Einu sinni, fyrir fáeinum árum, átti ég í örstuttu en funheitu ástarsambandi.
Ég sat í makindum mínum í strætó númer tvö á leiðinni frá Hlemmi og upp í Kópavoginn þegar hann steig upp í strætisvagninn. Um leið og nærvera hans snart andrúmsloftið leit hann beint í áttina til mín og ég fann straumana myndast, heita ástríðustrauma sem ekki var hægt að slíta. Ég fann að ég bráðnaði þar sem ég sat og andvarpað djúpt.
Konan sem sat fyrir framan mig heyrði mig andvarpa og sneri sér við og leit á mig, forviða með örlitlum viðbjóð. En hvað vissi hún? Hafði hún kannski einhverntíman orðið fyrir þessari djúpu og tilfinningalegu upplifun sem ég var lent í?

Hélt ekki.

Hann var hár og myndarlegur, með dökkt hár og súkkulaðibrún augu. Nefið var beint og fötin sem hann bar fengu hann til þess að líta út eins og eitt af þessum ofurmódelum sem maður sá í öllum tískutímaritunum. Ætli hann væri módel? Nei, ég efaðist um það. Hann virtist allt of klár og jarðbundinn til þess að leyfa draumum um frægð og hégóma að grípa sig.
Hann var örugglega þessi týpa sem sæti á kaffihúsum og læsi bækur um leið og hann gæddi sér á kleinu. Þessi sem hlustaði á djass og hafði skoðun á öllum þeim málefnum sem kæmu upp í samræðum. Vitsmunavera sem væri skemmtilegt og áhugavert að spjalla við dögum saman.
Hann gekk upp strætisvagninn og settist niður tveimur sætum fyrir framan mig. Áður en hann settist niður skaut hann mig niður með öðru augnatilliti. Augnatilliti sem bað mig um að taka í höndina á honum og fylgja honum út í heiminn. Augnatilliti sem sagði að hann væri minn og að ég væri hans og að við gætum eytt eilífðinni saman. Ég lagði höndina á brjóstið og fann að hjartslátturinn var orðinn hraðari og að ég var orðin andstutt. Ég greip fastar um pokann sem ég bar með hinni hendinni og starði fast á hnakkann á draumaprinsinum mínum. Eins og ég væri að reyna að koma því inn í hausinn á honum með hugsanaflutningi að ég væri svo sannarlega tilbúin til þess að fylgja honum hver á land sem er. Því ég vissi að við yrðum saman, og það var hægt að treysta honum til þess að vera með mér fram til endaloka alheimsins.
Ég hugsaði heim til mömmu og pabba og litla bróðurs míns. Hvað ætli þau myndu segja þegar ég skilaði fréttunum til þeirra? Ég vissi að foreldrar mínir yrðu forviða, en ég var líka handviss um það að um leið og þau væru búin að kynnast honum þá myndu þau styðja við bakið á okkur í gegnum þykkt og þunnt. Hann var bara með svoleiðis persónuleika að það var ekki annað mögulegt en að treysta honum.
Þegar strætisvagninn stoppaði við næstu stöð sá ég að hann sneri sér í sætinu og hjarta mitt fór á milljón. Hann leit aftur fyrir sig eins og til þess að athuga hvort allir væru ekki örugglega á sínum stað. En ég vissi að eina ástæðan fyrr því að hann leit til baka var til þess að athuga hvort ég væri nokkuð að fara. Hann virti andlitin á farþegunum fyrir sér og þegar hann kom að mínu staldraði hann aðeins við, en sneri sér síðan aftur við. Ég fann að kinnarnar voru orðnar eldrauðar og mér varð skyndliega funheitt. Núna var ég orðin þess fullviss að hann hafði meðtekið skilaboðin mín og var að bíða eftir því að ég tæki næsta skref. Við vorum bæði reiðubúin. Tilbúin til þess að kasta öllu á glæ fyrir hvert annað.
Hjartslátturinn jókst hjá mér og ég fann að ég svitnaði í lófunum. Hvert ætli við myndum fara? Ætli við myndum leyfa straumnum að bera okkur hver sem hann vildi, eða ætli við myndum búa okkur til okkar eigin leið? Fara ótroðnar slóðir og sýna heiminum hve mikið við sannarlega elskuðum hvort annað?
Ég fann í hjarta mínu að seinni kosturinn var réttur og að við myndum ekki hafa neina hugmynd um hvert við skyldum fara. Ég tók eftir því að við nálguðumst næsta stopp og ýtti á stöðvunarhnappinn. Það var kominn tími til þess að láta til skara skríða. Um leið og vagninn hægði á sér stóð ég upp og gekk ákveðnum skrefum framfyrir hann og að útgangnum. Ég leit snögglega í áttina til hans með þýðingarmiklu augnaráði til þess að segja honum að það væri tími til kominn. Að núna myndum við sleppa í örmum hvers annars. Að núna væri tíminn fyrir okkur til þess að sigra heiminn. Saman.
Hurðin opnaðist á vagninum og ég steig út og ég fann að hann var á hælum mér. Að um leið og strætisvagninn myndi keyra af stað væri ég í örmum hans og væri á leið til nýs lífs með honum. Ég sneri baki í hann í smá stund og andvarpaði, fann að gleðibros var að myndast á andliti mínu. Með snöggum snúningi sneri ég mér við og bjóst við því að sjá hann með útrétta arma, tilbúinn til þess að leiða mig í burt.

En þar stóð enginn.

Ég leit upp í strætóinn sem var ekki enn farinn og sá að hann sat enn í sætinu sínu, hann hélt á símanum sínum og virtist vera að senda skilaboð. Ég starði á hann forviða með tárin í augunum og um leið og vagninn lagði af stað leit hann upp af símanum og sá mig út um rúðuna. Hann sá hvernig ég var útileikin og setti aðeins í brýrnar, að því er virtist undrandi á því hvernig ég hegðaði mér. Eins og að ást okkar hafi verið barnaleikur einn.
Vagninn keyrði á braut og ég var skilin ein eftir einhvers staðar í Salahverfinu í Kópavogi með brotið hjarta og brostna drauma.