Það snjóar ekki eins og það á að gera á aðfangadagskvöld. Rigningin lemur gluggann og bræðir þunna fönnina sem hylur jörðina. Tilfinningin er ekki eins og hún á að sér að vera. Enginn yfirþyrmandi ilmur af jólamatnum, ekkert dauft kertaljós, engin falleg jólaljós til að lífga upp á skammdegið. Það hvín í vindinum sem hjálpar rigningunni að ræna snjónum og öllum jólaanda úr loftinu.

Ég er klædd í bláan kjól og hvíta svuntu sem felur hann.

Allt hafði farið úrskeðis.

*
Það voru níu ár síðan ég hafði ætlað að byggja snóhús með pabba um jólin, en við gerðum það aldrei. Í níu ár lét ég tækifærið fara framhjá mér og núna gæti það aldrei gerst. Við myndum aldrei byggja snjóhús saman. Ég hafði enga ástæðu til að vera að velta fyrir mér snjóhúsi sem ég átti að hafa byggt í barnæsku, en snjóhúsið var mjög mikilvægt allt í einu.

Ég hafði verið veik árið áður og horft á feðgana byggja þetta glæsilega snjóhús saman í gegnum stofugluggann. Þegar pabbi hafði komið inn, kaldur og kátur, hafði hann lofað mér að byggja með sér hús næsta ár og náði með því að töfra í burtu fýlusvipinn og öfundina sem hafði bólgnað upp í mér.

Lífið hafði verið einfalt.

Ári síðar var ég orðin önnur. Var hann orðinn annar. Allt var ekki svo einfalt lengur. Hann var reiður og peningar voru hans mesta áhyggjuefni. Ég var leið og vinsældir voru mitt mesta áhyggjuefni.

Ég hafði ekki fengið gallabuxurnar sem ég hafði beðið um í jólagjöf það ár. Ég hafði fengið gönguskó í staðinn. Hvað hefðu krakkarnir haldið ef ég hefði mætt í þeim í skólann?

Hugur minn neitaði að víkja frá tilgangslausu hugsununum sem héldu mér frá því að sturlast. Það var best að einbeita sér snjóhúsinu sem var aldrei byggt. Hugurinn gerði allt sem hann gat til að vernda mig frá raunveruleikanum.

*

Klukkan var að nálgast sex.

Andrúmsloftið bar með sér spennu, óþreyju og tilhlökkun. Mamma stóð við eldavélina að leggja lokahönd á brúnu sósuna sem átti að vera borin fram með hamborgarhryggnum.

En brúna sósan hafði endað á gólfinu.

Mamma var öskrandi og bróðir minn veinandi. Pabbi hafði hrint jólatrénu og ýtt matnum á gólfið. Hann hafði dottið sjálfur á gólfið. Hann lá þar með mömmu sér við hlið sem reyndi að vekja hann aftur til lífsins. Bróðir minn hélt á símanum og var að tala. Ég hélt á sósunni og starði út í tómið.

Til hvers var ég að halda á sósunni? Hún rann úr greipum mér og hvíta svuntan varð fyrir árás af brúnum slettum.

Þau flýttu sér með máttlausann líkama hans fram í gang til að bíða eftir sjúkrabílnum. Bróðir minn tók undir axlirnar á honum og mamma lyfti fótunum upp. Ég stóð. Ég heyrði þau öskra á mig en ég gat ekki hreyft mig. Ég leit niður og horfði á sósuna sem hafði flogið í allar áttir frá fótum mínum. Ég ímyndaði mér sósuna smjúga sér í gegnum sprungurnar í parketinu og niður í undirstöðurnar á húsinu.

Sjúkraflutningamennirnir komu. Gott að mamma þurfti ekki að lyfta pabba aftur, hún var nógu þreytt fyrir. Ég varð ein eftir, þau fylgdu honum upp á spítala og gleymdu mér.

Ég gekk að glugganum og horfði á sjúkrabílinn keyra í burtu.


*

Jólamaturinn er á gólfinu og jólaskrautið sem hafði flogið út um allt gólf bíður brotið eftir því að vera hent í ruslið. En ég get hvorki hreyft legg né lið. Óttinn hafði lamað mig. Hafði neglt mig niður við gólffjalirnar fyrir framan gluggann sem sneri út að innkeyrslunni.

Eftir að sjúkrabíllinn hvarf úr augsýn fylgdist ég með regndropunum falla og eyðileggja byggingarefnið mitt. Eyðileggja undirstöðurnar af jólunum. Ég myndi ekki byggja neitt snjóhús og ég myndi ekki borða neinn hamborgarhrygg.

Buxur og ekki buxur. Að hafa fórnað kuldanum og kætinu útaf frekju og reiði vegna þess að ég hafði ekki fengið vilja mínum framgengt.

*

Næsta ár mundi verða snjór. Næsta ár mynd ég hjálpa mömmu við að elda jólamatinn aftur. Ég myndi kveikja á kertum og setja upp jólaljós.

En tilfinningin mundi ekki verða eins. Þrátt fyrir að það myndi vera yfirþyrmandi ilmur af jólamatnum, dauft kertaljós og falleg jólaljós, þá mundi ekki vera neinn pabbi og ekkert snjóhús. Bara stelpa sem var orðin ung kona, móðir hennar og bróðir sem báru öll sama daufa brosið og borðuðu saman í hljóði.
"Reading is one form of escape. Running for your life is another."