Þögn. Eða kannski ekki þögn. Frekar andhávaði, sem er alger andstæða hávaða. Þögn er nefnilega ekki andstæða hávaða, frekar en myrkur er andstæða ljóss. Myrkur er bara fjarvera ljóss, og ljós fjarvera myrkurs. Andstæða ljóss hlýtur að vera andljós, rétt eins og andstæða myrkurs er andmyrkur. Andljós er svo svart að það er ekki litur heldur áþreifanleg tilvera án ljóss, rétt eins og andmyrkur er svo hvítt að það er áþreifanleg tilvera án myrkurs. Þannig var þögnin. Eða öllu heldur andþögnin. Hún öskraði á mig, mörg hundruð desíbel í mínus. Mig virkilega verkjaði, í raun og veru, ekki í eyrun.

Ég sat og horfði á hurð. Inni í litlu herbergi, grænmálað og illa upplýst. Í gegnum lítinn glugga; sem var í raun ekkert meira en sprunga á veggnum sem einhverjum virtist hafa dottið í hug að láta gler í, hann var svo lítill að mér þótti furðulegt hvernig flugur komust þar inn, þær hlutu að koma inn um dyrnar; skein sólin og myndaði sólstafi í rykinu sem sveif sælt um herbergið. Ung, ljóshærð kona sat hinum megin í herberginu og las af þvílíku kappi í einhverju blaði, svona rétt eins og að stafirnir væru rétt í þann mund að eyðast.

Á þessum undarlega stað virtist tíminn standa í stað. En tíminn stendur aldrei í stað, hann bara hættir að færa sig til. Og fyrir honum er ekki til neinn annar tími en nútíð. Tíminn líður alltaf í nútíð, þess vegna er alltaf nútíð, í gær, í dag og á morgun. Og akkúrat núna, klukkan tuttugu mínútur í ellefu var nútíð, fyrir mér, ungu konunni og tímanum, það er þeim tíma sem við upplifðum og áttum pantaðan. Já, ég var nefnilega svo sniðugur að panta tíma, panta nútíðina í dag, akkúrat núna, í gær. Þetta kallast að hugsa fram á veginn.

Skyndilega var hurðin opnuð og gráhærður, gamall maður; samt ekki svo gamall, í raun í yngri kantinum en hver lítur ekki út fyrir að vera gamall þegar hann er gráhærður í hvítum slopp; og sagði rámur mitt nafn. Andþögnin var rofin svo að um munaði og óvirk eyrun hristu af sér rykið. Ég spratt upp. Hann benti mér á að fylgja sér.

Við gengum um langan gang. Ég taldi þréttán flúorljós líða hjá fyrir ofan mig. Flúorljós eru eins langt frá því að vera ljós; og þess vegna er rangt að kalla þau ljós; og þorskur frá því að vera spendýr. Flúorljós búa til einhverju eftirlíkingu ljóss, en eftirlíkingar eru þeim annmörkum háðar að einu áhrifin sem þær ná að framkvæma eru þunglyndi og löngum eftir upprunalega hlutnum. Ljós frá flúorljósum er líka svo yndislega þunglyndislegt og lekur einhvern veginn yfir allt í stað þess að skína. Ljósið frá þeim er meira eins og drullumall sem er kastað á vegg.

Við komum inn í annað herbergi. Þar var allt hvítt, fyrir utan bekk á hjólum. Hann var í rauðu áklæði. Hann benti mér á að leggjast á bekkinn. Síðan breti hann upp vinstri erm mina. Hann vann alveg ótrúlega hljólaust og ég ályktaði að hann hlyti að vera með afskaplega lítið sjálfstraust. Það er nefnilega svo að þeir sem vinna hljóðlaust eru annað hvort með gífurlega lítið sjálfstraust og vilja alls ekki láta neitt á sér bera, eða þá mjög góðir þjófar. Reyndar myndi þetta fólk vera mjög góðir þjófar, það myndi enginn taka eftir þeim, eini gallinn væri sá að þau myndu aldrei þora að stela einhverju.

Hann stakk nál í handlegginn á mér. Ég fann ekkert fyrir því. Hann sagði mér að slappa af. Mér sárnaði nú að hann skyldi ekki segja eitthvað annað, eitthvað meira hughreystandi, ég var jú að gera þetta í fyrsta skipti. Ég lygndi aftur augum. Það var allt svart. Ég fann hvernig það hægðist smátt og smátt á hjartslættinum og andardrátturinn varð grynnri. Ég fann hvernig myrkrið lak yfir andlit mitt og huga. Hjartað hætti loks að slá.

Ég opnaði augun. Sá langan gang, upplýstan af himneskum flúorljósum.