Ég starði út um eldhúsgluggann og sá sólina rísa upp úr sjóndeildarhringnum. Maí himinninn var fallega bleik-rauður. Fugl flaug syngjandi fram hjá.
Fuglasöngurinn fékk mig til að líta á linsoðna eggið mitt og rauðan starði á mig á móti.
Furðulegt. Alveg furðulegt. Þvílíkt undur að úr þessu rauða og hvíta sulli gæti skapast nýtt líf. Yndislegt, að úr þessu litla sulli hefði getað orðið til ný lífvera. Nýr fugl til að bera söng og fegurð í náttúruna.
Það getur ekki verið tilviljun að úr svona flóknum og margvíslegum efnasamböndum úr aðeins 100 frumefnum eru til milljóni dýrategunda og plantna. Þetta er of flókið og einfalt á sama tíma til að geta gerst. Þó það hefði þróast í fleiri, fleiri milljón ár. Það væri of gott til að vera satt.
Ég trúði ekki á Kristni þótt ég væri bæði skírð og fermd.
Ég hafði enga trú. Því hvort sem guð eða guðir væru til eða ei þá var ég hér samt og lifði eins og mér sýndist. Trúarbrögð voru bara gömul heimspekileg og sagnfræðileg rit um siðfræði síns tíma. Vissulega væri hægt að læra margt á því að lesa þessi rit, ég efaðist þó um að æðrimáttarvöld væru til. Örlögin og völdin eru í okkar eigin höndum.
Samt virtist allt svo tilgangslaust, ef það væri ekkert æðravald.
Ég heyrði þung skref fyrir ofan mig og þekkti göngulagið strax. Hún var vöknuð.
Ég gleypti það sem eftir var af egginu í örfáum bitum, opnaði fataskápinn og skellti mér í jakka. Mér var litið á ljóta, bláa hjólahjálminn minn. Hann sat þarna aumingjalegur og virtist stara á mig. Ég lokaði skápnum og skildi hjálminn eftir.
Hárið mitt varð alltaf svo ljótt eftir að ég hafði verið með hjálm.
Ég dreif mig út til að forðast stjúpmóður mína. Hún var ekki ein af þeim morgunglöðustu.
Ég stökk á hljólið mitt og brunaði af stað í átt að Menntaskólanum í Hamrahlíð.
Ég hélt áfram að íhuga um lífið og tilveruna. Tilganginn og upphafið.
Hvernig ætli það sé að deyja og vera dauður?
Það getur ekki verið algjört tóm eftir dauðann. Það bara stenst ekki.
Allt þetta ferli til að búa til nýtt líf og nýja lífveru er of flókið til að dauðinn gæti fengið að vera einfaldur.
Ég brunaði upp borgarhlíð, sokkin í mínum eigin pælingum.
Hafði ekki hugmynd um að eftir aðeins andartak myndi ég vita meira um dauðan en ég hefði nokkurn tíman kært mig um.
Ég tók hvorki eftir jeppanum hinum megin við hornið né rauða götuljósinu eða sá að bílstjórinn var að tala í símann.
Ég tók fyrst eftir umhverfinu þegar skær bílljósin blinduðu mig og þegar ég fann sársaukann sem kom þegar tveggja tonna jeppinn skelltist á lærið á mér af fullum þunga.
Mér var hugsað til hjálmsins sem sat heima inn í skáp.
Ég skall á jörðina. Allt var svart.
Sársaukinn óbærilegur.
Heyrði hóp af fólki sökra af skelfingu.
Ég opnaði augun.
Ég fann stingandi sársauka um hnakkann og svo um allan líkamann.
Ég starði á himinbláman. Skýin flugu hægt fram hjá. Þau virtust svo mjúk.
Guð hvað það væri gott að liggja á einu slíku akkúrat núna.
Ég heyrði í sírenu sjúkrabílsins. Ætli einhver hafi slasast?Hvað ætli hafi gerst?
Ég leit til hliðar. Af hverju var það svona vont? Hvers vegna verkjaði mig um allan líkamann?
Það var blóð út um allt. Mitt blóð!
Mig langaði að öskra en ég kom ekki upp nokkru hljóði.
Yfirborðshátturinn, grunnhyggjan hafði orðið litla heimspekingnum að bana.
Agnarlítið, kaldhæðnislegt glott færðist um varirnar.
Sjúkraliðarnir krupu við hlið mér. Mér var starsýnt á einn þeirra. Hann hafði fallegustu grænu augu sem ég hafði séð. Hann sagði eitthvað við mig en ég heyrði ekki hvað það var. Röddin var svo mjúk og yndisleg en sársaukinn var of mikill.
Ég ætlaði að hvíla mig í smá stund. Bara smá stund.
Hægt og rólega lokaði ég augunum og opnaði þau ekki framar.Jóhanna Margrét Sigurðardótti
Why be normal, when strange is much more interesting