Ég stari á klukkuna, líkt og ég hef gert nánast hundrað sinnum í dag, og vísarnir virðast hreyfast margfalt hægar en venjulega. Stundum velti ég því fyrir mér hvort tíminn sé stopp. En það getur auðvitað ekki verið þar sem ég varð vitni af því þegar þessi litli benti á tölustafinn fjóra fyrr í dag – þegar ég settist hér niður – en nú bendir hann á átta. Það er eins og heil eilífð síðan.

Allur þessi hávað, þys og skvaldur allstaðar í kring, gerir mig geðveika. Konan í bláu flíspeysunni og dökku gallabuxunum gerði mér bilt við þegar hún stoppaði lyftuna rétt áður en hurðin lokaðist á nefið á henni. Hún hélt á barni í höndunum, vöfðu inn í teppi, og fór út á sömu hæð og við Jónas sonur minn.

Barnadeild sá ég áletrað á stóru skilti (ásamt svartri áberandi ör), sem hékk í loftinu fyrir framan lyftuna, um leið og ég steig úr út lyftunni og var nýbúin að virða fyrir mér konuna í bláu flíspeysunni og reyna að geta í eyðurnar; af hverju hún var að flýta sér svona mikið. Þetta gat nú ekki verið svo alvarlegt þar sem hún fór sjálf sem barnið, en ekki herra sjúkrabíll. Og jafnvel þó hún hafi hlaupið í átt að hurðinni sem svarta örin á skiltinu vísaði á, þurfti þetta ekki að vera svo alvarlegt. Fólk var misjafnlega frekt og misjafnlega móðursjúkt. Sérstaklega nýbakaðar mæður. Henni tókst allavega að komast framfyrir okkur í röðinni.

Ég ætlaði í ræktina eftir vinnu og eftir hana ætlaði ég í saumaklúbb, sem byrjaði einmitt núna – klukkan átta, þar sem kallinn verður loksins heima í allt kvöld til að passa krakkana. Hann er aldrei heima. Týpískt að þurfa þá einmitt, það kvöld, að eyða fjórum tímum á spítalanum útaf Jónasi syni mínum og hans eyrnabólgu. Ég var búin að segja honum að nota húfuna í skólanum en það dugði ekki til. Hvað gerir maður við svona þverhausa? Ekki get ég límt hana á hausinn á honum. Kannski lærir hann núna að nota húfuna en hinsvegar bitnar það ekki bara á honum, heldur á mér líka. Það er ekki oft sem ég hitti vinkonur mínar og það er bara annan hvern dag sem ég kemst í ræktina.

Konan í bláu flíspeysunni hefur setið hér næstum því allan tíman og við hliðina á henni sitja tvær aðrar konur. Þær tala mjög lítið en önnur prjónar og prjónar á meðan hin les bók. Þær eru báðar í yfirþyngd og virðast frekar þreyttar miðað við baugana undir augunum. Þær þekkjast líklega allar því einstaka sinnum reka þær upp nokkur orð sem verður að smá spjalli, en það endist aldrei lengi, sem betur fer. Ég vil bara fá frið meðan ég er hérna. Konunni í bláu flíspeysunni tókst þó að koma barninu strax inn fyrir. Kannski er þetta alvarlegra en ég hélt. Hún virðist allavega áhyggjufull og feitu konurnar við hliðina á henni reyna að hugga hana við og við með því að setja hendurnar á bakið á henni.

En ég og Jónas biðum í tvo klukkutíma hérna frammi áður en hann fékk að komast inn. Loksins kom sköllóttur maður í hvítum slopp og kallaði á okkur. Þá hélt ég að þessu væri að ljúka, en eyrnabólgan er víst orðin það slæm að Jónas þarf að vera í smá rannsókn hérna á meðan hann liggur uppi í rúmi og sefur, líklega útaf verkjatöflunum. Ég hef setið við hliðina á rúminu hans síðan og þess á milli kem ég fram til að breyta um umhverfi og drepa tímann. Þegar ég er hérna frammi, þá sit kyrr og les blöðin, fylgist með klukkunni og reyni að slaka á. Konan á móti mér gerir það hinsvegar ekki, hún labbar um öll gólf á tíu mínútna fresti og fer óspart fram á gang til að tala við læknana sem hún virðist þekkja vel. Hinar konurnar tvær, prjónakonan og bókakonan, gera það sama, þær virðast þekkja læknana, nema þær eru ekki alveg jafn iðnar við að standa upp og sú fyrrnefnda.

Ég reyni að útiloka geðveikina hérna á spítalanum, en það gengur illa. Ég á erfitt með að einbeita mér í miklum hávaða og hvað þá í þessum hita. Fólk týnist inn með veik börn og bíður eftir aðstoð. Uppgufunin sem fylgir taugaveikluðum foreldrum inni í þessu litla og loflausu rými er óbærileg.
Ég hef séð nokkrar konur, og einhverja karla líka, koma inn á deildina með veik börn á eftir mér, en þau eru löngu farin heim. Ég skil þetta ekki. Þessi eyrnabólga hlýtur að vera svakalega slæm nema allt þetta fólk hafi verið í einhverju móðursýkiskasti og rokið af stað með börnin í geðshræringu.
Ég fer að verða mjög pirruð á þessari bið. Kvöldið er allavega löngu ónýtt, en það væri samt gott að geta komist aðeins í ræktina í kvöld ef læknarnir leyfa drengnum mínum að komast héðan út áður en ég verð gráhærð.

Í milljónasta skiptið í dag sé ég nú mjóa lækninn, í hvíta sloppnum, með útstæðu eyrum koma labbandi í átt að biðstofunni. Þetta er ekki læknirinn hans Jónasar. Þetta er vinur konunnar í bláu flíspeysunni ef marka má hve náin þau hafa verið allan tíman sem ég hef hangið hérna. Með honum er kona, líka í hvítum slopp, með grímu hangandi fyrir neðan hökuna, tengda afturfyrir hnakkann – eins og skurðlæknir. Hana hef ég ekki áður séð.

Viðbrögð konunnar í bláu flíspeysunni, þegar hún sér lækninn með útstæðu eyrun, eru engin undantekning frá því áður. Hún sprettur á fætur og labbar í átt til hans eins og í maraþon göngu, út um hurðina á biðstofunni.

Viðbrögð hennar eru hinsvegar ekki alveg eins og áður. Í gegnum glervegginn á biðstofunni sé ég hana grípa báðum höndum fyrir andlitið. Ég sé þetta ekki mjög vel því hún snýr hálfpartinn bakinu í mig. Það er eins og hún viti ekki hvað hún á að gera, en ég veit hinsvegar hvað hún ætlar að gera því hún ræður ekki við það. Það er nokkuð augljóst að fréttirnar sem henni voru færðar eru algjört helvíti. Allir á biðstofunni bíða eftir því að hún brotni niður fyrir framan báða opinberu starfsmennina og fyrir framan alla sem eiga leið framhjá glerveggnum.

Hún missir máttinn í löppunum og krýpur fyrir framan lækninn, með útstæðu eyrun, og konuna, með grímuna. Þau teygja sig til hennar og hjálpa henni á fætur. Þetta er eins og að horfa á konu sem misst hefur allt. Það er eins og verið sé að rífa sál hennar úr líkamanum. Með hendurnar fyrir andlitinu stendur hún upp, með hjálp læknanna beggja, og þau styðja hana í átt að hægindastól. Tárin virðast streyma á milli puttanna og niður handabökin og það sést best þegar hún snýr sér í gagnstæða átt og að labbar áttina að stólnum.

„Æj andskotinn,“ heyrist í prjónakonunni.
„Ég bjóst ekki við þessu strax,“ svaraði hin, með bókina saman lokaða á milli læranna og horfir niður í kjöltuna.
„Hún vildi ná að halda þetta út fram yfir þriðja afmælisdaginn hans. Hefði verið til of mikils ætlast að fá einn mánuð í viðbót með honum?“ Prjónakonan horfir upp í loftið eins og hún sé að tala við ósýnilega veru en lítur strax aftur niður og þerrar augun með pappír sem hún geymir í hægri buxnavasa.
Hin konan grípur um andlitið og heldur höfðinu uppi með því að nota báða olnbogana til að styðja ofan á lærin.
„Komum fram,“ segir prjónakonan, með kökk í hálsinum, eftir smá umhugsun og stendur rólega upp eftir að hafa sett prjónadótið í poka.
Rauðu augun baða sig í birtunni þegar bókakonan tekur hendurnar frá andlitinu og jánkar, í þann mund sem hún stendur upp og fylgir prjónakonunni út úr biðstofunni.
Frammi á gangi faðmast þær allar þrjár í dágóðan tíma rétt áður en þær fara út augnsýn.

Ég sit hér í mínum eigin heimi og stari á auðan stólinn. Þarna sat konan í bláu flíspeysunni, einu þriggja ára barni ríkari en hún er í dag. Allar mínar órökfærðu skoðanir fuku út um gluggann um leið og konan greip fyrir andlitið fyrr í kvöld og ég áttaði mig á því hvað væri að gerast. Ég þekki hana ekki neitt, en mér líður samt illa. Bara það að ég hafi hitt hana í lyftunni, sveitta og móða eftir harðahlaup, og að hún hafi setið fyrir framan mig og farið í taugarnar á mér á meðan ég kvartaði yfir því að þurfa á bíða í nokkra klukkutíma í þessum hita, fær mig til að fá samviskubit.

Ég er pínulítið utan við mig og hugsi eftir það sem gerðist en nægilega eftirtektarsöm til að sjá lækninn minn, þennan sköllótta, þegar hann birtist hinumegin við glerveginn og horfir á mig. Ég fæ örlítinn sting í magann eftir að hafa orðið vitni af atvikinu fyrir þrjátíu mínútum síðan, þegar konan var rænd barninu sínu… úff, ég get ekki hugsað þetta meir. Ég labba að hurðinni sem leiðir mig fram á ganginn. Er ég að fá sömu fréttir og konan? En þetta er bara eyrnabólga. Hvernig getur það verið? Eyrnabólga getur alveg leitt til dauða. Ég er farin að hugsa það versta. Ég má ekki við svona fréttum. Allt það traust, öll sú ást og allur sá tími sem er að baki með Jónasi… og allt sem er eftir… þessu getur ekki verið lokið. Það má ekki gerast.

Ég stend fyrir framan lækninn. Ég veit ekkert hvað ég á að segja. Ég bíð eftir að hann opni munninn og færi mér fréttirnar.
„Drengurinn getur farið héðan eftir um það bil klukkutíma.“
Ég brosi út að eyrum og læknirinn virðist frekar hissa miðað við svipinn sem blasir við mér. Ég á ekki orð handa honum í augnablikinu. Saumaklúbbur og ræktin, hvað kom fyrir mig?