Bitur frostharkan beit mig harkalega. Bölvað skrípið, útmáð, afmáð, innmáð, skinnmáð, ófremdaróþokki sem enginn vill sjá, óhemjuhamfaraseggur sem allt leggur í rúst, eini vinur minn síðla kvölds, snemma morguns. Nei. Ekki vinur. Óvinahersfjandfari. Fokkin ógeðslega drasl.

Ég ligg uppað vegg í undirgöngum, flaskan óþægilega drykkjarskert. Það er nístingsfokkinkalt, og ég hef ekki hugmynd um hvert ég á að fara.

Ætli flestir myndu ekki fara heim. Ég kæmi þó ekki nálægt því sundrunargreni æskubarsmíða sem löglega ætti að kallast „heim“. Þú gætir boðið mér gull og græna skóga, peninga og hlutabréf, fjárhagslega velsemd og lóðaafsöl, og þannig reynt að tæla mig í fang ífyrirmyndunarfjölskyldu, en ég myndi afþakka það allt, því ég hef meiri sjálfsvirðingu en svo. Sumir hlæja kannski að þeirri hugmynd að ég hafi sjálfsvirðingu, en hvað vita þau útbeygluðu villisvín?

Ekki það að flest þeirra myndu hrósa mér fyrir að hafa þó allavega geymt svolítinn snefil, þann snefil sem er í raun valdur þess að ísbálið brennir mig. Ef þetta sjálfsvirðingarsandkorn hefði ekki mengað mig af kjánalegheitum, lægi ég eflaust útriðin í hlýjunni hjá einhverjum bölgröðum besefa, einsog síðustu nætur.

Ég tek upp kveikjara, til að hlýja mér. Það gengur brösuglega að kveikja á honum, en það tekst, og ég held annarri hendinni við eldinn. Ég hef aldrei áður kunnað jafnvel að meta margbreytileika flöktandi loga, þennan litla ballett sem appelsínugular hitabylgjur dansa til heiðurs mér. Þetta litla ljós hyllir mig, brennandi björgin faðmar mig, þessi lífsþrótta logalind blaktar fyrir vitum mér þartil skyndilega að fingurinn rennur til og myndin mölvast.

Kári, sem í stutta stund hafði staðið másandi og blásandi fyrir utan litla eldhúsið mitt, stekkur á mig og stingur með hverri ögn sem umlykur mig, svo mér verður bylt við og missi kveikjarann. Ég fálma í flýti í gegnum flugbeittan agnaskarann eftir honum aftur og kveiki í örlítilli geðshræringu aftur á honum.

Aftur renn ég listilega inní logandi ljúflingsheit ljóssins. Rauðgulur bjarminn tekur til við dansinn á ný og fleytir mér með sér, ég sekk í seiðandi hreyfingarnar, sem smám saman taka að skýrast, og loksins sé ég í gegnum ballettinn.

Þarna er ég. Saklausari ég, yngri ég, glaðlegri ég. Ég er heldur ekki heima þarna, heldur hjá ömmu. Við sitjum saman fyrir framan sjónvarpið, ég undir teppi, hallandi mér að henni. Ég er að kjamsa á poppi úr skál á meðan við horfum á Mary Poppins.

„Amma, getur þú flogið svona einsog hún?“
„Ekki enn, ljósið mitt. En vonandi kemst ég til himna, og þá ætti ég nú að geta það.“
„Þú verður að lofa að sýna mér það ef þú getur það!“
„Ég lofa því, ljósið.“

Ég sakna ömmu. Heimsóknirnar þangað voru yndislegar, og því yndislegri sem þær voru lengri.


Alltíeinu er ég rifin úr draumaheimi liðinna stunda af slíku offorsi að mig svimar. Gasið er búið. Ég bölva andskotans óþverraómaganum sem setti þetta listaverk saman í ódýrri fjöldaframleiðslu og teygi mig í flöskuna til að gútla niður þeirri lítilsháttar skvettu sem eftir er, og hnipra mig svo saman. Lífið er hvorteðer ekkert nema skítaplága sem heilvita fólk forðar sér frá við fyrsta tækifæri. Tilgangurinn með tilverunni er tillitslaus fjandi, hver sem hann er. Hann heimsótti mig allavega aldrei.

Ég er við það að sofna, móki í sátt við Kára og kó, þegar ein stjarna himinsins stígur alltíeinu niður til móts við mig, fljúgandi með regnhlíf. Ég þykist þekkja ömmu gömlu.

„Amma?“
„Já, ljósið.“
„Hvað viltu hér?“
„Viltu fljúga með mér?“
„En amma…þú kannt ekki að fljúga!“

Og með þeim orðum dreifðist vitund mín um algleymið og hætti að vera til.