Kaffi fálmarar.
10. janúar er runninn upp, það er kyrrlátur sunnudagsmorgun á Ísafirði og íbúar reyna ýmist að sofna, sofa eða vakna eftir því hvernig nóttin fór fram. Skýjaslæðan hengur letilega á milli fjallanna og vindurinn gnauðar mjúkt á mill húsana eins og andadráttur sofandi ungabarns. Sjálfur er ég staðsettur á kaffihúsi sem er mannlaust fyrir utan mig og gengilbeinuna. Eða hugsanlega bara fyrir utan mig, þar sem þessi “kona” sem afgreiddi mig um kaffisopann minn er svo vel smurð af allskyns kremum sem ég kann ekki nöfnin á að það þetta gæti allt eins verið geimvera. Og ekki bætir úr skák að röddin er svo vel marineruð í sígarettum og óhóflegri áfengis drykkju að Tom Waits hljómar eins og Mariah Carey í samanburði. Þessi uppgötvun slær síður en svo á grunsemdir mínar.
Það er ekki hægt að segja að ég sé fastagestur á þessum stað þó ég hafi dottið þarna inn nokkrum sinnum, en þó aldrei svona snemma að morgni. Helst kem ég um helgarkvöld en þá er þetta jafn mikið kaffihús og Big Ben er keilusalur og drykkjarvalið eftir því. Á þeim tíma tel ég mig vera óhultan enda menn í svörtum jakkafötum á hverju strái og hafa líklegast góða ástæðu til.
Kaffið er beiskt að vanda, mýkt með örlitlum mjólkur dreitli og með fylgir Nóa síríus súkkulaði sem er kyrfilega vafið í álpappír. Ég velti því lauslega fyrir mér hvaða tilgangi það þjónar að taka fyrrnefnda súkkulaðimola upp með plasttöng til að leggja þá á undirskálina þegar vel væri hægt að brúka hendurnar, og ef eitthver ætlar að bera fyrir snyrtimennsku þá get ég sannfært sá hinn sama um að þessi staður er ekki beint þekktur fyrir snyrtimennsku, eða rétt svo nóg til að heilbrigðiseftirlitið loki ekki á þau.
Það vekur hjá mér undrun hversu hratt kaffið virðist hverfa úr bollanum og ég bið um að fá vinsamlegast ábót, og hvort ég gæti fengið annan súkkulaðimola með. Kaffið fæ ég og molan sömuleiðist og enn sprangar hún um með tangirnar. Ekki ætlar þessi bolli að endast neitt lengur og fara þá að renna á mig tvær grímur. Þessi vera hefur verið ansi dugleg við að fitla eitthvað þarna á bakvið afgreiðsluborðið síðan ég fékk kaffið. Eitthver geimveruvísindi kannski? Hvað sem það nú er, er ég staðráðinn í að veita þeim ekki tækifæri til þess að grugga í heilann minn þó ég æsi mig ekki yfir kaffistuldinum, ég hef hvorteðer ekki gott af því og ábótin er frí. Vel minnugur hræðslu verunar við að snerta súkkulaðiumbúðirnar undirbý ég varúðaráðstafanir gegn frekari árásum, og þegar hún snýr sér næst í burtu frá mér kem ég álpappírnum utan af súkkulaðinu fyrir sitthvoru megin við gagnaugun undir hattabarðinu, og til þess að líta ekki grunsamlega út þykjist ég vera að laga hattinn á meðann ég hagræði frumstæða heilabylgjuvarnarbúnaði mínum.
Og seinna hefði það í raun ekki mátt vera, ég er ekki fyrr búin að koma hjálminum snyrtilega fyrir enn að inn gengur maður, grannur, hávaxinn og húðin 2 númerum of lítil, hann býður góðan dag þegar labbar framhjá mér rétt eins og til að láta vita að hann sé mikilvægur innan veggja þessara kaffihúss. Hann fellur samstundis undir grun. Engin sómasamleg mannvera myndi láta sjá sig í þessum ljósgulu flauels jakkafötum og það í þessu sniði.
Óttinn fer að læðast að mér, nú eru þau tvö á móti mér einum, og eina reynslan mín af átökum er fengin úr Tekken tölvuleikjunum á æskuárunum. Ég fer að efast um skynsemi þeirra ákvörðunar að koma hér inn, sérstaklega þar sem það var sómasamlegt kaffihús rétt handan við næsta götuhorn, þessi kaupstaður var kannski í minni kantinum en ef hann væri í Lukku Láka sögu héti hann án efa Kaffibær.
“Maðurinn” sem lítur út eins og húðin hans hafi hlaupið í þvotti, sem í hans tilfelli hefur líklegast gert, stendur nú útí horni og skrafar í lágum hljóðum við gengilbeinuna. Með fylgja augnaráð við hæfi svo ekki liggi á milli hluta hvað hann meini. Stressið er farið að ná til líkamsvöðvana og ég er hræddur um að ég sé farinn að sýna sjáanleg merki um líðan mína. En ég get ekki staðið upp og farið, að rjúfa svo viðkvæmt augnablik milli svona vera gæti kostað mig lífið svo ég læt mig hafa það, þó það sé mér þvert um geð.
“Maðurinn” ræskir sig lágt og þau lauma sér inn um dyr við enda afgreiðsluborðsins sem leiðir þau án efa inná skrifstofu yfirmannsins. Á hurðinni er mattur gluggi eins og sést í öllum eðlilegum spæjaramyndum. Og þvert gegn á minn vilja teiknar ímyndunaraflið skuggamynd af þessum fyrirbærum þar sem þau klæða hvort annað úr þröngum og ómeðfærilegum mannskinnum sínum og þreifa lostafull á hreistri hvors annars með slímugum fálmurunum, svo viðurstyggilega sýn myndi ég ekki leggja á minn versta óvin, hvað þá hljóðin. Sem betur fer heyri ég þau ekki þar sem þau senda út sitt venjulegu samskipti á annari tíðni en ég veit að þau eru þarna. Þau titra í hverju einasta hári á líkama mínum.
Fálmararnir ljúka sér af, slím leggur niður veggi skrifstofunar og bitur vessalyktin svífur í loftinu. Sem betur fer finn ég hana ekki, enda hafa áralöng misnoktun á tóbaki löngu rænt mig þefskyninu en hún er þarna, og hún klórar í nefbroddinn. Ég skil að þetta er tíminn til þess að komast út, nú eða aldrei, ég slengi klinki á borðið, rýk út um hurðina og bið til æðri máttarvalda að ég þurfi ekki að endurtaka þessa reynslu aftur.