Skuggakviða Kafli VII KÓNGUR

Daginn eftir reið Arnór á Þyt yfir Löngubrú. Hann hafði hugsað þetta yfir lengi kvöldið áður og komist að niðurstöðu. Brjálæðið í Eyjaveldinu myndi standa og falla með Bjólfi, og Skuggi myndi vera úrslita leikur í því máli. Hann myndi fara inn í höllina með valdi Gráeyjarhöfðingja, finna konung og koma út aftur sem Arnór. Hann hafði rétt áðan ráðfært sig við Herið í Mosey um verur konungs og Heriður hafði tjáð honum að konungur yfirgæfi aldrei höllina nema á sérstökum tilefnum. Arnór hafði þó sagt að þetta væri einungis af faglegum ástæðum sem hann spurði. Sólin var hátt á lofti, fyrir alla að sjá þegar Skuggi henti konungi fram af svölum herbergis hans. Þegar Arnór var kominn að Kóngsey mætti hann verkamönnum með vagna fulla af viði og steini, raðandi því við enda brúarinnar.
,,Hvað ætliði að gera við þetta?‘‘ spurði Arnór. Einn verkamannanna leit upp.
,,Ó, konungur vill fá hlið við Kóngsey, ójá, og lætur okkur skuldarana byggja það,‘‘ hnussaði í honum. Arnór hristi hausinn, rétti manninum pening og reið áfram.

Borgin var yfirfull að venju. Kaupmenn hrópuðu fullkomnun varning síns yfir göturnar yfir til næsta kaupmanns er sagðist vera ósammála. Að minnsta kosti tveir verðir voru í hverri götu, vopnaðir sverðum, spjótum og stórum skjöldum. Arnór hafði skilið Þyt eftir í skóginum og hélt einsamall í gegnum borgina í átt að aðalhliði hallarinnar. Vörðum fjölgaði jafnt og þétt þar sem Arnór bar nær miðju Ægisborgar. Hann gekk til móts við hliðverðina.
,,Stopp, hv-!‘‘
Þú veist það fullvel, við vorum saman í þjálfun og opnaðu hliðið fíflið þitt eða ég læt reka þig! langaði Arnór að segja en af eðlislægri virðingu fyrir vörðum sagði hann:
,,Arnór Grímsson, Gráeyjarhöfðingi og krefst inngöngu í höllina á forsendum starfs míns,‘‘ sagði Arnór hátt og skýrt. Verðirnir kinkuðu kolli og opnuðu stórt málmhliðið varlega. Arnór laut höfði og gekk inn í gróskumikinn og vel hirtan hallargarðinn. Verðirnir fjórir við hallardyrnar reistu við atgeira sína.
,,Arnór Grímsson, Gráeyjarhöfðingi og vegna stöðu minnar á ég rétt á inngöngu,‘‘ sagði Arnór.
,,Vitanlega, herra Arnór,‘‘ svaraði einn varðanna og þeir opnuðu dyrnar fyrir Arnóri sem hélt áfram inn í ríkulegt torgið í forstofu hallarinnar. Vörðurinn sem hafði talað við Arnór benti nálægum hermanni á að fylgja honum.
,,Ó, nei takk, þess gerist ekki þörf. Ég get alveg varið mig sjálfur ef að uppreisnaraularnir koma,‘‘ sagði Arnór.
,,Því miður, herra, en reglur eru reglur og þeim ber að fygja. Það eru þær sem halda uppi aga og fegurð Eyjaveldisins,‘‘ sagði vörðurinn. Og ég held að þessar reglur séu ekki beint til þess ætlaðar að vernda mig, hugsaði Arnór og gekk sviplaus upp ganginn að herbergjum hæstráðenda Eyjaveldisins. Baldur hafði áður sýnt honum leiðina, fyrir of mörgum árum. Arnór tók eftir því að fleiri málverk og aðrir skrautmunir auk teppis með gullísaumi á gólfinu hafði bæst við leiðina, frekar til trafala heldur en fegurðar. Arnór tók fram lykil að herbergi sínu og opnaði hurðina.
,,Ég vil ekki að neinn ónáði mig, ég mun vera hérna í þó nokkurn tíma,‘‘ sagði Arnór og skellti á eftir sér hurðinni. Hinum megin við vegginn heyrði hann vörðinn styðja sig þunglamalega við vegginn. Arnór eyddi engum tíma í að prófa ríkulegt rúmið eða skoða skrautmuni herbergisins heldur skaust hann út að glugganum og opnaði. Eftir veggnum sá hann einn glugga opinn í nokkurra herbergja fjarlægð. Arnór setti belti sitt yfir öxlina og slíðrið einnig, fór úr hringabrynjunni og og fótahlífunum og setti punktinn yfir i-ið í umbreytingunni með svartri böðulsgrímu.

Skuggi fikraði sig eftir syllunni fyrir neðan gluggana er teygði sig alla leið eftir veggnum. Eina handtak hans voru saklauar ufsagrýlur sem gátu ekkert gert við þessu þukli Skugga sem var traust sem stálkrókur. Skuggi fór framhjá glugganum við hliðina á herbergi Arnórs. Hann sá Raknak Úbúason Smáraeyjarhöfðingja og unga konu… Skuggi fikraði sig ögn hraðar yfir að næsta glugga. Þar var dregið fyrir, engin ljós og Skuggi gat ekki greint nein hljóð, þó svo að þau í næsta herbergi hjálpuðu til. Skuggi dró fram lítinn hníf og með lítilli hreyfingu hafði hann dirkað upp læsingu gluggans. Hann opnaði aðra hurðina og stökk hljóðlega inn. Mannlaust herbergið bauð Skugga velkominn sem batt enda á þessa litlu heimsókn sína með því að brjóta upp lás hurðarinnar og læðast fram á ganginn. Verðir voru við þriðju hverja hurð á löngum ganginum, og þrátt fyrir mörg augu tók það þá um fimm sekúndur að taka eftir Skugga, en það var meira en nógur tími fyrir hann til þess að draga fram Silfursting og rota nálægasta vörð.
,,AAA!!! SKUGGI!!! SKUGGI!!!‘‘ öskraði einn þeirra og hljóp niður stigann. Hinir flýttu sér að draga fram vopnin. Skuggi hélt Silfursting lárétt fyrir framan sig og bakkaði rólega í átt að stiganum er leiddi upp í Konungsturn, vistarverum konungs.
,,Leggðu niður vopnin, S-Skuggi, við erum fleiri en þú!‘‘ sagði sá varðanna er fór fyrir flokknum sem elti Skugga hægt og rólega.
,,Er þér sama þó að ég fleygi þeim?‘‘ spurði Skuggi sakleysislega og með þremur snöggum úlnliðshreyfingum hafði hann fellt fjóra verði. Fjóðri vörðurinn hafði fleygt sér veinandi í gólfið eftir að hinir höfðu fallið fyrir hnífunum. Verðirnir flýttu sér að bera fyrir sig skildi og gengu þannig bognir í baki í átt til Skugga sem hristi hausinn og þaut upp stigann í átt að vistarverum konungs. Útundan sér sá Skuggi birtast enda á spjóti og sló Silfursting í áttina að því. Vörðurinn fyrir framan hann missti spjótið í tröppurnar og stuttu síðar hausinn líka. Líkaminn var ekki fallinn niður þegar Skuggi var kominn upp að fyrstu hæð turnsins.fjórir atgeirar beindust að honum, skrýddir fánum Kóngseyjar og skjaldarmerki Eyjaveldisins. Í blaðið var steypt innsigli konungsins.Rauð, gul og fjólublá litklæði féllu yfir glansandi hringabrynju með nokkrum gullhringjum og hyrndir hjálmarnir er huldu andlit þeirra voru skreyttir rúbínum. Skuggi snarstansaði. Konunglegu lífverðirnir hlógu taugaóstyrkir.
,,Rekið hann í gegn!‘‘ hrópaði einn þeirra og í sameiningu stungu þeir fram atgeirum sínum. Skuggi stökk aftur fyrir sig og sveiflaði sverðinu ógnandi.Verðirnir otuðu að honum vopnum sínum. Fyrir aftan sig, eftir ganginum heyrði hann fótatak tuga hermanna.
,,Þetta eru endalok þín, Skuggi!‘‘ hrópaði sá fremsti í lifandi veggnum sem meinaði Skugga að fara upp turninn. Yfir þeim hékk gríðarstórt veggteppi með mynd af Bjólfi og innsigli konungsins. Skugggi teygði sig niður í beltið og tók upp síðasta hnífinn. Hann lyfti honum upp og gerði sig tilbúinn að kasta. Verðirnir bökkuðu í flýti og rákust í félaga sína fyrir aftan. Í flýti báru þeir fyrir sig skildina. ,,Við erum fimmtán og þú ert einn! Hvað heldurðu að þú getir fellt marga með einum hníf?!‘‘ vörðurinn fölnaði lítillega þegar hann hugsaði um hvað hann hafði sagt.
,,Athugum það seinna,‘‘ muldraði Skuggi og hnífurinn klauf loftið aftur og aftur og aftur. Nokkrir varðanna gripu um hálsinn á sér en sér til undrunar blæddi þeim ekki.
,,Ha!‘‘ kallaði málglaði vörðurinn hæðnislega rétt áður en þungt veggteppið lagðist ofan þá og blindaði. Vopn skárust upp úr því sumstaðar. Skuggi tók tröppurnar í þremur stökkum og hjó og stakk ofan iðandi bungurnar í veggteppinu. Skuggi stiklaði ofandi á vörðunum varlega og gætti sín á sverða og atgeiraoddum sem stungust upp úr teppinu af handahófi. Við tröppurnar er leiddu áfram upp stigann reis konunglegur lífvörður, rósrauður í framan og mundaði sverð.
,,Gggrrraaarrrggghhh!!!‘‘ öskraði hann og lagði að Skugga sem sló höggið burt með Silfursting og stakk á móti. Vörðurinn bar fyrir sig skjöld og hjó aftur. Skuggi hjó á móti með Silfursting eins fast og hann gat og reyndi að afvopna vörðinn sem tókst að halda í vopn sitt. Skuggi lagði að honum með sverðinu en stungan var varin og Skuggi neyddist til þess að bakka niður tröppurnar er bardaginn hafði leiðst upp. Skuggi var í þann mund að höggva í hönd varðarins þegar brennandi sársauki skar í sundur á honum bakið. Skuggi snerist á staðnumog lagði til árásarmanns síns sem hafði skorið sig úr teppinu. Skuggi hjó tvisvar til hans áður en honum tókst að afhöfða óvin sinn. Aftur laust niður sársauka í logandi bak Skugga sem sneri sér aftur að fyrri andstæðing. Þeir skiptust á höggum áður en Skuggi greip Silfursting tveimur höndum og stakk af öllu afli í skjöld varðarins. Sverðið náði ekki í gegn en skjöldurinn dældaðist og vörðurinn féll aftur á bak við höggið. Skuggi sveiflaði sverðinu og með ómannlegri nákvæmni hitti hann á milli hjálms og brynju, blóðið úr hálsinum skvettist yfir Skugga og endurlitaði fötin rauð. Hann stökk yfir líkið og með átaki tókst honum að beygja tætt bakið og brjóta upp lásinn. Það var nokkuð einfalt, þessir nýju flóknu lásar voru mun auðveldari en hinir gömlu og þungu. Skuggi opnaði hurðina að herbergi konungs, stökk inn og skellti í lás á eftir sér.

Heriður var að fara aftur yfir listann af vopnasendingum Járngeldinga til Eyjaveldisins þegar Bogi gekk inn til hans.
,,Hvað vildi Arnór?‘‘ spurði hann og lét augun renna yfir lesefni Heriðs.
,,Hann spurðist fyrir um verur Bjólfs, af faglegum ástæðum,‘‘ sagði Heriður og lagði frá sér skýrsluna og nuddaði augun. Dæmið gekk ekki upp.
,,Hmmm… hann hefur ekki farið úr höllinni í marga daga, Bjólfur, ég heyrði að enginn hefði séð hann fara úr herberginu einu sinni,‘‘ sagði Bogi og tók blaðið sem Heriður hafði verið að lesa.
,,Það er það sem ég sagði,‘‘ svaraði Heriður. Það var stutt þögn á meðan Bogi las blaðið.
,,Þetta gengur ekki upp,‘‘ sagði Bogi loks og bar saman nokkrar skýrslur. ,,Járngeldingar eru við enda hvers mánaðar ávallt með jafn mikið af vopnum og brynjum þrátt fyrir að smiðjurnar séu svo gott sem lokaðar,‘‘ Heriður hristi hausinn.
,,Sanbar kom með þetta sjálfur, hann sagðist heldur ekki skilja þetta,‘‘ Heriður bældi niður lítinn geispa.
,,Herra!‘‘ sagði másandi rödd fyrir aftan þá. ,,Ég ber skilaboð. Mér var skipað að koma hingað af-‘‘
,,Segðu það, ef að það er svona mikilvægt!‘‘ skipaði Bogi hastur.
,,Herra, við höfum augu og eyru á öllum galdraverum Eyjaveldisins, eins og þið vitið, til þess að treysta á krafta þeirra eða farga, en síðustu daga hafa öflugustu seiðmenn og nornir Eyjaveldisins horfið, sumir segja í fylgd konunglegra lífvarða,‘‘ Heriður nuddaði efrivörina.
,,Ég heyrði ekki af neinum galdrabrennum, við hefðum geta stoppað-´´
,,Nei, þetta eru ekki galdrabrennur, er mér sagt. Jafnvel seiðmenn við hirðina hafa horfið,‘‘ sagði boðberinn óðamála. Heriður stóð upp.
,,Kallið Trjáng hingað, sama hvaða seið hann er að malla í Dvergey, segið honum að kasta huliðshjálmi og tala við mig. En engan dónaskap,‘‘ skipaði Heriður. ,,Trjángur veit hvað er í gangi. Og við verðum að halda honum öruggum, hann gæti verið í hættu,‘‘

Skuggi gekk hægt um ríkulegt herbergið. Á miðju gólfinu var stórt upphleypt kort af Eyjaveldinu, haf úr silfri, eyjur úr gulli, skógar úr smarögðum og fjöllin úr bronsi. Málverk voru um alla veggi, og öll af Bjólfi og hans hetjudáðum. Margfalt rúmið stóð þögult við einn enda herbergisins. Skuggi gekk að fílabeinsskrifborði konungsins. Við það stóð kista full af gulli og öðru góssi en ofan á henni var blað. Skuggi las það yfir.
Frá konungi, smá auka laun fyrir gott starf, en ekki búast við meiru fyrr en þið hafið lagt Kötuþorp á Fiðurhöfða í rúst!
Ég mun draga hermenn frá Fiðurhöfða og yfir í Gráey, svo að reynið að þykjast plata njósnara mína á hafi úti með því að þykjast ætla að gera árás þar.
Kv, Bjólfur Rútsson hinn göfugi, mikli, fríði o. s. frv. konungur Eyjaveldisins

Skuggi krumpaði saman blaðið og fleygði því í eldstæið hinum megin í herberginu. Hann var ekki fullur bræði, heldur yfirvegun þess er hefur fengið staðfestingu á grun sínum. Eldurinn gaf Skugga þó hugmynd um hvernig hann ætti að fara með konunginn. Þegar hann nálgaðist rúmið fór ónotaleg tilfinning að leika um myrkrið í kringum hann. Skuggi beindi augum sínum á veggina og svo á gólfið. Þegar Skuggi var búinn að renna nokkrum sinnum yfir herbergið sá hann að það var allt útatað í þykku og flóknu kroti. Skuggi læddist varlega í kringum herbergið, fylgdi sætri nályktinni undir rúmið. Skuggi beygði sig varlega niður, bældi niður óp við sársaukanum í bakinu og lyfti upp lakinu. Tóm augu ýmissa kuflklæddra líkama störðu að honum eða eitthvað annað. Skuggi stóð aftur upp hægt. Hann veifaði hendi sinni laust út í loftið. Það var kekkjótt, þunnt sumstaðar en kögglar flutu um á milli og mörðu venjuleg atóm. Þetta var sjúkt loft galdra, hér höfðu mikil átök krafta úr handanheimum átt sér stað. Skuggi herti tak sitt á Silfursting og sneri sér hægt að opnum svalardyrunum. Framundan blaktandi gluggatjöldunum gekk álút vera. Skuggi greip sverðið tveimur höndum og gekk varlega nær. Ljósið frá heiminum fyrir utan skyggði á veruna stóð kyrr.
,,Bjólfur,‘‘ sagði Skuggi með fyrirlitningu. Veran leit snöggt upp og Skuggi skynjaði glottið.
,,Skuggi?‘‘ spurði hún djúp og rám, líkt og hún bergmálaði inni í sjálfri sér. Skuggi kannaðist við röddina, en minningin flúði þegar hann reyndi að ná henni. Skuggi mjakaði sér nær. Veran hreyfði sig ekki en Skuggi heyrði greinilega hraðan og djúpan andardráttinn. Skuggi var örfáum skrefum frá verunni og gat nú auðveldlega greint útkrotað og örótt andlitt Bjólfs. Skallinn hýsti eitt gríðarstórt og flókið galdratákn en andlitið fékk ýmsa arma út frá því tákni og önnur minni galdratákn. Fyrir ofan annað eyra konungsins var langur skurður er blæddi miskunnarlaust úr. Skuggi lyfti Silfursting og stakk. Líkt fyrsti dropinn langt á undan storminum skaust fram gullið sverð konungs og kom Skugga algerlega á óvörum sem þurfti að hrökkva afturábak til þess að missa ekki Silfursting sem Bjólfur hafði slegið í burtu án þess að depla auga. Skuggi náði aftur stjórn á sér og hjó aftur. Í miðju höggi þurfti hann að breyta um stefnu og verja stungu Bjólfs sem kom með ómannlegum hraða. Skuggi ætlaði að ýta Gullsting (konunglega sverðinu, hjöltun úr fílabeini en brandurinn gullinn með öldum á egginni) burt en mætti þar jötunafli. Bakið skrækti á hann og Skuggi fann blóðið leka niður aftan í sér en útilokaði slík smáatriði og einbeitti sér að andstæðingi sínum. Blóðhlaupin og litlaus augu Bjólfs geisluðu af ánægju þar sem hann sveiflaði sverðinu með hraða eldingarinnar.
,,Skuggi… ég hef beðið þessa lengi,‘‘ sagði hryllileg röddin og hann glotti.
,,Ég… gnh… líka,‘‘ svaraði Skuggi og lagði til hans. Skuggi féll til hliðar í angist og greip um blæðandi lærið. Bjólfur stóð yfir honum og Skuggi vissi ekki af sér fyrr en hann var í hinum enda herbergisins, með eitthvað sem honum fannst vera brotið rif. Skuggi stóð viðvaningslega upp og treysti grip sitt á Silfursting. Bjólfur stikaði rólega að honum.
,,Þú hefðir þá kannski átt að vera ögn þolinmóðari. Örlítið meiri æfing á hermönnum mínum hefði gert þér gott,‘‘ sagði hann og fleygði frá sér Gullsting. Skuggi mjakaði sér í átt að hurðinni. Högg og köll dundu á henni þar sem verðirnir reyndu að komast inn. Skuggi vildi frekar kljást við allan konunglega lífvörðinn og hina verði hallarinnar en að þurfa að verjast öðru höggi frá þessari ófreskju, en réttlæti og friður varð að lifa. Skuggi beindi sverði sínu að Bjólfi sem andaði djúpt inn í gegnum nefið. ,,Mmm, þvílíkur ilmur, getur það verið? Er það… ótti, sem sjálfur Skuggi angar af?‘‘ Skuggi stóð grafkyrr og mældi út hverja einustu hreyfingu Bjólfs. Þær voru ekki sérlega tignarlegar, hreyfingarnar, en kraftur þeirra marði loftið sem þær ferðuðust um. Það blæddi enn úr skurðinum á höfði Bjólfs. Það blæddi enn úr lífslíkum Skugga. Bjólfur var örfáa metra frá honum. Skuggi beygði sig í hnjánum. Bjólfur lyfti upp hnefa og lét vaða í Skugga sem henti sér til hliðar og sló í síðu konungs. Skuggi fór í kollhnís í burtu og vék sér undan öðru höggi frá Bjólfi sem rústaði nálægan skáp. Skuggi stökk að svölunum og sneri sér við. Þar sem hefði átt að vera djúpur skurður með fossandi blóði var einungis rifin skikkja og ber húð. Bjólfur brosti.
,,Jahérna, ég bjóst ekki við þessu heldur,‘‘ sagði hann vinalega. Hann gekk ógnvænlega að Skugga sem bakkaði. ,,Ég veit ekki, ætti ég að drepa þig núna og losa mig við vandamál sem gætu stafað af þér, eða ætti ég að sýna vald mitt og leika mér að þér næstu dagana? Hvernig ætli fólkinu finnist…‘‘ Bjólfur stökk líkt og köttur á Skugga sem fleygði matarbakka í konung og stökk af svölunum. Bakkinn snerist og hæfði konunginn í magann. Það stoppaði hann ekki og Bjólfur lenti harkalega í gólfinu og horfði niður í hallargarðinn. Blóðslóð Skugga hvarf niður á við.