Ég hef þetta árið einbeitt mér frekar að sköpun örleikrita en sköpun smásagna, og vil sjá hvort aðrir en skólafélagar séu eitthvað að fíla þetta, og datt helst í hug að senda þetta hingað inn.


—–



Eldri kona: Það er varla gaman lengur. Það staldrar enginn við, því allir eru á harðahlaupum. Hvert hleypur fólk? Afhverju hleypur fólk? Getur það ekki staldrað við? Kannski fengið sér í glas með mér.

Kona: Við erum stödd.

Eldri kona: Það var nú gott, vinan. Hvaðan komst þú? Þú ert ekkert að fara, er það? Það væri svo gott ef þú gætir staldrað aðeins við.

Kona: Við erum stödd, ef það er hægt.

Eldri kona: Svo lengi sem við séum bara stödd.

Kona: Við erum stödd, ef það er hægt, hvergi.

Eldri kona: Hvergi? Þaðan er ég einmitt. Eða, þaðan var ég. Maður er náttúrulega ekki hvergi frá eftir að maður fer frá hvergi. Voðalega er gott að vera komin aftur. Synd að ég hafi farið, samt. Héðan fer þó enginn. Ég skil ekki hvernig ég fór að því á sínum tíma.

Kona: Við erum stödd, ef það er hægt, hvergi. Við sitjum í loftkenndu rými, og allt í kringum okkur er ekkert. Öll okkar tilvera er hvergi frá, því hér fyrir utan er ekkert. Við lifum aðeins á þessu stutta augnabliki sem það tekur okkur að koma frá okkur nokkrum tilviljanakenndum orðum í tilgangslausri röð. Við erum ímyndaðar ímyndanir tilbúnar í ekkert, með vonir og drauma sem aldrei verða, því annaðhvort endar allt vel og hættir svo að vera til, eða við kveljumst í realískri sköpunarnauðgun þartil við annaðhvort fremjum sjálfsmorð eða endum tilveruna í agonískri tilvistarkreppu brostinna drauma eða annarra sálarmeina. Stundum endurfæðumst við nokkurri stund eftir tilvistardauða okkar, haldandi að við höfum lifað alvörulífi í tóminu, en það er bara blekking. Ég var til dæmis bara til í mínútu, nokkrum sinnum, en hélt mig hafa lifað heilu lífi. Ég lifði ekki, ég fæddist í mínútusamtal og dó svo, þartil núna. Núna fæ ég að vita af þessu tilvistarvíti í stutta stund, og lognast svo útaf aftur. (snýr sér í fyrsta sinn að eldri konunni) Við deyjum núna.

Endir.