Þegar hún byrjaði að tala um neikvæðar hugsanir varð mér ljóst að eitthvað væri að. Ég reyndi að sýna þessu skilning og tókst það með jákvæðu hugarfari. Ég var mjög bjartsýnn á bata hennar og vonaði og trúði að hún myndi læknast af þessu.
Á þessu tímabili byrjaði ég að kynna mér efnið. Ég vissi í rauninni aldrei hvað þunglyndi var fyrr en það snerti mig. Að lokum komst ég að því hvað olli þunglyndinu hjá henni. Nú veit ég hvernig ég á að bregðast við þunglyndi ef það blossar upp. Hver manneskja getur lent í þunglyndi einhvern tíman í lífinu og því er mikilvægt að stansa og horfa á manneskjuna sem þú ert að hlusta á. Ef maður þekkir ekki manneskjuna vel getur maður byrjað á að spurja til nafns og sýna áhuga en það mikilvægasta er að gefa eyra til að heyra.
Til dæmis passaði ég vel upp á það að hlusta á hvert einasta orð sem hún sagði mér með mikilli tjáningu. Hún lýsti áhyggjum og vanlíðan sem ég hafði tekið eftir í fari hennar upp á síðkastið. Ég brást þannig við að ég byrjaði að hrósa henni í einlægni en hún trúði engu orði sem ég sagði. Hún þurfti að sjá það sjálf.
Hún var ekki mjög sterk félagslega en hægt var að segja að hún ætti nokkra mjög góða vini og þar á meðal mig. Hún var ekki rík fjárhagslega en rík á þann hátt að eiga svona marga að eins og fjölskyldu sína. Hún var mjög hæfileikarík og vissi það sjálf og það var í rauninni það eina sem lyfti henni upp. Það sem dró hana mest niður var að henni fannst hún ekki falleg né grönn. Ég spurði hana af hverju henni fyndist hún þurfa að vera þessi fullkomna kona og hún sagði að hún fengi ekki næga athygli. Ég loksins náði kjarna málsins þegar hún sagði mér frá fortíð sinni. Það var merkilegt að hlusta á þá frásögn.
Eftir að hún er farin hugsa ég um allt það sem mig langar að segja henni. Fyrst og fremst vil ég minna hana á að hún hafi verið sérstök, yndisleg og góð. Mig langaði bara að hún hefði lifað jafn yndislegu lífi og hún átti skilið. Kannski eignast börn og látið rætast úr draumum sínum. Ég er stoltur af henni fyrir hafa komist svona langt. Ég er voða hræddur um að hún hafi alltaf verið barn inni í sér þótt hún hafi alltaf verið hún sjálf og enginn annar. Árin munu koma og fara og á endanum munu sárin gróa en minningarnar sem ég hef um hana munu vara að eilífu.
Ég var örugglega sá eini sem vann trúnað hennar og því er ég sá eini sem vissi hvernig hún var í raun og veru. Ég man hvað hún var aðlaðandi og yndisleg. Hún var pínu feimin en samt mjög örugg með sig. Þetta var erfiður tími sem þessi þrekmikla og greinda stúlka lifði. Það sem var merkilegt við hana var að innra með henni bjó alltaf þessi dreki sem hún gat ekki losað sig við. Drekinn spúði eldi og hún gat aldrei gert neitt. Hún var fangi í sínum eigin líkama. Áður fyrr bjó í henni þrautseigja, umburðarlyndi og hugrekki. Því miður var hún með fullkomnunaráráttu og fylgdi eigin eðlishvötum í staðinn fyrir að fara eftir ráðum annarra.
Tíminn kom þar sem hún lifði ekki í raunveruleikanum lengur. Ég las í bók um daginn þar sem stóð að tilgangur lífsins sé að finna hinn helminginn af sér svo maður gæti orðið heill á ný. Nú hef ég ekki tilgang í lífinu lengur. Ég hef glatað hálfum sjálfum mér. Sorgin hefur nú gengið í garð. Í hvert sinn sem ég minnist hennar falla nokkur gulltár, minnsta kosti þrjú. Eitt fyrir brosið hennar sem var mér kært, annað fyrir augun hennar sem skinu svo skært og það þriðja fyrir hjartað hennar sem var sært. Djúpt inni í mér dvelur minning hennar.
Minningin streymir í gegnum hugann þegar sorgin hefur flætt inn. Ég minnist oft þess þegar við lágum í rúmi hennar og töluðum saman um dauðann. Henni leið svo illa að það helsta sem hún óskaði sér var að guð tæki sig til himnaríkis þar sem hún finndi loksins hamingjuna. Þetta voru hennar orð. Ég þjáðist af sársaukanum sem hún fann. Ég vildi næstum leyfa henni að deyja vegna þess að hún hafði lifað svo lengi í þjáningu. En ég gat ekki sleppt henni. Ég grét svo mikið þegar hún talaði um að deyja og ég var hræddur um líf hennar dag og nótt. Ég hafði lofað henni að hún mætti deyja ef þjáning hennar myndi ekki linna. Hún varð afar þakklát fyrir það en innan í mér brást hjartað mitt.
„Ekki deyja. Gerðu það. Ekki fara frá mér. Þú ert orðinn svo stór hluti af hjarta mínu að ég get ekki lifað án þín. Gerðu það ekki deyja!“ Hún huggaði mig og sagði að það yrði allt í lagi en ég vissi betur. Ég gafst ekki upp. „Myndir þú fara frá þínu eigin barni?“
„Hvað meinaru?“
„Ég meina það sem ég meina.“
„Nei ég myndi aldrei fara frá mínu eigin barni“
„En það er það sem þú ætlar að gera. Þú ætlar að fara frá mér. Ég er barn þitt. Þú er móðir mín.“
Nú fór hún að gráta. „Ég vissi ekki að ég væri orðin mamma. Ég vissi ekki að ég ætti son. Síðan hvenær byrjaðir þú að bera þessar tilfinningar til mín?“
„Þú hugsar um mig, eldar handa mér, hjálpar mér við öll mín vandamál, ert til staðar þegar ég þarf á þér að halda. Það getur enginn huggað mig nema þú. Þú ert besti vinur minn. Eini vinur minn. Það er þess vegna sem þú mátt ekki fara frá mér.“
„Má ég segja þér dálítið leyndarmál ástin mín? Ég elska þig svo mikið að ég mun aldrei aldrei aldrei fara frá þér. Sama hve illa mér líður ég mun þrauka það út bara fyrir þig. Þú snertir hjartað mitt þegar þú sagðir að ég væri móðir.“ Við þessi orð grét svo mikið og hátt að nágrannarnir heyrðu til mín. Ég grét svo mikið að sængurfötin urðu rennandi blaut. Ég var svo þakklátur. Mín eina ósk var hún.
Hræðslan er skelfileg. Ég er hræddur. Hræddur um að ástarsorgin muni vara að eilífu. Hræddur um að ég geti ekki lifað án hennar. Ég hef ekki hugmynd um hver ég er. Ég á enga sjálfsmynd lengur. Hún hvarf með henni. Ég held ég sé búinn að týna sjálfum mér. Ef hún væri hér myndi hún hugga mig með sinni róandi röddu sem myndi svara mér þegar ég segði henni hve mikið mér þykir vænt um hana. Mér finnst eins og ég hafi ekki sagt það nógu oft. Mér fannst besta ráðið að taka upp bók og skrifa þúsund sinnum sömu setninguna síendurtekið og það gerði ég. Ég hætti ekki fyrr enn ég hafði skrifað setninguna svo oft að mér verkjaði í allan líkamann. Setningin rennur í gegnum hugann stanslaust. „Ég elska þig af öllu hjarta.“ Þegar ég segi setninguna upphátt finnst mér hún enn lifandi þótt ég viti vel að svo er ekki. Bókina fulla af ástarjátningum mínum geymi ég á náttborðinu þar sem ég get minnt mig á hverju kvöldi hve mikils virði hún var mér.
Trúin var mér kær þegar hún var farin. Mér er sagt að ég ætti ekki að vera sorgmæddur því að henni leið svo illa á hafperlunni að ég ætti að vera þakklátur fyrir að hún sé hjá guði en ég get ekki hætt að refsa mér fyrir dauða hennar því í rauninni vill ég það ekki því að mér finnst ég eiga það skilið. Ég bið til guðs á hverju kvöldi og bið hana um að taka vel á móti henni og passa hana vel þangað til að ég kæmi til þeirra í himnaríki. Ég hef aldrei tekið mikið mark á trúnni fyrr enn hún dó. Mér fannst það hjálpa að geta talað við hana í gegnum bænina. Mér finnst ég geta sagt henni allt en það er bara svo erfitt að heyra ekki neitt svar, ekkert einasta hljóð sem getur gefið mér í skyn að hún sé að hlusta. Fyrir mig þá þarf ég ekki sönnun. Ég trúi því að hún sé ennþá lifandi bara í einhverjum öðrum heimi þar sem hún situr og hlustar alltaf þegar ég tala við hana. Ég held hún sé þarna hinum megin við regnbogann og bíði eftir mér. Fyrir hana ætla ég að vera sterkur. Styrkleiki. Það var eitt af því sem hún kenndi mér. „Elsku mamma, ég lifi fyrir þig en hugurinn mun bera mig hálfa leið til þín.“
Ég ligg oft heima og loka mig inn í þröngan lítinn kassa þar sem ekkert ljós skín og hugsa um þessa tíma sem við vorum hamingjusöm. Þetta er mitt daglega líf. Ég hugsa og hegða mér eins og hún sé ennþá lifandi. Þegar ég les dagbókina hennar finnst mér eins og ég hafi fengið smá hluta af henni tilbaka. Mér þykir afar vænt um þennan sögulega grip því það er stærsta hlutlæga minningin um ástina á milli okkar. En huglæga minningin um samband okkar lifir innra með mér.