðferð. Augun daðra, stara á tunglið í eitt smátt andartak þó þannig að það sé eftirteknavert. Í sömu andrá flytjast þau á brott niður að blómunum, lokast. Ég finn fyrir hjartanu sem er svo merkilega aumt. Lít aftur á tunglið, augu okkar mætast. Hjartað við það að flýja vettvang með skottið á milli fótanna, eins brothætt og spegill (sem aldrei segir annað en sannleikann). Hjartað þraukar sem betur fer, eða hvað? Við leiðumst, ég og tunglið. Eins og venjulegt ástfangið fólk á leið að altarinu til að staðfesta ást sína. Fyrir utan efasemdirnar, við höfum þær ekki, ekki um sinn. Við tölum um stjörnurnar og ég fæ það í andartak á tilfinningunni að þær liggi við hlustir (ekkert ólíkt þeim svo sem). Við hlægjum því það er svo auðvelt, því það er svo fyrirsjáanlegt og líka að því við höfum ekkert betra að gera. Tunglið segist vera hamingjusamt, ég vel að halda áfram að hlægja, því ég vil ekki eiga í hættu á því að ljúga. Ekki að orðin tóm skipti einhverju máli þegar gleðin er svo nærri. Ég veit að tunglið þarf fljótt að fara á fund annarra því ég sé teikn um að sólin sé að nálgast. Því allt leitar að því sem það þekkir, hvort sem það er gleði eða sorg.

Sólin fann mig, sagðist vera full af eftirsjá og ég sá það á látbragði hennar. Geislarnir ekki lengur bjartir heldur dökkir. Ég breiði út arma mína og sólin tekur utan um mig, jafn köld og myrkrið. Ég segi sólinni frá tunglinu og hún bölvar, eins kaldhæðnislega og það kann að hljóma. Afbrýðissemin skín í gegnum dimmu orðin og það gerir mig glaðan. Það að einhver þrái mig, það að einhver telur sig þurfa á mér að halda er það sem gleður mig mest af öllu.

Svo hverfur sólin og það fer að rökkva. Eitthvað sem aldrei mun breytast, því vitundin og öryggið er það sem kallar á hamingjuna. Tunglið heilsar, jafn heillandi ef ekki meira heillandi en áður og allt byrjar aftur. Því sólahringurinn mun aldrei breytast, því ástin mun aldrei deyja, því tárin munu aldrei þorna.