Hér kemur smásaga eftir mig, ég vonast eftir uppbyggilegri gagnrýni, öll komment vel þegin :)

Það var alltaf hamrað á því við mig í æsku að pör ættu að elska galla hvors annars….Afhverju elskaði Hann aldrei minn? Var af því að ég var alltaf minnt á gallann, með lyfjunum? Var Hann of blindur til að sjá?Yfirgaf mig þegar ég mest þurfti á einhverjum að halda…Haddý systir hafði rétt fyrir sér, eins og alltaf. Hún og Karvel höfðu alltaf staðið við bakið á mér, allt frá því læknarnir byrjuðu að klípa, toga, sprauta, pikka og pota í mig. Mamma líka.
Mér fannst alltaf svo mellódramatískt eitthvað að liggja á sjúkahúsi. Ég hafði komið þangað áður, ég fótbrotnaði í klifurgrindinni þegar ég var 5 ára. Áður en ég hitti Hann.
Pabbi. Honum fannst þetta lítið mál, kallaði mig alltaf demantinn sinn þegar ég var yngri, eða augastein. Meðan ég lá á sjúkrahúsinu kom Hann sjaldan til mín. Það voru vandræði í sambandinu, brestir, löngu áður en allir læknarnir fóru að skipta sér af. Hann fékk bara alveg nóg. Fór.

Fyrstu dagarnir voru svo erfiðir. Ég beið alltaf eftir því að hann kæmi aftur, til að halda hárinu á mér. Faðma mig. Það gerðist aldrei. Ég kenndi sjálfri mér um. Ógleðin ætlaði mig lifandi að drepa. Þegar verkirnir urðu svo miklir að ég gat nánast ekki gert neitt, þá kom Haddý. Hún og Karvel fóru með mig á spítalann. Hann kom ekki. Þurfti að vinna frameftir. Það var svo sem ekkert tiltökumál, hann var alltaf að vinna frameftir síðasta mánuðinn. Fyrst hélt ég að hann væri að svíkja mig. Halda framhjá mér með ritaranum sínum. Ég lét athuga það. Hann var ekki að ljúga að mér. En samt, eitthvað var að gerast. Ég fann það á mér. Haddý systir var mikið hjá mér. Mér fannst það gott. Hún kom alltaf með Vikuna með sér. Hún var áskrifandi. Karvel reyndi á klaufalegan hátt að vera til staðar. Hann sagði lélega brandara. En hann mátti eiga það, hann var duglegur að tæma fötuna fyrir mig.

Á degi þrjú, þá fór hann. Sagðist ekki höndla svona mikil uppköst, sagði að þetta væri ekki hans deild. Alfarinn. Ég hafði ekki orku í að gráta. Hjartað í mér grét í staðinn. Hann hafði hringt áður en hann fór. Haddý. Hún skildi Karvel eftir heima yfir fótboltanum. Hún færði mér Séð og Heyrt.
Fyrst hélt ég að þetta væri bara flensa. Venjulegt. Hitinn. Ekki svo venjulegur.

Tveimur dögum síðar kom verkurinn. Hann vildi ekki fara. Ég þrjóskaðist enn við að fara á sjúkrahúsið. En svo kom að því, ég þurfti að fara. Stefán læknir byrjaði á því að pota og klípa í mig með tilheyrandi æjum og ó-um. Það var mjög sárt. Hann ákvað að gefa mér sýklalyf. Heilt tonn. Úrskurðurinn kom nokkrum dögum seinna.

Niðurstaðan var borðleggjandi: Massív skurðaðgerð. Sýklalyf. Góður kokteill. Innbyrgðist strax. Ekki seinna. Haddý kom til mín með nýjasta tölublað Vikunnar. Ég var óvenjulega háð Kitchfríði og Manóló. Karvel, með sinn lélega smekk fyrir bröndurum. Mamma. Hún var áhyggjufull. Pabbi. Lét tísta eitthvað í sér. Sagði að demantar væru harðasta efnið. Ég brosti. Andardrátturinn grunnur. Haddý blótaði Honum sandi og ösku. Haddý Harða. Það var hún kölluð af krökkunum í hverfinu. Mér fannst það klisja. En Haddý hafði alltaf verið mér til hjálpar. Við kölluðum okkur alltaf Batman og Robin hverfisins. Ég brosti dauft við minningum úr æskunni. Löngu áður en Hann kom og fokkaði öllu.

Stefán læknir kom. Með kvensnift meðferðis. Hún kynnti sig. Daníela. Hvurslags nafn er það nú eiginlega, það hefði amma sjálfsagt sagt. Hún hafði heitið Hrafnhildur alveg eins og Haddý. Haddý var skírð eftir henni. Daníela. Hún var svæfingarlæknirinn. Útskýrði allt sem myndi gerast. Skera þarna. Potað þar. Krukkað í mig. Sofandi. Afskaplega geðug ung kona. Fannst mömmu. Mér fannst hún varla eldri en þriggja ára. Gerði óspart grín að því með Karvel. Hann kunni algjörlega að meta svona grín. Ekki mamma. Pabba fannst Daníela sérstaklega löguleg. Hann orðaði það samt ekkert við mömmu. Eins gott. Ég vildi helst enga dramatíska senu úr Glæstum Vonum hérna á sjúkrahúsinu. Nóg var nú samt.

Ég fékk að fara heim. Í viku, fram að aðgerðinni. Sýklalyfin byrjuðu nánast strax að kikka inn. Mér fannst það æðislegt. Hefði alveg verið til í að kyssa Alexander Flemming. Ef ég hefði verið uppi á hans tíma. Haddý hélt áfram að koma. Ekki Hann. Ekki orð frá Honum. Mér var alveg sama. Ég var viss um að hann væri búinn að finna sér yngri. Sem var ekki með hita og uppköst. Einhverja sem væri miklu betri en ég. Gall-lausa.


Eftir viku af fljótandi sýklalyfjagleði kom ég aftur. Spítalinn. Verkirnir undir rifjunum voru ekki eins slæmir. En vondir samt. Daníela birtist með grímuna. Eins og stökkbreytt útgáfa af grímunni hans Hannibal Lecter. Ég flissaði. Mamma, Pabbi, Haddý og Karvel komu öll. Hughreystu mig. Fannst sumt af því sagt til hálfs. Fann að þau voru hálf hrædd. Stefán læknir róaði þau niður. Daníela skellti Hannibal grímunni á mig. Myrkur.

Það síðasta sem ég náði að hugsa í hringiðunni áður en ég datt út. Sofandi. - Hvers vegna hafði fjölskyldan mín allar þessar áhyggjur? Ég meina………..þetta var bara gallblöðrubólga….
“Life's like a dick, it gets hard for no reason”