“Eitt mátt þú vita - ég elska þig meira en lífið sjálft
ég trúi án þín mitt líf væri hvorki heilt né hálft”
Með þér – Bubbi Morthens.


Umvafin örmum. Hans. Finna hitann streyma frá þeim sem þú faðmar. Hann getur faðmað. Tilfinningin er eins og þú munir falla niður eins og harmonikka ef hann sleppir þér. Það er alvöru faðmlag. Ég hef alltaf getað treyst á það. Faðmlögin hans. Get það ennþá. Eins og hann hlýi hjartað mitt. Með sínu. Aðeins með einu léttu knúsi. En samt svo ógnar sterkt. Við höfum verið vinir síðan við vorum í fyrsta bekk. Lékum saman alla daga, bjuggum til rallýbrautir úr sandhaugum. Létum Action-Man bjarga Barbie. Og ulla framan í Ken. Það voru góðir dagar. Áhyggjulausir með öllu. Æskugleðin okkar ljómaði. Skærar en allar sólir vetrarbrautarinnar.

Við vorum sex ára þegar við hittumst fyrst. Saman í fyrsta bekk. Þá var ég minnst í bekknum, með freknur út um allt. Ég sat einhvern daginn ein í rólunni. Nýbúin að reyna að róla upp til tunglsins. Þá kom hann. Með brjálæðislega lifandi krullur á höfðinu. Hærri en ég. Settist varlega niður. Rétti mér velkta og þvælda sóley. Kyssti mig á kinnina. Nýju stelpuna. Þaut svo burt. Hann hafði verið með drullu á nefinu. Sóleyjan lifði í næstum 2 vikur. Bestu tvær vikur sem hægt var að lifa. Ég man mamma tók sóleyjuna og þurrkaði hana inn í bók. Svo rammaði hún hana inn og gaf mér. Þetta var heilmikið tilstand. Við töluðumst samt ekki mikið við í skólanum. En í okkar götu. Það var allt önnur saga. Hræðslan um stríðni í skólanum var óbærileg. Vegna vináttu. Þetta var stigið þar sem stelpur eru með sýkla og strákar bara bjánar sem skemma Barbieleiki.

Ég er ennþá pínulítil miðað við hann. Hann hlær ennþá að því. Ég er bara smágerð. Stundum held ég að ég sé að skreppa saman. Hann hefur hins vegar ekkert breyst. Ennþá með sínar lifandi krullur. Samt hávaxnari og ennþá mjór. Slánalegur. Við hittumst ennþá á hverjum degi. Barbie og Action-Man. Myndi ekki vilja skipta á því og öllu gullinu hans Cortez. Ég veit að hann er einstakur. Það er eitt af því sem gerir okkur að bestu vinum. Veit ekki hvað ég gerði. Án hans. Hann er sá sem ég tala fyrst við ef eitthvað slæmt gerist. Er með svo heillandi huga. Með frjótt ímyndunarafl. Sem er betra en raunveruleikinn. Ég hef alltaf elskað hann. Án þess að hann viti. Hann hefur fallegasta hjartalag sem ég þekki. Ég þori ekki að segja honum það. Vinkona mín benti mér á eitt ráð. Ég gerði það. Þrjár handskrifaðar blaðsíður. Afhverju ég elska þig. Auðvitað eigum við okkar ágreininga. Leysanlega. Samt vinir. Alltaf. Þessvegna elska ég hann. Hvað sem gerist. Ég á ennþá sóleyjuna….
“Life's like a dick, it gets hard for no reason”