Já. Hér er mjög stutt tilraun í fornbókmenntastíl.

Svitinn draup af enni Þríbrandings rétt eins og rakaþéttingin á blaktandi greinum í þykkri dalalæðunni. Einbeitingin gagnvart Ómari Kulfengna var þvílík að ekkert annað átti sér tilverurétt í hugsunum hans. Varir Ómars kipruðust í háðslegu og óttaslegnu brosi en slöknuðu um leið og hausinn var eigi lengur tengdur við hálsinn. Það söng í hör Þríbrandings, ekki ólíkt því þegar mynt er slegin á lofti. Ég var þarna. Ég stóð álengdar. Sævar Þríbrandur var bróðir minn og banamaður Ómars. Ég tala ekki lengur við þann ofstopa af manni er tók höfuð hans og bar að vitum sér eftir óréttlátt dráp. Þann mann tel ég í dag vera hugsjúkan og svo með rentu, eða hversu sem af frásögn minni ber til heyrenda. Hlýðið á.

Ég hef aldrei talið mig vera af göfugum ættum en svo hefur aldrei verið að finna hjá okkar frændum. Grávík austur af Melum var eigi fjölmenn en svo gefur tilefni til drengskap nágranna okkar. Sigurður hét bóndi nokkur sunnan við varhús er við byggðum. Var hann Ómars Hjaltasonar. Bjó með honum sonur hans Ómar en var Sigurður ekkill að Gunnhildi. Norður við okkar byggð voru svo tveir aðrir bæir en þeir voru ekki í frásögn færandi.

Tvo bræður átti ég, Knútur og Sævar voru, en sá síðarnefndi heldur kappsamari. Í ættarmund til margra ára gekk Slævibrandur, kynngimagnað sverð, og loks til Knúts. Taldi sá ólánssami bróðir að hann væri til bardaga betur búinn en flestir. Skjátlaðist honum ærlega.

Knútur taldi sig kvaddan til skyldu sinnar í Hauganesið er fregnir af tilvonandi árás bárust með flökkukonunum. Kjaftakerling ein sagði að göfugra ætta leiðtogar munu til atlögu sækjast gegnt hvor öðrum í norðri. Knútur lagði til liðsinnu sína í eins manns hersveit áður en uppgjörið hófst. Tók hann andstöðu gegn Þórði og þeirra pakki en beið bana. Þórður var ærinn maður nóg til þess að hafa fótmann suður að Melum ásamt tveimur vopnklæddum mönnum þess til að bera fregnir af dauða bróður míns og skil á sverðinu.

Sævar tók þessu afar illa en var honum Knútur kær. Er fótmaðurinn afhenti bróður mínum sverðið brá Sævar því á loft og drap fótmanninn og hina tvo málaliðana. Öðlaðist þar með Sævar nafnbótina Þríbrandur.

Nú ber svo að velli að Sigurður átti ættarskyldu við Gauta fótmann er Sævar drap. Var Sigurður gamall maður og ófær í bardaga en fól hann hefndaráformin í hendur sonar síns. Nú sátu rauð ský með dagrenningunni. Ég sá þau um morguninn og réð í þau.

Ómar ákvað að leita réttar síns án laga og hugðist hér til bæjardyra koma. Bróðir minn, Sævar Þríbrandur, var lævís maður og hafði að gjöf glöggvi mikla. Sat hann fyrir Ómari Kulfengna og kom að honum óvörum. Án þess að geta brugðið fyrir skildi var Ómar afhausaður af Sævari. Ég var þarna. Ég stóð álengdar.

Traust og óárvekni bróður míns urðu ekki til þess að bjarga honum. Hver hefði ætlað að svo færi að ég yrði Sævars bani. Ég var þarna. Ég stóð álengdar með bróður minn innan seilingar. Því hvernig svo sem mín fyrri orð kunnu að hljóma þá tel ég þann mann í dag vera hugsjúkan, en þann einungis sem varð bróður mínum að bana. Skiljið þið nú? Hví ættu dauðir að tala? Hver mun fyrir hann hefna? Skulu örlögin kveða svo á um að það verði ég? Hugsjúkur með rentu.