Hjartsláttur!

“Í augunum þínum svörtu horfði ég á sjálfan mig um hríð og ég vonaði að ég fengi bara að vera þar alla tíð.” Tvær Stjörnur – Megas.

Hann læddist. Inn til hennar. Lagðist gætilega niður. Við hlið hennar. Lagði sínar stórgerðu hramma-hendur varlega utan um hana. Dró hana þétt upp að sér. Varlega. Þvöl viðkomu. Hún var höfðinu lægri en hann. Fann hjarta sitt taka á rás! Með aukakippum og óreglulegur af einbeitingu. Hlustaði á léttann andardráttinn frá henni. Inn og út…..inn….út. Það róaði hann niður. Hlusta á hjarta hennar slá. Duuu-Dunk….Duuu-Dunk….Duuu-Dunk. Beið þess að hjörtu þeirra myndu brátt slá í takt. Saman. Í taktföstum ryþma húmsins. Slag fyrir slag. Duuu-Dunk….Duuu-Dunk. Svefndrukkinn hjartsláttur. Fallegri en fegursta hljómlist. Hann brosti með sjálfum sér. Var þetta þessi svokallaða ást? Að liggja grafkyrr. Með eyrað við barm hennar. Að hlusta eftir taktföstum hjartslætti þeirrar sem hann unni mest af öllum. Helst vildi hann liggja þarna allan næsta dag, bara að horfa á hana sofa. Kannski vefja sínum klunnalegu fingrum í hennar hári. Ljósu, fíngerðu og mjúku hári hennar. Segja henni hvað hún væri frábær. Strauk annað viðbeinið hennar. Svitann burt. Létt, með vísifingri. Ein lítil einmana frekna. Leyndist þar. Að fela sig frá vökulum augum hans. Hann laut yfir hana. Þrýsti því næst vörum sínum gætilega og ofurlétt á hennar. Beið. Vaknaði hún nokkuð? Hann mátti ekki hugsa til þess. Hún hjúfraði sig bara upp að honum. Til allrar lukku. Í hugarhvíldinni. Svefninum. Djúpu hvíld hins þreytta. Hann hugsaði með sér hvernig í lífinu það væri mögulega hægt að vera svona lagleg, sofandi. Hún var svo sannarlega sofandi sönnun þess að það væri hægt. Alveg búin að draga tjöldin fyrir hugarsviðið. Með lokuðum augum. Þeirra þreyttu.

Brúnu augu hans skerptust við einbeitinguna. Dökknuðu. Dýpkuðu. Hann lét hugann reika til þess dags sem hann sá hana fyrst….Haustdagur. Október. Hann var að bíða eftir strætó. Hún, hún þessi hugljúfi englakroppur stóð þarna rétt hjá. Hún var með stór, blá augu. Með ljósbleikan trefil, sem blakti hægt í haustkulinu. Að horfa beint í þau var eins og spegla sig í hafinu. Sjá leyndardóma alls hins fagra í þessum heimi. Þannig var það enn þann dag í dag. Öll heimsins vandamál virtust leysast upp. Með því að stara í hennar augu. Blíða augnaráð hennar mildaði allan sársauka, létti áhyggjur. Þau eru svo blá. Full af visku þess lífsreynda. Þeirra alvöru fyrsti fundur var langt frá því að vera eins og í amerískri vellumynd. Nokkrum dögum seinna þá fór hann í partý hjá vini sínum. Fyrir tilviljun. Þar áræddi hann að rölta til hennar. Kyngja allri feimni. Hún sat ein á stól. Hálfhnugginn. Augun skörtuðu bláu bliki. Forvitnislegu. Vinkonan of önnum kafin við að kanna fyllingarnar í einhverri. Með tungunni. Brátt voru þau tvö komin í sömu aðstöðu. Hjá hvort öðru. Rómantískara var það ekki. Hinn Íslenski Draumur. Dráttur fyrst…deita svo. Ja…ekki beint dráttur. Satt best að segja. Kemur víst fyrir alla stráka. Einhverntíman. Reyndi að svekkja sig ekki á því. Byrjaði þá frekar að fræðast um hana. Vildi heyra allt. Drekka hana í sig. Vita hvað bláu augun höfðu upplifað. Í stað þess að flýja slysstaðinn. Sváfu svo þreytuna úr sér. Í taktföstum hjartslætti. Saman. Besta ákvörðun sem hann hafði tekið á sinni miðlungs löngu lífsleið. Eftir það byjuðu þau að hittast reglulega. Dúllast eitthvað saman. Tveimur árum seinna. Lágu þau hér. Hann brosti að endurminningum sínum….

En núna. Hjarta hans sló hraðar, samt sem áður taktfast. Fann samt ekki hennar tempó. En það er allt í lagi,vegna þess að hann vakir. Yfir hjarta hennar.
“Life's like a dick, it gets hard for no reason”