Ég stekk og hleyp og næ fiðrildinu. Það er með gula og rauða vængi með svörtum línum.

Ég held ég hafi hitt það einhverntímann áður svo ég spyr það hvort það heiti Evalína. Það brosir til mín en vill ekki svara. Ég þrábið um svar, en það flýgur bara í burtu frá mér.

Ég bölva fiðrildinu í sand og ösku og stappa í jörðina af bræði. En jörðin gefur undan og áður en ég veit sekk ég niður. All verður svart og ég finn vitin fyllast af mold, ég reyni að grafa mig upp en ég get það ekki.

Ég sekk dýpra og dýpra þangað til að ég er komin hinumegin á hnöttinn. Þá er ég allt í einu byrjuð að rísa upp úr jörðinni. Fæturnir koma fyrst, síðan búkurinn og svo sé ég að ég er stödd í Ástralíu.

Ég sé kengúrur með boxhanska og kóalabirni sem tala í gemsana sína. Ég hlæ og veifa til þeirra en þau veita mér ekki gaum.

Vissirðu að kóalabirnir borða laufin af gúmmítrjám? Þess vegna eru þeir svona teygjanlegir. Sumir eru búnir að borða svo mikið af gúmmílaufum að þegar þeir teygja sig geta þeir náð tvisvar sinnum í kringum hnöttinn.

Ástralía er allt öfugt við það hvernig hlutirnir eru heima. Þar er þyngdaraflið öfugt svo að allir labba á himininum sem er grænn en grasið er blátt. Allt fólkið er með bláa húð og fjólulitað blóð, þau eru mjög vingjarnleg og tala mikið við mig en ég skil ekki neitt sem þau segja vegna þess að þau tala aftur á bak.

Allt í einu hrasa ég um ský og dett niður í himininn. Ég sé kóalabirnina brosa og veifa til mín á meðan ég fell niður. Mér finnst leiðinlegt að ég er að fara vegna þess að ég átti eftir að biðja þá um símanúmerið hjá þeim.

Ég fell og fell. Ég fer framhjá Mars og Satúrnusi og öllum hinum reikistjörnunum en þegar ég kem að Neptúnusi ákveð ég að ég sé búin að falla nógu langt og gríp í stærsta tunglið hans sem heitir Tríton.

Ég virði Tríton fyrir mér en ég finn ekkert áhugavert. Það er allt grátt og leiðinlegt svo að ég ákveð að hoppa yfir á Neptúnus sjálfan sem er fallega blár.

Á Neptúnusi er fullt af skrýtnum verum. Þeirra allra skrýtnastar eru blómaflugurnar með eyrun. Það eru fullt af bláum og rauðum doppum á kvedýrunum, en allir kallarnir eru röndóttir. Þau eru öll með blómamynstur á maganum, en þaðan kemur nafnið á þeim.

Allt í einu kemur stór fugl fljúgandi til mín og ætlar að hrífa mig til sín. Blómaflugurnar mótmæla, þeim er orðið svo vel við mig að þær vilja ekki að ég fari. Þær halda mér niðri með öllum sínum kröftum en þær eru ekki jafn sterkar og risastór fuglinn.

Áður en ég veit er ég komin á loft á meðan flugurnar minnka og breytast í maura, síðan í sandkorn og síðan hverfa þær. Ég lít upp til fuglsins og tek eftir að hann er bróðir minn. Hann lítur niður til mín og segir mér að hann ætli að taka mig heim. Síðan skammast hann í mér vegna þess að ég á ekki að fara svona langt í burtu. Ég hlusta á það sem hann hefur að segja en ég tek samt ekkert mark á því. Í staðinn fyrir að svara brosi ég bara og byrja að telja stjörnurnar sem við fljúgum framhjá.

Þegar ég er komin upp í eina milljón sjöhundruð áttatíu og þrjár sé ég allt í einu húsið okkar. Það er úr vatni og ég get sé í gegnum veggina. Mamma og pabbi sitja á sjónvarpinu og góna á sófann en systir mín blæs sápukúlur úr appelsínusafa.

Við lendum og ég hleyp inn til þess að segja mömmu og pabba frá því sem ég sá. En þegar ég kem inn í eldhús sé ég að þau hafa bæði sofnað yfir sófanum. Ég slekk á honum og breiði dúk yfir þau bæði. Svo slekk ég ljósin og fer upp í herbergi og leggst á rúmið mitt og loka augunum…

Ég opna augun og sé að þetta var allt draumur. Ég lít út um gluggann og hugsa um græna himininn sem ég sá í Ástralíu.

Ég klæði mig í föt og fer fram til þess að fá mér morgunmat. Inni í eldhúsi stendur mamma og drekkur kaffi um leið og hún les Fréttablaðið.

Um leið og ég helli seríósinu í skál lít ég út um gluggann og sé eftir því að allt sem ég gerði í nótt hafi bara verið draumur. Allt í einu sé ég fiðrildi fljúga hjá og ef mér skjátlast ekki er það gult og rautt með svörtum röndum.

Ég held það heiti Evalína.