Svefn. Eftir Stefán Ingvar Vigfússon.

Pabbi opnar hurðina lágt til þess að vekja mig ekki, ljósið sem kemur skyndilega inn brennur augun mín. Hann angar eins og eftir veislu eða á jólunum. Ég sný mér að hurðinni og opna augun, ég brosi til hans og hann brosir dauflega til mín áður en hann lokar hurðinni á ný.
Ég grét ekki þegar hann sagði mér að mamma væri dáin.
*
Það var fallegur dagur og ég var hjá Sigga, besta vini mínum, hann hringdi og sagðist ætla að koma að sækja mig sem mér þótti undarlegt í ljósi þess að Siggi býr í sömu götu og við. Hann kom á bílnum og við keyrðum framhjá húsinu ég spurði hann hvert við værum að fara og hann sagði að við værum að fara á spítalan. Það olli mér þungum áhyggjum þar sem að ég var nýlega í spraut og ég vildi síður endurtaka það. Ég mótmælti.
Við lögðum bílnum nokkuð langt frá spítalanum og hann horfði á mig um stund, hann virkaði alvarlegri en hann er almennt, almennt er hann fyndinn en mamma ströng. Þarna virtist hann þurfa að segja eitthvað en ekki vita almennileg hvernig hann ætti að koma því út sér. Auk þess virtist hann hryggur.
“Ég er lélegur í svona… dóti.” sagði hann, eins og persóna úr virkilega lélegri sögu.
Ég horfði á hann undri eins og ótrúverðugi fimm ára gamli strákurinn í lélegu sögunni.
“Mamma þín varð fyrir stórum trukk áðan og dó.” sagði hann og andaði léttar.
Hann fór út og opnaði hurðina fyrir mér, þar sem það er barnalæsing.
Sólin skein, blómin voru fögur. Börn sem ég myndi ekki kynnast fyrr en eftir átta ár eða svo voru á leik við Landakotsskóla. Ég brosti breitt og valhoppaði við hlið pabba er hann leiddi mig.
*
Ég loka augunum. Ég vil vakna. Mamma kyssti mig ekki góða nótt. Ég vil burt úr þessum draumaheim sem virðist skapaður af lélegum, siðblindum rithöfundi.
*
Pabbi grét ekki í dag, heldur ekki ég. Jóa, systir mín, grét aftur á móti hástöfum. Það virkaði ekkert raunverulegt í þessari kirkju. Mamma var ekkert þarna, það var bara lokuð kista. Pabbi útskýrði fyrir mér að trukurinn hafði skemmt líkama mömmu svo mikið að enginn með viti hefði áhuga á að sjá leifar hennar.
Amma og afi, mamma og pabbi mömmu, sátu bara. Amma hélt þéttingsfast í handlegg afa og grét þögil.
Pabbi starði hinsvegar bara í tómið, hann leit út fyrir að hafa glatað hálfri sálinni á einu bretti.
Mér leiddist bara, þetta var annar fagur dagur og ég var neyddur til að vera í einhverri hundleiðinlegri kirkju með gömlu fólki. Sparifötin voru óþægileg og mig klæjaði í rassinn. Ég mátti heldur ekki leika mér þegar ég kom heim. Þetta var frekar glataður dagur. Öll fjölskyldan kom saman heima og borðaði ógeðslega vondan mat, þetta var eins og versta veisla í heimi. Það var ekki einu sinni kaka.
Ég grét ekki.
*
Ég vil vakna. Hvar er mamma? Er hún í alvörunni farin? Þetta hlýtur að vera draumur. Ég loka augunum og sé andlit mömmu og heyri grátur minn þegar ég Andrés reif nýju peysuna mína í fótbolta. Ég opna augun og sé ekkert nema myrkur. Ég loka augunum og sé mömmu að hella morgunkorni í skálina mína og láta mig fá hana. Ég opna augun. ÞEtta er ekki draumur. Mamma er dáin.
Ég græt.

Endir.

( http://www.smasogursiv.wordpress.com )