Afbökun.
Það er ekkert gaman að fá vita af því að stundum er eitthvað að. Stundum er manni sagt eitthvað svo mikilvægt, svo bitastætt að heimurinn snýst við. Að sjálfsögðu gerir hann það við sem flest tækifæri. Það geta fáir sagt að þeir hafi átt atburðarlausa ævi. Margt fer úrskeiðis, margt er ábótavant en sem betur fer þá er margt gott.
-Melkólfur Steingrímsson(f:1983, áætlað er að hanni hafi dáið 2003-2004 þar sem ekkert spurðist til hans í mannabyggðum)
Það síðasta sem hann skrifaði áður en hann hvarf.

„Hér er það,“ sagði maður klæddur gráum fötum með einslita blágræna derhúfu: „Gerðu það sem þú vilt með þetta svo lengi sem þú borgar fyrir sendingarkostnaðinn,“. Í hinum enda herbergisins við rautt mahóniborð með slitna lakkhúðun situr maður íklæddur vínrauðri rúllukragapeysu.
-„Ahh… Einar fram í móttökunni átti að taka við reikningnum. Var hann ekki niðri?“
-„Jú, ef það var þessi gaur sem var að bora í nefið og allt það.“
-„Stemmir. Hann hefur ekki verið að fylgjast með. Ég bað hann um að hóa í þig. Talaðu við hann því að hann mun sjá um reikninginn.“
-„Aight,“ svaraði maðurinn dauflega og gekk út.
Maðurinn við borðið strauk sér um hökuna þar sem nýsprottnir broddarnir stungust í fingurgómana. Honum fannst það þægileg tilfinning. Hann tók að lokum upp pakkann og vó hann í hendi sér. Hann furðaði sig á hve þungur pakkinn var. Þetta átti jú bara að vera ein þunn dagbókarhræða!

Maðurinn hafði fengið lýsingu frá Ævari kollega sínum. Ævar hafði sagt að Melkólfur hafi náð að sleppa á einhvern undraverðan hátt.
***

Fyrsti dagurinn (þegar Tyrfingur flúði)

Ég er kannski ekki í svo góðum málum núna. Hinsvegar, þar sem að ég veit af því, þá get ég einungis dregið þá ályktun um að einhvern tímann hafi ég staðið í betri málum. Það er gott að hafa framúrskarandi minni.

Þetta hér er fyrsti dagurinn minn í Hrútafjarðarhælinu . Gissur ráðlagði mér að halda þessa dagbók hérna þar sem að það gæti hjálpað mér í gegnum hlutina. Ég gruna að Gissur ætli mér eitthvað illt. Mér er jú ekki leyft að fara. Ég er fullkomlega eðlilegur þrátt fyrir hve afstætt hugtakið er. Segjum bara að ég sé nægilega eðlilegur til þess að vita hvar ég er, hvað ég er og hvað ég er að gera. Tvítugir hafa langflest tamið.

Hrútafjarðarhælið er einhversstaðar á Vesturlandi. Mig minnir að rútustjórinn sagði að þetta væri fjórða skiptið sem hann væri að flytja hluta af hópnum upp nýmalbikaða veginn sem liggur að sandsorfnu hlíðunum suðvestan af einhverjum tanga þarna. Ég hata þennan stað. Þeir voru vissir um að okkur myndi líka þessi aðstaða; útsýni, friður og einangrun. Hver ætlar að koma og heimsækja mig? Ég þekki engan á Vesturlandi. Fangarnir eru svo skrítnir líka!

Með mér í dag var hann Tyrfingur. Hann eldist hægt þrátt fyrir að vera orðinn svolítið gamall. Ég fékk hann að gjöf frá nágrannakonunni sem heimsótti alltaf pabba þegar Tyrfingur var hvolpur. Rútubílstjórinn brosti og sagði að það væri allt í lagi að ég væri með hundinn minn þar sem að það heyrðist ekki múkk í honum. Tyrfingur er mjög hljóðlátur og gæfur svartur rottweiler þegar hann er í góðu skapi. Hann er hreinræktaður og ég er mjög stoltur af honum. Þó hefur komið fyrir að hann bíti fólk eða glefsi í það ef honum mislíkar það. Þá blístra ég á hann og hann hættir þá yfirleitt. Einnig strauk hann alloft og kom ekki til baka heim fyrr en eftir þrjá til fjóra daga. Ég fann hann oft einhversstaðar úti og fór þá með hann heim. Ég hef aldrei þurft að neyða hann neitt með mér.
Þegar verið var að flokka okkur inn á herbergi þá flúði Tyrfingur. Hann byrjaði að ýlfra og tók á rás eins og fjórir fætur toguðu. Hann átti víst að vera inni með mér og það tók verðina sem þarna voru staddir ekki langan tíma að fanga hann. Ég fann til með Tyrfingi og ég blístraði ekki til hans heldur leyfði ég honum að hafa sinn hamagang. Hann er núna hérna inn á herbergi með mér, ég held að hann sé með heimþrá. Hann fær ekki hundamat hérna, þar sem að ég er sá eini hérna með hund, heldur þarf ég að deila með honum matnum mínum. Þeir sögðust samt ætla að hugsa vel um hann þegar ég spurði þá og þeir hafa engu logið með það.

23.janúar.
(Gissur)
Gissur, sonur Magnúsar á Blekvangi, er að reyna að vingast við mig. Hann er almennilegur karl en eins og gamlir karlar þá talar hann alveg óþyrmilega mikið um einhverja hluti sem gerðust fyrir langalöngu og eitthvað sem ég skil ekki. Hann á það til að taka furðulegar dæmisögur. Hann sagði mér sögu frá dreng, Ásaþór að nafni, sem braust inn til nágranna sinna og stal mat. Ég held að hann sé búinn að hanga með biluðu fólki í of langan tíma. Hann er alltaf síspyrjandi mig út í hluti líka. Hann hefur mikinn áhuga á Tyrfingi. Ég held að hann eigi hund líka. Hann lyktar af Old Spice . Hann segist eiga konu og tvö börn. Hans elsti sonur er víst á svipuðum aldri og ég.

Í dag var þó annar tónn í honum Gissuri. Ég hef alltaf fengið að taka Tyrfing með þegar hann biður mig um að heimsækja sig. Hann er víst sálfræðingurinn hérna. Ég veit ekki nákvæmlega hvers til er ætlast með því að hafa mig á geðveikrahæli. Ég hef engan drepið og ég hef ekkert gert. Ég veit ekki til þess að það sé nokkuð að. Hins vegar get ég haldið áfram að læra efnafræðina í fjarnámi hérna ásamt því að ég fæ margar bækur um efnið. Á daginn er mér frjálst að ganga um svæðið. Ég held mig mest utandyra. Það eru bíósalur og pool borð inni einhversstaðar en ég er ekkert mikið fyrir það gefinn. Ég sver það einnig að ég er búinn að lesa hverja einustu bók sem þetta pínulitla bókasafn Hrútafjarðarhælis býður upp á. Ég tala lítið við hina geðsjúklingana þar sem flestir eru fælnir, ofbeldisfullir og oft á tíðum óttaslegnar taugahrúgur. Kannski eru sumir hræddir vegna þess að Tyrfingur fylgir mér hvert sem ég fer og hann er ekkert árennilegur. Honum er jafn illa við þá og mér. Hann urrar á þá. Mér fannst það allt í lagi. Ég fór með Tyrfing út í snjóinn og lét hann elta snjóbolta sem ég hnoðaði. Hann kom eitt skiptið til baka með grýlukerti en ég bannaði honum að hafa það. Munnvikin á honum gætu frosið!

En eins og ég sagði þá var Gissur eitthvað súr við mig. En hann hefur eflaust verið súr út í alla í dag. Mér skilst að hann hafi tábrotið sig fyrr í vikunni þegar hann fór ógætilega. Ég heyrði ræstingarkonuna tala um það við deildarstjórann. Þegar hann talaði við mig í dag var hann virkilega bitur. Jafnvel Tyrfingi stóð ekki á sama hve fúl mannfýlan var.

29.janúar
(Gunnar)

Hingað til hef ég bara kynnst einum náunga sem ég líka við. Hann heitir Gunnar og vill láta kalla sig „Gunna Gé“. Hann er svipaður og ég varðandi tæknihatur fyrir utan eitt; hann er greinilega svolítið klikkaður í hausnum. Hann fer aldrei inn í sjónvarpssalinn. Hann telur að allir fjölmiðlar og kvikmyndir séu stórt samsæri gegn honum þar sem að hann er af fjölþjóðlegum uppruna. Fyrir utan þennan smágalla er hann fullkomnlega eðlilegur finnst mér. Tyrfingur treystir honum greinilega þannig að ég kýs að gera það líka. Gunnar hunsar þó Tyrfing yfirleitt en ég held að hann sé bara að reyna að sýna hundinum hver er æðri. Þannig hafa menn komið hópdýrum upp á sig. Kerfið virkar greinilega á milli dýrategunda.

4. feb.
Ég hef ekkert verið að standa í skrifum í þessari blessuðu bók þar sem að ég hef haft öðrum hnöppum að hneppa. Ég hef verið upptekinn við það að útskýra fyrir fólkinu hér hvernig Hildigunnur, litla feita konan sem safnaði ónýtum símum og rifnum koddum, lést. Skarphéðinn sem er herbergisfélagi hennar heldur því statt og stöðugt fram að ég hafi drepið hana. Ég skil ekki hvernig fólk getur hlustað á hann þegar hann talar eins og fjögurra ára smábarn. Ég hata hann. Gissur sagði að það ætti ekki að taka mark á Skarphéðni. Hann er haldinn siðblindu og einstakri áráttuhegðun til þess að herma eftir fólki sem gengur upp í það að hann telur sig oft á tíðum vera sú persóna sem hann hermir eftir. Skarphéðni tókst meðal annars svo vel að herma eftir manneskjum að hann náði í heimsókn sinni til Danmerkur að þykjast vera Kim Larsen, sem er einhver leikari eða söngvari skilst mér, og fá þannig fría gistingu á hóteli gegn eiginhandaráritun. Gissur segir því að öllum líkindum sé Skarphéðinn að ljúga. Ég veit á hinn bóginn að maðurinn lýgur. Þann dag er Hildigunnur lést þá var ég á röltinu með Gunna gé og getur hann vitnað um staðsetningu mína þegar atburðurinn átti sér stað. Ég hef ekki ennþá sagt Gissuri það.

Ég man það vel að í gær þá kom Þórhallur , kallaður Lukku-Láki þrátt fyrir að vera ekki neitt ofboðslega heppinn, og sagði mér að nú þyrfti ég að koma á skrifstofuna til Gissurar. Þar settist ég á móti honum og sagði að ég væri hræðilega svangur. Hann ansaði því engu og andvarpaði bara á meðan hann fór í gegnum bunka af blöðum sem voru á skrifborðinu hans. Hann hristi hausinn og gaf frá sér einkennilegt blásturshljóð og sagði mér að Hildigunnur hafi verið stungin.

***
Maðurinn við borðið teygði úr sér og hætti lestrinum í smástund. Hann skoðaði allt sem hafði verið í pakkanum. Auk þess að innihalda þunna skruddu með titilinn Afbökun geymdi þetta einnig lögregluskrár, einkennilega aflangan, sléttan, ávalan og pípulaga grjóthnullung og stóra hundaól. Inn í möppunni stíluð: „lögregluskrár“ var svo að finna persónulegt mat þarstadds geðlæknis og umsagnir nokkurra fræðimanna.

Ein greinin sagði meðal annars: „Melkólfur er greinilega haldinn margskonar geðkvillum sem lýsa sér m.a. í nafnaþráhyggju. Sálfræðingurinn á hælinu hét Ævar og fanginn sem Melkólfur kallar Skarphéðinn hét í rauninni Ómar. Sjúklingurinn er þrátt fyrir þetta fluggáfaður og ber alla muni til þess að…

Maðurinn hætti að lesa. Hann var ekki hrifinn af því að lesa mat eftir aðra sérfræðinga á sínu sviði en þá hegðun áleit hann bara vera part af því að vera sérfræðingur. Hann leit á geðsjúklinga sem flókið púsluspil. Það voru bútar sem þú þurftir að raða saman og það var mun skemmtilegra að gera það upp á eigin spýtur. Hann að vísu gluggaði í skýrslu sem sett hafði verið saman um lát Eyrúnar, sem Melkólfur vildi kalla Hildigunnu.

„Fórnarlamb fannst með stungusár sem var stórt og opið. Við höfum leitað að eggbeittu morðvopni eða einhversskonar apparati sem stinga má með. Óvenjulega mikið af vatni fannst í sári fórnarlambsins og hefur það mjög líklega orðið til þess að fela efnisleg ummerki vopnsins. Vopnið er líklega það eina sem komist hefur í snertingu við fórnarlambið þar sem að engin önnur ummerki finnast.“

***

7.febrúar

Allir hafa snúist á móti mér þökk sé óbilandi sannfæringarkrafti Skarphéðins. Gunnar er hættur að tala við mig og starfsfólkið lítur mig hornauga. Það er allt í góðu lagi. Ég hef ennþá Tyrfing. Hann er mér ávallt hliðhollur. Hann skilur ekki mannamál né áróður. Ef hann gerði það myndi hann samt neita að trúa þeim. Hann er góður hundur. Fólk hér inni er lágkúrulegt og hefur ekki samvisku á við hunda. Ég á samt núna við vandamál að stríða með hann Tyrfing greyið. Hann hefur tekið upp á því nýverið að stela hlutum allstaðar frá og fela í lakinu og skápnum mínum. Hann er jafnvel svo gáfaður að hann getur opnað skúffur og sett eitthvað í þær. Ég fann meira að segja lyfjabox sem hann hafði einhvern veginn áskotnast en það innihélt hóstasaft, rauðspritt, 94% etanól spírítus, sótthreinsilög og plástur. Ég ákvað að hirða þetta þar sem að ég hafði mjög líklega meiri not fyrir læknisfræðilega aðstoð heldur en allar þessar andskotans svikabyttur sem eru hér á stangli.

Gissur kallaði mig á fund í dag. Hann sagði að fyrir framúrskarandi hegðun gagnvart föngunum þrátt fyrir að þeir væru beinlínis að útskúfa mig væri til fyrirmyndar. Þess vegna ætlaði hann að leyfa mér að elda fyrir þá til þess að sýna þeim hve góð manneskja ég væri. Þannig ætti ég að vinna aftur traust þeirra.

***
Maðurinn brosti og hugsaði með sér hvernig Melkólfur hélt því stundum fram að allir væru fangar þarna. Hann reisti sig við og gekk í átt að Medólín-skápnum og tók þar út vindlakassa. Hann var viss um að eitthvað stemmdi ekki í þessari dagbókarfærslu.

***

9.febrúar.

Ég get hrósað happi. Guð er með mér í þessu. Skarphéðinn er orðinn blindur og eftir það hefur hann ekki sagt orð. Um það bil klukkan fimm í dag var hann fluttur í burtu sökum þess að hann fékk væga áfengiseitrun. Fólkið hér er nú að rannsaka hvaðan áfengið ku hafa komið. Áróðurinn sem hann setti því af stað hefur farið dvínandi og fólk leitar að einhverjum til þess að saka um áfengissmygl. Allir vita að ég hata Skarphéðinn þannig að þeim grunar mig ekki. Hví ætti ég að gefa honum gleðivökva eins og þau orðuðu það. Ég er að vísu fegin að ég gerði þetta ekki. Ég gæti ekki haft það á samviskunni jafn mikið og ég hata þennan mann.

Vaktaskipti starfsfólksins munu eiga sér stað eftir fjóra daga. Það þýðir að eftir fjóra daga mun ég hafa mikinn tíma út af fyrir mig þangað til um kvöldið þegar að nýtt fólk kemur. Gissur vill ekki að þetta fréttist út held ég en ég náði að heyra þetta þegar að ég njósnaði. Gunnar gé er ekki enn byrjaður að tala við mig. Ég held að hann hati mig ennþá. Ég hef ekki reynt að vingast við hann aftur og mér er bara alveg sama um hann.

11.febrúar

Ég fann fyrir jarðskjálfta í dag. Enginn annar virtist hafa áhuga á honum. Ekki einu sinni Tyrfingur. Nýr fangi var fluttur inn. Hann var virkilega mjór og tekinn í andliti. Mér skilst að hann neiti að borða og þurfi að gefa honum næringu í æð og deyfa á honum kjálkana þannig að hægt sé að gefa honum að borða. Ég held samt að Skammkell sé að ljúga. Hann á það til að ímynda sér hluti.

Ég fékk símtal í dag. Ég sagði hæ við hana Bergþóru, móður mína, og hún grét bara. Ég sagði henni hvernig Tyrfingur hafði látið upp á síðkastið og hún grét bara meira. Hún sagði mér að láta ekki djöflana vinna sálina. Hún hafði oft sagt þetta við mig. Ég held bara að hún sakni mín og Tyrfings.

Ég var að labba eftir ganginum í dag þegar að ég fann aflangann stein. Þetta var skraut í eigu fanga 8 (við kölluðum hann fanga 8 því að hann sagði aldrei til nafns) og ég ákvað að hirða það bara til öryggis. Ég myndi skila honum því ef hann færi að leita eftir því. Hinir fangarnir myndu bara reyna að stela því og berja hvorn annan til ólífis. Þetta virtist vera hættulegt vopn þar sem að ein hliðin á því var með hvassa odda með reglulegu millibili.

***

Þetta var síðasta dagbókarfærslan. Maðurinn vissi ekki hvað hann átti að gera. Þetta var of lítið til þess að vinna með. Hann gat samt ekki farið gegn sinni eigin samvisku þannig að hann fór í gegnum sérvaldar færslur eftir aðra sjúklinga sem Ævar hafði látið gera hið sama.

Friðbjörn:
31.janúar
Helvítið flaðraði aftur upp um mig í dag. MIG LANGAR AÐ DREPA HANN OG… [óskiljanlegt krot ásamt myndum af dauðu fólki].. ÞVÍ AÐ STUNDUM ERU TAKMÖRK!!! [hauskúpa]. Ég hef REYNT AÐ HUNSA HANN OG ÉG ER ORÐINN SVO REIÐUR. Það er alveg eins með HELVÍTIS FJÖLMIÐLANA, HELVÍTIN SEM HUNDELTA MIG ALLA LEIÐ FRÁ Sandakú [land sem Friðbjörn bjó til] OG ALLIR ANDSKOTANS FJÖLÞJÓÐANASISTARNIR MEGA ROTNA Í HELVÍTI. Ég er búinn. Melkólfur er dauður fyrir mér. Hann lætur ekki eins og MANNESKJA AFHVERJU?! Þetta hlýtur að vera tilraun sem verið er að FRAMKVÆMA Á MÉR.

Ómar:
2.Janúar.
Ég hef verið að filgjast með Friðbjörni og Melkólva þegar þeir eru saman. Melkólvur hoppandi einsog assni í kríngumm hann. Síðan verður Friðbjörn reiður og sláir hann. Melkólvur hefur hagað sér undarlega allann tíman síðan. Svo kom Eirún og segjaði mér að hún havi náð að gera Melkólv reiðan. Hann urrar á hana bara og hún var bara mjög hrædd. Ég ættlaði að klaga hann þegar að hann komdi inn með glerstaung eða eitthvað og stakk Eirúnu. Hann hlaupaði aftur út til Friðbjörn og ég hlaupaði til Ævars og segjaði honum þetta.

Maðurinn stökk ekki bros fyrr en hann var búinn að lesa þetta. Hann taldi sig hafa áttað sig á þessu.
Hann leit aftur yfir tölvupóstinn frá Ævari.
Tölvupósturinn var svohljóðandi:

„Enginn hjá okkur hefur enn náð að glöggva sig á þessu máli. Þar sem að þér tókst að ráða í afbrotaferil Ívars „Sleggjuþurs“ þá þótti okkur ráð að senda þér þessar upplýsingar. Þær munu hinsvegar berast þér í venjulegum pósti þar sem að netið er ekki endilega svo öruggt með leynilegar upplýsingar. Aftur á móti get ég sagt þér frá hvernig var umhorfs í klefanum eftir að hann slapp og ástæðuna sem ég tel vera fyrir því að hann skuli hafa flúið.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við erum með snjallan efnafræðing. Þar sem að við höfðum stálrimla umlukta plasti, til að koma í veg fyrir að sjúklingar meiði sig, í stað fyrir venjulega ryðfría stálrimla þá hefur honum tekist að eyðileggja plastið og látið stálið hvarfast og ryðga. Margskonar leysiefni, sýrur og ræstihlutir fundust í skúffunni hjá honum. Þetta hefði ekki gerst ef starfsmenn hefðu athugað á klefa hans en þeir sögðu langflestir að þeir voguðu sér ekki inn fyrir hans dyr þar sem að þeir áttu í stöðugri hættu að verða bitnir af honum.

Það sem er þó hvað undarlegast er að allt bendir til þess að hann hafi gert þetta á óskaplega stuttum tíma. Hann hefur mjög líklega flúið eftir að ég náði að benda honum á og endanlega sannfæra með rökum að Tyrfingur væri hans eigin hugarburður. Ég get dregið þetta álit af miðanum sem hann skildi eftir þar sem hann gaf hreinlega í skyn að hann hafi fattað hvað ég átti við, það síðasta sem hann skrifaði greyið.“






Maðurinn var nú vissari í sinni sök og hripaði niður:

Niðurstöður rannsóknar eftir Sigurð Tryggvason.
Ég hef fulla ástæðu til þess að gruna eftirfarandi;

1. Eyrún var myrt með grýlukerti. Melkólfur finnur grýlukerti þegar að hann er í gervi Tyrfings. Ómar minnist á ákveðna glerstöng í sinni færslu. Ég tel þessa glerstöng hafa verið grýlukerti sem hann hefur fengið sér og að sjálfsöðu er þá sárið fullt af vatni.
2. Ómar blindaðist eftir að Melkólfur setti 94% etanól tréspíritus í matinn hans. Aftur er þetta eitthvað sem Melkólfur fann í gervi Tyrfings (sjúkrakassan).
3. Þegar ég fékk pakkann með draslinu í innihélt hann meðal annars sléttan steinhnullung. Þegar að Melkólfur lýsir honum þá var hann með oddhvössum göddum niður eftir annarri hliðinni. Ég trúi því að hann hafi „sagað“ plastið af með þessum göddum og flýtt fyrir hvarfi stálsins með því að núa í sár rimlana með þessu. Það gæti skýrt afhverju ég fæ hnullungin sléttan og fíngerðan. Leysiefnin hafa séð til þess að ekkert af stálinu er að finna á hnullungnum.

Ég kemst því miður ekki til botns í meiru að svo stöddu. Kannski er hann ennþá á lífi. En eitt er víst að ykkur tókst að lækna hann. Hann skildi hundaólina eftir. Er hann þá ekki kominn út af hælinu í fullum rétti?

Kveðja, Sigurður Tryggvason – Sálfræðingur.