Gat lífið gerst eitthvað betra en þetta, glampandi sólskin og heiðskírt í allar áttir og við hérna félagarnir staddir uppá miðjum Vatnajökli í gönguskíðaferð þvert yfir hann. Þetta var fjórði dagurinn okkar uppá jöklinum og veðrið var búið að vera uppá sitt besta, jafnvel of gott. Ég stoppaði og sé félaga minn í svona 100 metra fjarlægð frá mér arkandi áfram með púlkuna í eftirdragi. „Ég held bara að ég hafi ekki upplifað svona gott veður á æfi minni“ segir hann brosandi þegar hann kemur að mér. „Það gerist nú ekki mikið betra. Við skulum tjalda hér í nótt.“ Ég losa af mér púlkuna og gönguskíðin og byrja að tjalda. Við tjöldum og svo fer hann að bræða vatn meðan ég fer og bý til vegg í kringum tjaldið, þar sem það var spáð kviðum í nótt.

Eftir klukkutíma er þessi myndarlegi veggur kominn í kringum tjaldið og ég er búinn að staga allt niður með öllu sem ég get notað, skíði, stafi og snjóhæla. Ég skríð inn í tjald og sé að hann er búinn að bræða nóg vatn sem dugar okkur fram á morgun. „Mér sýnist vera pasta í matinn eins og undanfarna daga“ segi ég glottandi þegar ég kem inn. „Ertu búinn að hringja heim?“. Við höfðum það skipulag að hringja heim á hverju kvöldi og láta vita af okkur, ég hringdi í gær svo það komið af honum. „Nei, ég geri það snöggvast, taktu við eldarmenskunni“. Meðan hann talaði við pabba sinn var mér hugsað heim, um konuna sem þar beið og 2 ára dóttur mína, sem var ljósið í lífi mínu þessa stundina. Ég hef aldrei saknað manneskju fyrr en ég eignaðist hana. Eftir matinn spjölluðum við smá og skriðum svo í pokana, við tókum daginn alltaf snemma svo ekki veittir af svefninum. Ég heyrði að það tók að bæta í vindinn áður en ég sofnaði.

Ég vakna og er alveg í spreng, en ligg aðeins í pokanum því mig langar engan veginn að fara uppúr heitum pokanum og út í kuldann úti. En þegar ég loks sest upp og kveiki á höfuðljósinu þá líst mér ekkert á blikuna. Veggurinn virðist hafa hrunið yfir tjaldið. Ég blóta með sjálfum mér og fer að klæða mig og geri mig kláran fyrir að fara út og kíkja á þetta. Þegar ég opna út í ytra tjaldið þá blasir það við mér, okkur hefur snjóað í kaf. Ég vek snarlega félaga minn og segi honum stöðuna. Ég hendi öllu dótinu mínu frá og klæði mig í skónna. Sem betur fer geymum við alltaf eina skóflu inní tjaldinu til vonar og varar og hún kemur sér vel núna. Ég loka innra tjaldinu opna út. Sé að við erum ekki alveg komnir í kaf, en það er ekki langt frá því. Og það er alveg snarbrjálað veður úti, rok, sjókoma og skafrenningur. Ég moka mér leið út og sé að það eru ekki nema svona 30 cm af tjaldinu sem standa uppúr snjónum og veggurinn alveg horfinn. Ég byrja að moka frá tjaldinu, og ég moka og moka. Félagi minn kom út stuttu seinna og ég sé það á honum að honum líst ekki alveg á blikuna.

Ég byrja að grafa þar sem ég hélt að hin skóflan væri. Að lokum finn ég hana og við reynum að grafa frá tjaldinu, en það þýðir voða lítið því það fyllist upp jafn óðum. Við gröfum og gröfum og loks þá tekst að grafa svona mest frá því. Við skríðum upp í tjald og erum sammála um að við förum ekki neitt í þessu veðri. Skóflum í okkur einhverju að borða og förum aftur út að grafa. Veðrið er ekkert að lægja og við höldum áfram að halda snjónum frá tjaldinu. Tökum vaktir klukkutíma úti í senn. Sem betur fer var ég með bók og við lesum í henni inná milli. Svona gengur allur dagurinn og þegar það fer að kvölda þá er kominn þreyta í okkur. En veðrið er ekkert að skána svo það þýðir lítið að hætta. Við skjótum upp einu af 2 neyðarblysunum sem við áttum til, ef einhver skildi vera í grenndinni. Svona heldur þetta áfram alla nóttina og undir morgun þá erum við báðir örmagna. Við náum engu sambandi við einn né neinn. Við förum út núna bara út á 2 tíma fresti, höfum ekki orku í meira. Við tölumst lítið saman, heldur lesum í sittkvoru lagi, fyrst ég úr bókinni og svo ríf ég blaðsíðuna úr og rétti honum.

Svona leið allur næsti dagur líka, bókin kláraðist, báðir alveg örmagna eftir mikinn mokstur og lítinn svefn. Og ekki er mikil von á að hjálp berist strax. Þegar það tekur að kvölda þá segi ég honum að fara og sofa, ég ætli út. Ég fer út og held áfram að moka frá, veðrið bara búið að versna ef eitthvað er. Ég hugsa um dóttir mína sem er heima, kannski muni ég aldrei sjá hana aftur. Ég nýti síðustu kraftana til að grafa og skófla snjónum frá en það þýðir ekki neitt, snjórinn er jafn óðum kominn aftur. Ég skríð aftur inní tjald og leggst uppí poka.

Vakna upp með andköfum, það er komið niðamyrkur. Það er orðið frekar loftlaust hérna inni, svo ég staulast uppúr pokanum og ætla að vekja félaga minn. Það gengur ekki og mig grunar að hann sé meðvitundarlaus. Með naumindum kem ég mér í skó og opna út. Þar blasir við mér bara snjór. Skelfdur byrja ég að reyna að grafa mig upp úr snjónum. Að lokum finn ég skófluna fara í gegn og loft streymir inn til mín. Brýt mér leið út og stend upp. Dett svo aftur niður. Skríð aftur niður í tjaldið sem er á nokkrum sekúndum orðið fullt af snjó. Ég held áfram að reyna að vekja hinn en það gengur ekkert. Einkennileg róg færist yfir mig og ég hugsa heim.

En þá heyri ég vélarhljóð, fyrst held ég að ég sé að ímynda mér þetta, en nú er ég orðinn nokkuð viss um að um vélsleða sé að ræða. Ég næ í hitt neyðarblysið og opna út. Þá erum við aftur kominn í kaf. Ég blóta og nota allan líkamann til að brjóta mér leið í gegn. Skýt upp neyðarblysinu og ligg svo flatur hálfur uppúr snjónum. Loftleysið inní tjaldinu hefur dregið allan kraft frá mér og ég hef varla mátt til að koma mér aftur inní tjaldið. Ég finn að ég er að logna útaf þegar það er gripið í mig og ég heyri kallað í talstöð, „þeir eru fundnir“. Ég brosi áður en ég missi meðvitund.
^^