Djúpt. Ég er nokkuð viss um, eða væri það allavega ef ég teldi mig hafa getuna í það, að allt sem ég er, hef verið og mun vera er einhverskonar djúp heimspekileg tilraun af hálfu yfirvalda, lögreglu, eða einfaldlega minnar undursnjöllu en hálfútúrkortinu undirmeðvitundar. Tilvera mín einkennist af óþarflega flóknum og óskiljanlegum vina- og kunningjatengslum hingað og þangað um landið, ljúfa fagra, atburðum sem hver einasti grunnheimspekiframhaldsskólanemandi gæti tengt við svör og spurningar um lífið og tilveruna og, á mínum betri dögum, úthugsuðum svörum við því hvernig mannskepnan ætti að vera og hvernig hún er það ekki.

En þrátt fyrir þetta þá hyllir mig enginn sem konung, svo ég held þessum hugsunum mest innra með mér og leita leiða til að gera heiminn að betri stað, eða, sem algengara er, sleppi mér í taumlausri gleði og vímuefnaneyslu. Ég mun hvorteðer ekki breyta heiminum, myndi kannski í mesta lagi hafa áhrif á nokkrar reikandi sálir í nokkur ár eða nokkrar vikur, og þarsem veruleikaskynjunarbreytingar eru nokkurskonar óformlegt áhugamál hjá mér leita ég allra leiða til að sjá heiminn frá sem flestum mögulegum sjónarhornum, og ýmiskonar efni hjálpa, þó ég geri reyndar lítið nema að hoppa hálfbrjálaður um dansgólf undir áhrifum örvandi efna eða sitja og horfa á fallega liti undir áhrifum sljóvgandi efna. Engu að síður á ég ekki við neinskonar vandamál að stríða, enda er einungis um áhugamál að ræða.

Annað sem ég hef gaman að eru göngutúrar, allavega þartil mér verður illt í fótunum. Þessvegna liggur leið mín núna í gegnum týpíska Kópavogsausturbæjargötu Fossvogsdalsmegin við Nýbýlaveg, í síðum, svörtum frakka með sígarettu í annarri hendinni og leðurhanska á hinni, enda kalt í febrúar og þrátt fyrir hatur mitt á peningafólki hjálpar það manni gríðarlega í lífinu að allavega þykjast vera virðulegur, sama hversu vel manni annars tekst. Ég stöðva við einn leikskólann, þið vitið, týpískan fallegrahverfaleikskóla þarsem mamma og pabbi skilja litla ljósið sitt eftir í umsjón útlendinga, barngóðra unglinga eða vinalegra kellinga á meðan þau þjóta í gegnum vinnudaginn, sem gæti þessvegna verið grunnskólakennari yngri bekkja, og hlæ örlítið innra með mér því þessi hugsun hljómar miklu bitrari en ég tel mig yfirleitt vera. Fæturnir eru farnir að láta finna fyrir sér og mér gremst að sama hversu lengi og oft ég geng og sama hversu mikla kálfavöðva ég hef þreytist ég alltaf fljótlega eftir að ég legg af stað í fótunum, þó lungun haldi sér í góðu stuði svo lengi sem ég dirfist ekki að skokka, stórreykingamaður sem ég er.

Þegar ég er loksins kominn í Hlíðarnar er ég fullkomlega farinn í fótunum og kem við hjá vini mínum, sem býður mér af vinsemd uppá eiturlyf og áfengi, sem ég innbyrði á stuttum tíma, skemmti mér með honum í hálftíma og held svo göngunni áfram. Ég sem rapptexta í höfðinu og vagga ískyggilega og næstum í veg fyrir forljóta Micru með öskurvandamál á meðan ég ímynda mér hve fagur miðsumareftirmiðdagur í grænni náttúru landsins væri ef ég væri fugl sem kynni að fljúga, eða jafnvel selur í stöðuvatni, og plana í skyndi veiðiferð fyrir sumarið sem aldrei virðist ætla að koma þrátt fyrir endalausa bið, þartil ég geri mér grein fyrir því að hugsanir mínar eru óskipulega að reika í það margar áttir að ég veit sjálfur ekki hvað ég meina og einbeiti mér því að því að liggja á líflausu vetrargrasinu á Miklatúni, kveiki mér í sígarettu og hringi í handahófskennt speed-dial númer á símanum.

„Hæ.“
„Jóóóó.“
„W‘zup?“
„Ég flýt gaur, ég flýt. Hey, nennirðu að gefa mér hjól? Ég nenni ekki þessu helvítis labbi alltaf.“
„Ég tími því ekkert maður.“
„Djöfullinn.“
„Jebb.“
„Hey, ég ætla að finna skóflu, ég held ég hafi týnt henni, heyri í þér á eftir eða eitthvað.“
„Hahaha ókei, bæ maður.“

Ég stend upp og lít í kringum mig þartil ég man ekki lengur afhverju ég er að líta í kringum mig og ákveð svo að ganga áfram. Ég stoppa í sjoppu og kaupi mér nammi, litla súkkulaðihúðaða lakkrísgúmmíengla og held svo áfram. Ég geng hliðargötur í staðinn fyrir Laugaveginn til að rekast ekki á fólk og er fyrr en varir kominn í Tjarnargötu. Ég geng að dyrum, lít á dyrabjölluna til að fullvissa mig um að ég sé á réttum stað og dingla. Stelpa á aldur við mig kemur til dyra.

„Hæ?“
„Jó, sæl, heyrðu, ég vil gefa þér þessa trítla, fyrst þú elskar þá svona mikið.“
„…hver í fjandanum ert þú?“
„Ég er sjúkur fjári sem leiddist, og fór því í tveggja tíma göngutúr með það markmið að fokka mér upp á vímuefnum og gefa þér þessa trítla.“
„Hvernig…veist þú yfirhöfuð að ég elska trítla?“
„Las það á huga. Stalk-aði þig svo aðeins og komst að því hvar þú átt heima, sem er hér svona by the way, og ákvað að vera fokkd öpp og krípí. Ekki biðja fólk á spjallborði að gera hluti, því fólk á spjallborðum er fokkd öpp og krípí upp til hópa. En svona meðan ég man þá ætla ég að fara til vinar míns og horfa á myndbönd af skærum litum með hugarnauðgandi tónlist undir, svo gríptu og njóttu.“

Að því sögðu kastaði ég til hennar namminu, sneri mér við og gekk í burtu. Djöfull þarf ég að fara að læra heima eða eitthvað í staðinn fyrir eitthvað svona rugl. Á hinn bóginn þá er lífið fokkin skemmtilegt einsog það er.