„Komdu, hlauptu!“ heyri ég pabba kalla tíu metrum fyrir framan mig. Hann er í bláu gallabuxunum og hvítu skyrtunni sem mamma gaf honum áður en hún fór. „En það er komin nótt og ég er þreyttur!“ kalla ég á móti skrollandi en byrja þó að labba aðeins hraðar. Ég er með bláa Spider-Man tösku á bakinu með tveim teppum í. Pabbi labbar til mín og segir hughreystilega „Ég skal halda á þér!“. Hann tekur mig upp á hestbak og labbar rösklega. Ég halla hausnum fram á öxlina hans og finn skeggbroddana kitla mig.
„Hvert erum við að fara?“ styn ég þreytulega. „Hvert vilt þú fara?“ svarar pabbi mér órólega. „Aftur í tímann, til risaeðlulandsins!“ kalla ég og finn fyrir spennu myndast innra með mér svo ég opna augun. „Risaeðlulandsins? En hvernig eigum við að komast þangað?“spyr pabbi undrandi en heldur þó hraða á göngunni. „Við fljúgum!“ svara ég. „Ertu viss?“ spyr pabbi mig og ég jánka. Hann horfir í augun mín og ég sé að hann er næstum grátandi. Hann horfir enn í augun á mér og sannfærir mig með augnarráðinu að allt verði í lagi. „Allt í lagi þá, lokaðu augunum.“ segir pabbi og tekur mig niður af öxlunum sínum. „Haltu svo niðri í þér andanum og teldu upp að tíu í huganum“ segir hann við mig fullur örvæntingu en þó brosandi. Ég byrja að telja: „einn, tveir , þrír, fjórir…“ Allt í einu hífa tvær hendur mig upp í loft á ógnarhraða. „Váááá!! Sérðu allar risaeðlurnar?“ heyri ég pabba hrópa. „Hvar?“ spyr ég undrandi og sé ekkert. „Þarna, sérðu þær ekki? Váá, hvað þær eru stórar!“ kallar pabbi.
Umhverfis mig myndast nýr heimur. Ljósastaurarnir, sem áður lutu niður af hræðslu við myrkrið, eru nú tré sem teygja sig upp í loftið og kitla tunglið. Bílarnir sem stóðu frosnir við götuna voru ekki lengur bílar, heldur óargardýr sem liggja í værum vetrardvala. „Passaðu þig á grameðlunni!“ æpi ég á pabba og gríp í fótinn hans. „Við verðum að finna felustað svo við getum sofið í nótt…“ hvíslar hann að mér. „við verðum að finna helli!“
Pabbi tekur mig upp á axlirnar og kveðst ætla að koma okkur í öruggt skjól. Hann skokkar stuttan spöl og leiðir okkur inn í lítinn skóg. Hann leggur mig svo niður á jörðina. Fyrir ofan mig teygja trén sig hærra en augun sjá. Hann tekur upp úr töskunni minni teppin tvö og breiðir þau bæði yfir mig og skipar mér svo að bíða þar sem ég er á meðan hann finnur til eldivið. „Við ætlum að kveikja varðeld til að hræða risaeðlurnar burt.“ hvíslar hann að mér, faðmar mig og segist elska mig. Hann læðist úr greninu sem við höfum komið okkur fyrir í og hverfur inn í myrkrið. Ég ætla mér að bíða eftir að hann komi til baka en ég er svo þreyttur að hver mínúta er eins og klukkustund fyrir mig. Þreytan yfirbugar mig og ég sofna.
Ég vakna við snarkið í eldiviðnum. Það er orðið bjart úti og eldurinn nærri dáinn út. Pabbi liggur við hliðina á mér og með höndina utan um mig. Hann er ekki klæddur í neina yfirhöfn og hefur breitt jakkann sinn yfir mig. Ég ligg stutta stund og reyni að átta mig á hvar ég sé. Hvað gerðist í gær og afhverju er ekki allt eins og það var þá?
Ég sný mér að pabba og reyni að vekja hann en það hefst ekki. Ég reyni allt sem ég kann til að vekja hann. Mér finnst veröld mín vera að hrynja. Ég öskra á hann, hristi hann og græt en ég veit að hann andar ekki og ég veit að hann mun aldrei vakna aftur. Ég breiði bæði teppin yfir hann og læðist undir til hans. Ég vil bara sofna aftur. Sofna hjá pabba og vakna aldrei aftur.