FUNDARBRÖLT

Skuggi féll niður eftir turninum, gluggar flugu framhjá í móðu. Skuggi sneri sér til í loftinu líkt og köttur og sló sverðinu utan í vegginn. í fyrstu skoppaði Silfurstingur af veggnum en smátt og smátt skar galdraeggin sig inn í vegginn. Grænn garðurinn fyrir neðan nálgaðist ógnandi og Skuggi einbeitti sér að því að reka sverðið lengra inn í vegginn. Það voru örfáir metrar eftir í vel hirtan risablettinn fyrir neðan þegar Skuggi ýtti af öllu afli sverðinu inn í vegginn. Ferð hans tók snöggan endi og sömuleiðis axlirnar hans sem fóru nánast úr lið við átakið. Skuggi sveiflaði sér inn um nálægan glugga og notaði það litla sem eftir var af kröftum sínum til þess að frelsa sverðið. Hann hristi sig lítillega og leit í kringum sig. Skuggi var staddur í lítilli setustofu. Í miðju herberginu stóð ung þjónustustúlka með bakka af vínglösum.
,,Sjú,‘‘ tautaði Skuggi og bandaði að henni hendinni. Stúlkan sleppti bakkanum og hljóp í ofboði burt. Skuggi lympaðist niður í nálægan hægindastól og tók af sér svitablauta grímuna.

Arnór haltraði eftir göngum hallarinnar. Hann mætti engum vörðum lengi vel þar til hann var kominn alveg að sjúkraálmunni. Þar hlupu á móti honum tveir verðir með nakin sverð.
,,Hvað gerðist?!‘‘ spurði annar þeirra æstur og leit tryllingslega í kringum sig.
,,Skuggi… þetta er Skugga að kenna,‘‘ muldraði Arnór og leyfði öðrum þeirra að styðja sig inn í stóra sjúkraálmuna. Rúm voru um alla veggi og nokkrir starfsmenn gengu á milli. Arnór þóttist koma auga á nokkra konunglega lífverði. Einn starfsmaður kom hlaupandi til Arnórs.
,,Hva-!?‘‘
,,Skuggi,‘‘ sagði Arnór pirraður.
,,Þarna, það eru nokkur laus rúm eftir!‘‘ sagði starfsmaðurinn og benti út í horn. Arnór haltraði með hjálp varðanna að rúminu og leið svo út af.


Arnór settist upp í rúminu og sléttaði grímu Skugga vel undir dýnunni. Bogi gekk hnarreistur að Arnóri.
,,Ertu með borgunina?‘‘ spurði Bogi laumulega en rétt nógu hátt til þess að allir í salnum heyrðu.
,,Uh, við þyrftum að ræða borgunina aðeins frekar… ?‘‘ svaraði Arnór. Bogi kinkaði kolli og settist við hlið rúmsins. Verðirnir litu frá þeim.
,,Hvaðgerðist?!‘‘ hvíslaði Bogi ásakandi. ,,Þeir segja að Skuggi hafi næstum drepið þig!‘‘ Arnór leit undan í flýti og andvarpaði.
,,Það er að hluta til satt,‘‘ Arnór kveinkaði sér þegar hann lagfærði koddann. ,,Ég var hérna í höllinni að sækja ýmislegt… þegar Skuggi kom. Ég hjálpaði honum við að berjast við nokkra verði þegar hann hljóp framhjá, og þar fékk ég þessar smá skeinur,‘‘ Arnór glotti. Bogi leit vænisýkislega í kringum sig.
,,Það var heimskulegt af þér að hjálpa, Skuggi getur séð um sig sjálfur þó að þú sért ekki að kasta aðkomu þinni að Byltingunni í voða,‘‘ sagði hann reiðilega.
,,Ég varð- ég…‘‘
,,Shhh…‘‘
,,Ég gat ekki látið þá ráðast á hann einan,‘‘ Bogi hristi hausinn.
,,Vonum að svona komi ekki fyrir aftur,‘‘ sagði hann. ,,En ég kom ekki hingað til þess að skamma þig. Það er sagt að konungurinn hafi sigrað Skugga, en Bjólfur hefur ekki farið út úr herberginu sínu í marga daga, ekki einu sinni eftir árás Skugga í gær, sást þú eitthvað?‘‘ Arnór hristi hausinn eftir nokkra umhugsun.
,,Eftir að… eftir að verðirnir særðu mig fór ég beint hingað,‘‘ svaraði Arnór. ,,Ég heyrði samt af einhverjum orðrómi hérna að mikið hafi gengið á,‘‘
,,Sex konunglegir lífverðir dauðir, og margir aðrir særðir, auk þess sem að nokkrir verðir voru dauðir á hæðinni fyrir neðan,‘‘
,,Þar kom ég inn í,‘‘
,,Ég má ekki eyða meiri tíma hérna, ég vildi senda sendiboða en Heriður tók það ekki í mál af einhverjum ástæðum.Heriður hefur sett á neyðarfund á morgun, allir sem geta komist verða að koma,‘‘ Bogi leit lítillega í kringum sig. Enginn virtist fylgjast sérstaklega mikið með þeim. ,,Leyniorðið er drekahampur… Margir tengdir göldrum hafa horfið nýlega, ekki bara úr Byltingunni heldur allstaðar úr Eyjaveldinu, við vitum ekki enn hvort Trjángur sé meðal þeirra, en sendiboði ætti að vera kominn til hans núna. Heriður vill komast til botns í þessu máli. Mættu ef að þú treystir þér en það var ánægjulegt að stunda viðskipti við þig,‘‘ Bogi stóð upp og strunsaði burt. Arnór íhugaði það sem Bogi hafði sagt. Galdraverur hafa horfið… líkin! Táknin… Arnór kæmist kannski ekki á fundinn, en Skuggi var hafinn yfir læknisskipun.

Snemma morguninn eftir ruddist Arnór út úr sjúkraálmunni og nærri myrti taugarnar í fætinum þegar hann gekk um til þess að sýna hversu vel honum hafði batnað. Hann hélt út úr borginni í einum af ferðavögnum konungsveldisins. Þegar þeir voru komnir töluverðan spöl frá borginni rétti Arnór þeim klingjandi pyngju og skipaði að fara og verja þessu í Tanga og koma aftur til borgarinnar og segjast hafa farið með Arnór til Gráeyjar. Sjálfur sagðist hann ætla að ganga heim. Þeir voru fljótir að samþykkja það og þegar vagninn var kominn vel í burtu kallaði Arnór á Þyt. Stuttu síðar klifraði Arnór með erfiðismunum upp á bak hestsins, þrátt fyrir mótmæli baksins, rifsins og fótarins og brá yfir sig grímu.

Klukkutíma síðar staðnæmdist Þytur við hlið Moseyjar. Órólegur vörðurinn rétti úr sér og hneigði sig djúpt.
,,Það er heiður!‘‘ sagði hann og opnaði hliðið fyrir Skugga sem þurfti að teyma hrossið í gegn. ,,Þú kemur á góðum tíma, þeir ættu að byrja innan skamms,‘‘ bætti vörðurinn svo við. Skuggi beindi Þyt að Kastala Silfurriddaranna. Þegar hann nálgaðist klettana greindi hann útlínur fjögurra bogaskyttna, vel faldra innan um klettana. Fá mannleg augu gætu gert sér grein fyrir skyttunum fyrr en örvaroddurinn stingist í nefið á þeim. Hann fann augnaráð þeirra stingast í sig en enn fremur fann hann fyrir spennunni á bogastrengjunum. Skuggi fór af baki við innganginn og um leið og hann hafði snúið sér við var einu sverði og tveimur spjótum beint að honum. Vopnberarnir voru í leðurbrynjum huldum grasi, drullu og steinum. Jafnvel andlitin voru hulin skít. En skíturinn faldi þó ekki undrunarsvip þeirra.
,,Það getur ekki verið…‘‘ sagði sverðberinn og brá varla svip þegar Skuggi afvopnaði hann fimlega með Silfursting og smeygði sér milli hinna varðanna og inn í Kastalann.
,,Ekki beina slíkum hlut að mér aftur,‘‘ hvæsti Skuggi. Þegar hann sneri sér við og ætlaði að ganga inn í fundarherbergið mætti hann vegg af vopnuðum mönnum, Hrólf þar fremst í fylkingu.
,,JÍAAARG!‘‘ beljaði Hrólfur og sló öxinni að Skugga. Skuggi sló Silfursting að öxinni og stökk til hliðar.
,,Rólegur, berserkur!‘‘ sagði Skuggi sefandi. Aftur klauf norks bardagaöxi loftið.
,,Hættu beljaki eða ég klíf þig niður á staðnum!‘‘ ávítaði Skuggi og Hrólfur snarstansaði.
,,Skuggi?‘‘ spurði Hrólfur undrandi. Skuggi bandaði burt þremur hnyttnum athugasemdum og gekk hnarreistur í gegnum þvöguna sem vék fyrir honum. Á móti honum kom Heriður.
,,Hvað í Óðins nafni gengur hér…‘‘ Heriður kraup. ,,Þetta er heiður, ó verndari úr Skuggum réttlætis,‘‘
,,Rís upp, Heriður, einungis hinir óverðugu krjúpa mér,‘‘ muldraði Skuggi. Heriður stóð upp og beindi Skugga að fundarborðinu. Fimm manns sátu við borðið, Garðar þar á meðal. Heriður benti Skugga á að fá sér sæti.
,,Jæja þá,‘‘ sagði Heriður varlega og fylgdist með Skugga standa. Uppreisnarmenn röðuðu sér í kringum borðið. ,,Ég hef kallað til þennan neyðarfund til þess að bregðast við nýlegum fregnum,‘‘ Heriður eyddi engum tíma í að leyfa þeim að velta hlutum eitthvað sérstaklega fyrir sér. ,,Ég tel að því miður komist ekki fleiri en þið á fundinn, og því skulum við hefja hann nú. Í fyrsta lagi hafa margir af öflugustu galdramönnum og nornum Eyjaveldisins horfið, hinir fáu sjónarvotta segja í fylgd með sérsveit konunglega lífvarðarins. Ég hef enni ekki fengið neinar fregnir af Trjáng eða lærlingi hans. Í öðru lagi hefur borist orðrómur um að falskonungur hafi sigrað Skugga í bardaga fyrir tveimur dögum. Skuggi, ef að þú vildir…‘‘
,,Ég læddist í gegnum höllina, felldi nokkra verði, barðist við konunglega lífvörðinn, braust inn til konungs, hann var með einhver undarleg húðflúr og galdratákn, einhvern veginn var hann mikið sterkari en ég og ósæranlegur, ég stökk niður af svölunum og faldi mig þar til í dag.‘‘ sagði Skuggi blæbrigðalaus. ,,Allt herbergið, frá gólfi upp í loft, allt þakið undarlegum galdratáknum og rúnum. Konungurinn er á stigi hálfguða, ef ekki meira. Mennskur guð, nánast,‘‘ Heriður sótroðnaði í framan. Tvær beinaberur hendur lögðust harkalega á borðið.
,,Sjáið þið, Skuggi heldur því fram að falskonungurinn sé guðlegur! Einungis þeir eru guðir sem sjást á Ævasteininum!‘‘ hvæsti Salitud undan hettu kufls síns.
,,Þagnaðu, Salitud!‘‘ skipaði Heriður.
,,Skuggi virðist hafa fallið undir ægivald Bjólfs, hvernig vitum við jafnvel að þetta sé Skuggi eða einhver loddari!‘‘ Vopn voru dregin úr slíðrum í kringum borðið og fundarmeðlimir stóðu upp í sætum sínum, allir nema Hörður sem sat álútur og gróf andlitið í höndum sér.
,,Haltu þér…‘‘ byrjaði Bogi skipun sína.
,,Hvernig dirf…‘‘ hóf Garðar raust sína.
,,Þú ert konungs…‘‘ tautaði Stefán.
,,Ég ætti að…‘‘ hótaði Magni. Katlingur einn settist niður og fól andlitið í höndum sér.
,,HALDIÐ YKKUR SAMAN!!!‘‘ hrópaði Heriður byrstur. ,,Allir!‘‘ Hann leit á Salitud sem sat fúll á svipinn með hönd á mjöðm. ,,Láttu vopnið í friði. Jafnvel galdrar þínir geta ekki komið þér skref frá borðinu áður en þú liggur í sem fjórir örvamælar víðsvegar um Kastalann ef að þú hyggst svíkja okkur!‘‘ Salitud færði höndina varlega upp á borð. ,,En haltu tungu þinni innan velsæmismarka, þú mátt tala hug þinn en varaðu þig á oflæti og hroka,‘‘ Salitud andaði djúpt.
,,Líkt og ég var að segja,‘‘ sagði Salitud ofurrólega. Silfurhöfðingjarnir settust einn og einn niður, einungis Heriður og Stefán Silfurhöfðingi Hafeyjarkastala stóðu eftir og studdu hnefunum í borðið. ,,Þá ættum við ekki að treysta hvaða grímuklædda manni sem er, er kemur hér inn, sama hversu öflugur hann þykist vera,‘‘ Skuggi hreyfði sig ekki en örlítill kliður barst frá áheyrendum.
,,Skoraðu hann á hólm!‘‘ kvað kvenmannsrödd við. Skuggi leit ekki af kortunum á borðinu, líkt og þetta kæmi honum ekkert við.
,,Við höfum ekki tíma í svona lagað…‘‘ sagði Heriður.
,,Sannaðu leyndardóm þinn, Skuggi,‘‘ hvæsti Salitud. Skuggi leit hægt á hann. Andartakið fraus.
,,Ég þarf ekki að sanna neitt fyrir neinum,‘‘ svaraði Skuggi rólega. ,,Við erum að sóa tíma hér,‘‘
,,Þú sóar tíma, Skuggi, með því að fresta sönnunargögnum,‘‘ sagði Salitud eitraðri röddu. Skuggi kippti fram Silfursting eldsnöggt. Salitud stökk á fætur og dró fram langan rýting. Áður en nokkur gat stokkið að eða Heriður öskrað hjó Skuggi að Salitud sem leit órólega í kringum sig þegar hann komst að því að hann væri ekki dáinn.
,,Hm,‘‘ sagði hann yfirlætislega en var þá starsýnt á rýting sinn, sem var nú í tveimur bitum. ,,Gr, hver sem er getur átt flott sverð, en…‘‘
,,Við þurfum varla að minnast á ein illviðruð jól fyrir um fjörutíu árum, þegar faðir þinn…‘‘
,,Þú hefur… ekki… fínt er, ég trúi þér,‘‘ hreytti Salitud út úr sér og settist aftur. Heriður leit ævareiður yfir hellinn.
,,Ég vona að þetta svali forvitni allra!‘‘ skipaði hann. ,,Þetta er Skuggi og við vitum það! Nógum tíma hefur verið eytt í slíkt þras, ræðum nú óvissuna um mál horfinna galdravera, og annars Bjólfs sem virðist hafa öðlast… djöfullega jötunkrafta. Staðfesting Skugga á… illgerðum slag sínum við falskonung gerir stöðu okkar í Silfurstingsbyltingunni enn þá verri,‘‘
,,Þetta samantvinnst allt,‘‘ greip Skuggi fram í. ,,Undir rúmi Bjólfs var fjöldagröf, ýmsar manneskjur sem að ég veit að kunnu vel á galdra. Einnig var loftið þarna… spillt, sjúkt… loft galdra,‘‘ Augu Heriðs glenntust lítillega upp.
,,Var Trjángur á meðal þeirra?!‘‘ spurði Katlingur af Fiðurhöfðakastala.
,,Ég sá hann ekki,‘‘ svaraði Skuggi og Silfurhöfðingjunum virtist létt. ,,Í þá sekúndu sem ég leit undir,‘‘ Skuggi lagði hönd á hjöltu Silfurstings og sneri sér við. Uppreisnarmenn gripu til vopna og nokkrir þustu á bak við Skugga. Létt fótatak heyrðist fyrir utan hellinn auk nokkurra orðaskipta og inn gekk aldraður maður með sítt hvítt hár og gríðarmikið snjólitað skegg.
,,Heriður!‘‘ ávítaði Trjángur. ,,Sendu einhverja kurteisari næst! Og þolinmóðari, það er kannski grunnurinn,‘‘ Heriður stóð upp.
,,Trángjur! Goðin eru góð, þú ert á lífi!‘‘ sagði hann. ,,Segðu frá, komu konungsmenn að leita þín?‘‘ Trjángur stóð stjarfur svolitla stund en reif svo stól frá nálægum uppreisnarmanni.
,,Mín var leitað, já,‘‘ Trjángur settist niður með erfiðleikum. ,,En þeir fundu mig ekki. Þeir voru góð æfing fyrir lærling minn í huliðsgöldrum. Ég þykist vita að það sé ekki einsdæmi, miklar truflanir hafa angrað mig á sviði galdra,‘‘
,,Konungsmenn hafa farið um Eyjaveldið og handtekið færustu seiðmenn og nornir,‘‘ sagði Stefán Silfurhöfðingi Hafeyjarkastala.
,,Og þið kölluðuð mig hingað bara til þess að vera viss um að ég væri á lífi?‘‘ spurði Trjángur þreytulega.
,,Nei, við þurfum einnig ráð frá þér, þetta eru ekki galdrabrennur, við vitum það fyrir víst, Skuggi ætti að útskýra þetta fyrir þér,‘‘ svaraði Herður. Trjángur leit lítillega upp.
,,Ah, Skuggi, sá þig ekki þarna, daginn,‘‘ sagði hann vinalega. Skuggi laut höfði lítillega.
,,Ég hitti konung fyrir stuttu. Herbergi hans var útúrkrotað með allskyns rúnum og táknum. Sjálfur var konungur húðflúraður undarlegustu táknum. Þessi tákn virtust gefa honum… jötunkrafta. Ekki einu sinni sverð mitt Silfurstingur gat sært hann,‘‘ útskýrði Skuggi. Trjángur varð myrkur á svip.
,,Skuggi…‘‘ sagði hann. ,,Segðu mér… var eitthvað tákn sem bar sérstaklega á, þá hjá konunginum?‘‘
,,Já. Efst á höfði Bjólfs var mikið og flókið tákn, líkt og kolkrabbi sem breyddi anga sína út í önnur tákn,‘‘
,,Teiknaðu það fyrir mig í sandinn,‘‘ Skuggi reif spjót af verði og og krotaði vandlega í sandinn á gólfinu. Trjángur stóð upp sviplaus. Þegar Skuggi hafði lokið teikningunni glenntust upp augu Trjángs og hann sparkaði sandinum til. ,,Skuggi, ertu alveg viss um að þetta hafi verið táknið á höfði Bjólfs!?‘‘
,,Það er einungis eitt er stendur framar hæfni minni í hefndum og það er minnið, rist í hafsbotn ódauðleikans, skreytt með kuðungum er bergmála óm hins liðna,‘‘ svaraði Skuggi. ,,Svo já, nokkuð viss,‘‘
,,Salitud! Við þurfum að talast í einrúmi!‘‘ skipaði Trjángur og Salitud elti hann varfærnislega inn í einn úthellinn.
,,Trjángur! Hvað er…‘‘
,,Seinna, Heriður!‘‘ Heriður leit á Skugga, og svo á hina fundarmeðlimi. ,,Farið til vistavera ykkar hér í Moseyjarkastala, ég kalla ykkur saman þegar ég hef rætt við Trjáng,‘‘ Silfurhöfðingjarnir stóðu upp og gengu þöglir í burtu. Aðrir byltingarsinnar fóru brátt að sinna aftur sínum daglegu störfum en gáfu Skugga þó reglulega hornauga. Heriður andvarpaði. ,,Mér býður við að segja það, en svo virðist sem að við, ég, sé að missa stjórn á þessu. Það er gott að vita af þér Skuggi, heiður. Og varðandi Salitud. Ekki refsa honum, hann er ekki mjög góður innan um fólk…‘‘
,,Það var rétt af honum að efast um mig,‘‘ sagði Skuggi. ,,Á þessum tímum, á þessum stað, er rétt að efast um alla,‘‘
,,Hann meinti ekkert illt, hann verður stundum svona uppstökkur, ég efa þó ekki að hann hefði beitt hnífnum ef hann hefði fengið tækifæri til þess,‘‘
,,Hver sem er getur borið grímu, og það er ógn ykkar. Ef að það er ekkert fleira sem að við þurfum að ræða, þá ætla ég að sjá um hest minn,‘‘ Heriður hneigði sig og Skuggi fór að sinna Þyt. Skuggi beið hjá Þyt í þó nokkurn tíma þar til Salitud hraðaði sér með lífvörðum í átt til sjávar. Trjángur og Heriður fylgdu honum út úr kastalanum en staðnæmdust hjá Skugga.
,,Ég hef sent Salitud að ná í mikilvæg rit úr Sóta,‘‘ sagði Trjángur grafalvarlegur.
,,Ef að það er ekkert sem þú vilt biðja um, þá er þessum fundi lokið,‘‘ bætti Heriður við. Skuggi girti Þyt þegjandi og steig á bak. ,,Hörður, Magni, ég vill ræða við ykkur!‘‘
,,Því miður munuð þið sjá mig aftur,‘‘ sagði Skuggi út í vindinn og reið burt.