*smásagnakeppni* Úlfur, úlfur. Hún andaði léttar þegar hún steig út úr bílnum sínum. Stirð og þreytt í öxlunum eftir langan vinnudag dró hún fram peysu úr bílnum og læsti honum svo. Þetta litla landsvæði, sem hafði eitt sitt verið stórt og villt, var nú skorið í gegn af gönguleiðum, þó skógurinn stæði nánast ósnertur til norðurs. Þrátt fyrir að borgin stæði þétt upp við skógarsvæðið fannst henni frískandi að koma hingað, anda aðeins að sér fersku lofti og ganga milli sígrænna trjánna.

Ef það var einhver annar á ferli þá varð hún ekki vör við þá í næturrökkrinu. Sólin var löngu sest en það voru einstaka ský ennþá rauð af geislum hennar en stjörnurnar og tunglið voru nánast búin að yfirtaka himingeiminn. Það var nokkuð kalt úti í nóttinni þannig að hún gróf upp vettlinga úr vasanum á sér og setti á fingurna og setti rauða húfu sem hún hafði geymt í bílnum yfir dökkt hárið. Hún gekk af stað inn þröngan göngustíg og það brakaði lítillega undan skónum hennar þar sem þeir stigu á frosinn jarðveginn.

Tunglsljósið féll milli nakta birkigreina og oddhvassra greinigreina. Kalt ljósið gaf göngustíginn bláan bjarma og hið frosna umhverfi lýstist upp og glitraði rétt eins og fjöldinn allur af demöntum. Bros féll yfir varir hennar, hvað var betra en að vera umkringdur náttúrunni? Hún leit upp og hló með sjálfri sér þar sem borgarljósin sáust ekki lengur og í staðin höfðu tekið við dansandi norðurljós sem stigu léttan vals með stjörnum himinsins.

Eftir ef til vill hálftíma göngu ákvað hún að fara að snúa við enda smá hrollur í henni, hún hefði sennilega átt að taka úlpu með sér. En þar sem hún byrjaði að þræða litla stíginn til baka stoppaði hún skyndilega og leit í kringum sig. Einhver óþægileg tilfinning greip um hana en hún sá ekkert sem gæti valdið því.

-Halló? sagði hún út í myrkrið þar sem þetta gæti alltaf verið önnur manneskja á ferð.

Ekkert heyrðist, þannig hún hristi þetta af sér og hélt áfram. Óþægilega tilfinningin fylgdi henni hinsvegar og varð aðeins verri því lengra sem hún gekk. Skyndilega heyrði hún eitthvað hljóð fyrir aftan sig, eitthvað eins og urr. Hún leit ekki einu sinni aftur fyrir sig heldur tók hún til fótanna og byrjaði að hlaupa eins hratt og hún gat í gegnum trén. Hræðsla greip um hana þegar hún heyrði létt fótatak fyrir aftan sig og skyndilegt gól. Hún andaði hraðar og hjartað ætlaði út úr brjóstkassanum á henni. Hvað var að elta hana?

Hún fann hvernig þessi snöggi sprettur var farinn að taka á hana, lungun á henni kvörtuðu og fæturnir voru orðnir aumir. Skyndilega hrasaði hún um trjárót en náði að snúa sér snögglega við. Í stað þess að stökkva á hana liggjandi á jörðunni gekk skepnan rólega að henni. Fyrir framan hana stóð úlfur, stærri en hún hafði nokkurn tíman séð, brúnleitur þó hún gæti ekki greint litaafbrigðið vel í myrkrinu, en gul augun stóðu sem sjálflýsandi út úr myrkrinu og horfðu á hana með athygli. Brún augu hennar gátu ekki annað en horft í þessi gulu augu. Úlfurinn krafsaði í jörðina og urraði á hana. Þetta var enginn tími til þess að dást af augum rándýrs. Klaufalega kom hún sér á lappir og úlfurinn gólaði á eftir henni. Hún var svo þreytt og adrenalínið var það eina sem hélt henni gangandi. En það dugði ekki til.

Dýrið tók stökk og hrinti henni í jörðina, klærnar klufu í bakið á henni og hún öskraði í undrun og sársauka. Hún losaði hann af sér með duglegu sparki og úlfurinn gaf ýlfur frá sér. Skjálfandi kom hún sér á lappir þótt sársaukinn væri stingandi og blóð læki niður bakið á henni. Hvert skref sendi bylgjur af sársauka í gegnum líkama hennar en hún hélt áfram. Hún sá úlfinn bregða fyrir milli trjánna hér og þar og þá gerði hún sér grein fyrir því að hann var að leika sér að henni.

Hjarta hennar fylltist vonar þegar hún sjá gerviljós ljósastauranna sem stóðu við bílastæðið, bílinn hennar var ekki langt undan, hún gæti komist í burtu. Hún andaði léttar og lét sig hafa það að hlaupa aðeins hraðar þó líkami hennar neitaði því staðfastlega. En úlfurinn stökk í veg fyrir hana um leið og trén voru farin að þynnast. Hann beraði tennurnar og augun voru full að blóðþorsta. Hún stoppaði og var við það að hlaupa inn í skóginn aftur þegar úlfurinn réðst að henni.

Áður en hún vissi af var hún aftur kominn á jörðina með skepnuna ofan á sér, hún sló út til þess að verja sig og sparkaði og reyndi að draga sig undan dýrinu. Líkami hennar hvarf ofan í sársauka sem kom úr öllum áttum, hún gerði sér ekki grein fyrir því hvað var að gerast, hendur hennar voru rauðar af blóði og feldur dýrsins einnig. Að lokum virtist dýrið missa áhugann, veiðin var búin, dýrið var fellt. Úlfurinn skokkaði inn í skógarþykknið.

Hún lá þarna ein eftir í rauðum polli sem virtist bara ætla að stækka. Hún gat ekki sest upp en í rauninni var hún fegin því þar sem hún vildi ekki sjá blóðugan og úttættan líkama sinn. Kuldi færðist yfir hana hægt og rólega og svefn sótti að henni. Eða ekki svefn, þótt hún vildi ekki hugsa út í það. Dauðinn stóð yfir henni. Hún leit upp til mánans í sínum síðustu andartökum. Ljós hans fyllti hana í hinsta sinn. Augun lokuðust.

Frostið læddist yfir fallinn líkamann sem lá tómur og einmanna undir skjóli trjánna. En skyndilega bærðust augun á ný og opnuðust, gul á lit.
kveðja Ameza