Ég ætla að byrja á að taka fram að það er þónokkuð síðan þetta gerðist, einhverjir sjö mánuðir u.þ.b, og þó ég hafi vissulega verið mjög veik á tímabili er ég á lyfjum í augnablikinu og líður og gengur miklu betur. Ég skrifaði þessa sögu niður rétt áðan og ákvað að setja hana inn til að byrja umræðu um þunglyndi í þjóðfélaginu, af því að það hefur alltaf verið mikið feimnismál, þrátt fyrir að þunglyndi sé nú á tímum algeng ástæða fyrir dauða fyrir aldur fram, nefnilega sjálfsmorði. Þunglyndi er sjúkdómur, opnum umræðuna, eyðum fordómum og fræðum aðra um sjúkdóminn og hvernig hann lýsir sér!



Ég trúi þessu ekki. Mér finnst hjartað í mér vera að springa.
Ég reika út, finn enga eirð í mínum beinum. Reika áfram, veit ekki hvað ég á að gera eða hvert ég á að fara, er dofin inn að beini. Er ekki einu sinni í jakkanum. Það skiptir samt ekki máli, ég finn ekki fyrir kuldanum. Stálklærnar sem eru að rífa í sundur á mér hjartað eru svo miklu, miklu kaldari.
Ég stend þarna og stari upp í svartan himininn, skjálfandi, þó ég skilji ekki af hverju. Það eina sem kemst að er heimurinn sem er að hrynja í kringum mig. Heimurinn sem ég er búin að byggja úr dagdraumum síðustu vikurnar. Heimurinn, sem ég vissi ósköp vel að væri ekki raunverulegur en gat samt ekki að mér gert að láta eftir mér að skapa. Og nú er hann hruninn.
Það er svo vont. Þvílíkan sársauka hef ég aldrei upplifað, þrátt fyrir allt sem ég hef þó gengið í gegnum. Ég vissi að þetta yrði vont, en ekki svona vont. Sársaukinn er óbærilegur, ég get ekki borið hann ein.
Reika inn aftur, fer inn í sal. Flýtti mér yfir gólfið og sest á stól inni í eldhúsi hjá stelpunum. Hlusta á þær spjalla saman eins og aldavinkonur, þó þær hafi hist fyrst fyrir klukkutíma eða tveimur. Það virðast vera aldir síðan ég kynnti þær.
Þoli ekki lengur við á sama stað og reika fram í forstofu. Ætla út. Hann stendur úti á tröppum og spjallar við nokkra stráka. Fyrrverandi bekkjarbræður mína. Það virðast vera aldir síðan ég hitti þá síðast, þó það sé bara rúm vika. Ég fer aftur inn í sal, get ekki hugsað mér félagsskap en vil heldur ekki vera ein. Á erfitt með andardrátt og vil komast út í kuldann, er að kafna þó ég sé bara á stuttum kjól og leggings. Vil samt ekki ganga framhjá honum, tilhugsunin ein er óbærileg.
Hími þess vegna upp við vegg og bíð eftir að þeir komi inn. Veit það gerist á endanum, tónlistin og dansandi mergðin kalla á þá. Þeir eru bara að fá sér ferskt loft og kæla sig niður eftir síðustu atrennu. Ég sé þá koma inn og flýti mér fram, gríp jakkann minn í einhverri hugsunarlausri aðgerð og fer í hann á leiðinni út. Er næstum dottin í tröppunum á háhæluðu skónum en næ aftur jafnvæginu og reika eftir planinu niður á gangstétt og fylgi henni af því að það er einhver tilgangur. Geng hugsunarlaust yfir götuna og niður að skóla, stoppa á miðri kunnuglegri leiðinni yfir skólalóðina, eins og lostin eldingu. Ég man allt í einu eftir ánni. Hún er örugglega eitthvað ísilögð eftir allan kuldann, og ég þyrfti ekki nema að vaða nema kannski upp að lærum. Kuldinn myndi sjá um rest. Hver myndi svo sem sakna mín? Ekki hann, að minnsta kosti.
Ég legg af stað niður að á, en stoppa á miðri gangstéttinni. Af hverju er ég að hugsa um að fremja sjálfsmorð? Stelpurnar eru uppfrá, þær myndu hafa áhyggjur. Ég hengi mig í þessa hugsun og reika eftir gangstéttinni. Stoppa á stéttinni fyrir utan skólann og stend þar stutta stund, áður en ég sný mér við og tek nokkur skref í átt að Laugarborg. Tek nokkur í viðbót og stoppa til að horfa í áttina að ánni. Stelpurnar, hugsa ég, tek ákvörðun og legga af stað upp í Laugarborg. Stelpurnar eru uppfrá.



Ég vona að þessi saga hafi vakið ykkur til umhugsunar.
Takk fyrir að lesa.
Enginn finna okkur má undir fanna hjarni; daga þrjá yfir dauðum ná dapur sat hann Bjarni.