Ég sat út í horni og las, hlustaði á ættingja mína tala saman með öðru eyranu. Mér hafði aldrei komið sérstaklega vel við föður fjölskylduna mína en hún var þarna samt. Sjálfumglaðir glannar sem smjatta á mattnum, sötra drykkina og gala hver í kapp við annan. Yndislegir ættingjar af bestu gerð.
Ég fyrirleit þessar samkomur en var samt alltaf dregin með. Einhverra hluta vegna fannst öllum svo mikilvægt að ég léti sjá mig þótt engum dytti í hug að tala við mig af neinu ráði. Ef ég neitaði að koma hélt faðir minn alltaf því fram að allir myndu sakna mín svo ofboðslega. Það vantaði litla heimspekinginn. Litla snillinginn.
Hví gat hann ekki horfst í augu við þá staðreynd að ég átti enga samleið með þessu fólki?
Ég var reyndar hætt að kvarta. Hafði ekki kvartað síðan mamma dó.
Sagði ekki eitt neikvætt orð um fjölskyldu samkomurnar eftir að hún kom.
Og þarna sat hún, með bumbuna og hrukkurnar í alltof flegnum kjól fyrir hennar aldur, í hægindastólnum hans afa beint á móti mér. Hún hafði ekkert með það að gera að sitja í stólnum en þarna var hún samt. Eins og hórumamma í fjólubláa, fleygna, stutta kjólnum.
Ég glotti í laumi bakvið þykku bókina mína.
Það versta var að hún var jafn hávær, jafn dónaleg og föðurfjölskyldan. Hún gjörsamlega féll í hópinn. Það var eitthvað sem mér hafði aldrei tekist og ætlaði mér ekkert að reyna. Ég hafði engan áhuga á að blanda mér inn í þetta lið.
Pabbi reyndi það ekki heldur. Hann sat þarna bara þögull og hlustaði á alla í ástríðafullum rökræðum. Ég held að ástæðan fyrir því að hann hefur alltaf dregið mig með í þessi fjölskylduboð sé svo hann sé ekki einn útundan. Hann sé ekki sá eini sem er skrítinn.
Samt eigum við feðginin voða lítið sameiginlegt. Hann er þarna einfaldlega og það er alltof sumt. Ég hef aldrei vitað hvernig faðir minn hugsar eða hverju hann hefur áhuga á. Mér er hreinlega sama. Við skiptum ekki að hvort öðru nema nauðsyn krefur.
Flestum finnst þetta sorglegt samband og finnst að við ættum að bæta úr því en það er þægilegt eins og það er. Gæti ekki verið betra að mínu mati.
,,Já, við ættum öll að ýta undir öfundina í okkur. Það er einmitt hún sem knýr okkur áfram í að gera betur. Þegar við sjáum einhvern hafa eitthvað sem við viljum og öfundum hann, ættum við að vinna í því að ná í það sama. Það er leiðin að hamingjusamlegu lífi eins og okkar. Ekki satt Hermann?,” spurði stjúpa mín og starði á föður minn sem starði á hana á móti og vissi ekki hvað af sér stóð veðrið. Hann hafði ekkert verið að hlusta það sem eiginkona hans hafði verið að segja. Ég brosti á ný.
,,Hmm..ha? Jú, jú ætli það ekki,” tókst honum loks að koma upp. Stjúpmóðir mín brosti sínu gervilegasta brosi og hélt áfram þessari fáránlegu ræðu sinni hvað öfundsýki væri góð fyrir sálina og metnaðinn.
,,Það er nú ekki rétt hjá þér,” sagði ég og starði beint í augu stjúpu minnar. Allir þögnuðu í stofunni og störðu á mig. Enginn virtist trúa því að ég hefði þá kunnáttu að tala. Í andartak. Aðeins andartak missti stjúpmóðir mín andlitið. Hatrið ólgaði í henni. Ef augnaráð gæti drepið hefði ég dáið á stundinni. En gríman var fljótlega komin upp á ný og hún brosti fallega til mín. Enginn hafði tekið eftir þessu dýrmæta sekúntubroti og allra síst hann faðir minn. Á þessu sekúntubroti hafði hún sýnt sína sönnu sál.
,,Nú, þú segir það?,” sagði hún með sínu stífa brosi.
,,Já, ég segi það. Öfund hefur aldrei leitt neitt gott af sér. Hún ýtir einungis og einungis undir græðgi, eigingirni og hroka. Ef þú finnur fyrir öfundsýki getur þú ekki samgleðst fólki en ef þú dáist af þeim getur notið hamingjunnar með þeim. Maður á ekki að öfunda fólk fyrir góða eiginleika heldur dást að þeim og reyna að gera eins.
Ef ég sæi konu gefa heimilislausum mat ætti ég ekki að öfunda hana fyrir góðmennsku hennar heldur líta upp til hennar og gera eins. Þegar þú fréttir að vinir þínir fá kauphækkun áttu að samgleðjast þeim og óska þeim til hamingju. Dást að þrautseglu þeirra og iðjusemi og reyna að gera eins.”
Ég horfði í augu hennar allan tíman. Ættingjarnir sátu stjarfir í sætunum. Enginn virtist þora að segja eitt auka tekið orð. Líkt og áhorfendur að fylgjast með loka bardaganum í einu af þessum amerísku hasarmyndum.
,,Hahaha.. en elskan mína. Öfund og aðdáun er næstum það sama,” sagði hún og hló.
,,Langt í frá. Ég hélt að þú kynnir eitthvað í þínu eigin tungumáli til að skilja merkingu orða en það er greinilegt að við notum sitthvora orðabókina.”
,,Æ, elskan mín. Ég held að þú sökkvir þér of mikið í bækurnar þínar.”
Hún snéri sér að næsta manni og hóf aðrar samræður. Allir hinir í fjölskyldunni gerðu hið sama.
Reiðin sauð í mér en ég sýndi hana ekki.
Ég ýtti gleraugunum aftur upp á nefið, en þau höfðu sigið niðu
r í æsingnum, og grúfði andlitið ofan í bókina.
Ég skipti mér ekki meir af samræðum fjölskyldu minnar það kvöldið.




Eftir:

Jóhanna Margrét Sigurðardótti
Why be normal, when strange is much more interesting