Bara smá saga svona, njótið vel


Hún stakk höfðinu útum bílgluggann og hló að bjargarleysinu í pabba sínum. Hann stóð bara þarna og glápti á sprungið dekkið, hann var aldrei þessi bílagaur og kunni ekki, honum til mikils ama, að skipta um dekk. Skellihlæjandi fór hún úr bílnum og skipti um dekk fyrir hann, hún bjóst hálfpartinn við að hann yrði sár því karlmennska hans var að veði en hann var hinn allra kátasti og hló bara með henni áður en alvarleikinn tók við og hann spurði hana í fyrsta sinn í nokkra mánuði hvort henni væri alvara með þessu öllu saman, hvort hún væri viss. Hún brosti og kinkaði kolli, það var öllum fyrir bestu.

Þvílík hamingja hafði sjaldan ríkt yfir heimilinu þeirra, þau voru á fullu að mála og gera barnaherbergið tilbúið. Þau voru búin að reyna lengi og loksins hafði allt gengið upp. Húsið þeirra yrði loksins heimili og það var einhvernvegin bjartara yfir öllu. Hún var hætt að vinna og hann búinn að minnka við sig en þau voru ennþá með meira en nóg af pening milli handanna. Þetta barn átti skilið að vera elskað meira en nokkuð annað barn.

Fyrra fósturlátið var mikið áfall fyrir þau bæði. Í mörg ár voru þau búin að reyna og svo allt í einu var barnið farið. Þau sökktu sér bæði í vinnu og það var ávallt stutt í tárin og rifrildin. Á barmi skilnaðar ákváðu þau að reyna enn einu sinni og viti menn, hún varð ólétt. Þau fóru sér þó engu óðslega og fylgdu lækninum í einu og öllu. Í þetta skiptið var fósturlátið það alvarlegt að hún varð ófær um að eignast börn. Í 2 ár lá allt niður á við. Hún drakk óhóflega og hann tók nokkur hliðarspor, sem henni var þó sama um. Henni var sama um allt.

Eftir skilnaðinn tók við tími sem þau nýttu bæði í að bæta sig og þegar þau hittust á ný brutust út kunnulegar tilfinningar og þau giftu sig aftur og fóru, eftir nokkurn tíma, að ræða ættleiðingar. Þau fengu hjálp við að koma sér í kerfið en síðan voru þau á eigin spýtum. Eftir aðeins 4 mánuði fengu þau símtal, 16 ára stelpukjáni varð ólétt eftir rangar ákvarðanir og hún valdi þau og nú voru þau stödd á hamingjuríkasta stað lífs síns.
———-
Aldrei hafði þeim liðið eins vel en verið eins taugaóstyrk á sama tíma þegar læknirinn benti þeim inn í stofuna til hennar. Þau höfðu samþykkt að leyfa stelpunni að sjá son sinn einu sinni áður en hann færi með þeim heim. Hún virtist ekki hafa neinar eftirsjár þótt henni vöknaði aðeins um augu þegar hún leit son sinn augum. Skömmu síðar leið hún útaf af syfju og orkuleysi og sæi þau aldrei aftur. En þau myndu aldrei gleyma henni, hún færði þeim bestu gjöf sem nokkur getur gefið, hún færði þeim líf.

Hún leit syfjuð og dösuð upp á ljómandi andlit þeirra og fylgdist með þeim hjala við barnið og rugga því varlega í fanginu til skiptis. Hún vissi að hún hafði valið rétt. Hún hafði vitað það frá því að pabbi hennar spurði hana þegar það sprakk hjá þeim fyrir 4 mánuðum síðan, það að hún gat viðurkennt það fyrir honum var viðurkenning fyrir alla. Síðan mamma hennar dó hafði hún ávallt sett aðra fyrst. Hún vildi aldrei þetta barn og vissi að faðirinn vildi það ekki heldur svo að hún valdi hjón sem vildu ekkert í heiminum annað en barn. Samt sem áður toguðust á söknuður í garð barnsins og hamingja í garð hjónanna. En það var enginn efi og engin eftirsjá. Hún brosti og hennar síðasta hugsun áður en svefninn yfirtók hana var að hún hafði gert tvær yndislegar manneskjur að hamingjusömustu manneskjum í heimi á þessu augnabliki.