Ég lét hana fara. Ástæðan svo augljós að ég hef ekki hugmynd um hver hún er. Ætli ástæðan hafi ekki einungis verið sú hversu týndur ég sjálfur var. Hún virkilega lét mér finnast ég vera eitthvað. Þegar hún hélt utan um mig og hvíslaði svo mjúkt í eyra mitt að ég væri líf sitt og yndi. Ég, að vitaskuld, sagðist elska hana til baka og sá um leið blik í augum hennar. Orð mín þó álíka týnd og ég sjálfur. Það versta af öllu var þó að innantómu orðin mín gerðu daginn hennar. Það snerti mig ekki lengur líkt og í fyrstu þegar ég byrjaði að reika um myrkra dali í leit af því sem ég átti, lífinu. Dalurinn virtist óendanlegur, uppfullur af óuppfylltum draumum og týndum sálum í stöðugri leit af því sem þær ekki finna. Svo ég lét hana róa. Kannski að ég finni ástæðuna síðar meir, þegar það fer að birta til í dalnum og draumarnir vakna til lífsins. Ef til vill felst skýringin í því sem á eftir að koma, í því sem hræðir okkur öll mest.

Svo heldur lífið áfram. Til hvers? Það veit engin.

Stúlkan gekk að mér fáeinum dögum seinna þar sem ég beið eftir strætisvagni númer tvö. Hún staldraði við um stund ekki lengra en einu skrefi frá augum mínum. Ég sem hafði ætlað að forðast augnsamband leit eilítið augnablik á andlit hennar og sá strax hvað hafði heillað mig við hana. Augun gátu lokkað hvern sem er til þess að gera hvað sem er. Skömmu síðar ræskti hún sig og sagði: Ég ætla ekki að þykjast ekki vera sár. Þú hefur tekið frá mér lífsneistann sem kviknaði um leið og þú brostir til mín í fyrsta sinn. Þú hefur tekið frá mér festuna sem ég loksins hafði dáð og elskað. En nú er sólin svört, ljósin líflaus og dagarnir dauðir. Allt sem ég fer fram á núna og ég vona að það sé þér ekki um of eftir allan þennan tíma, þessar stundir er skýring. Skýringu sem fær mig aftur til þess að sofa, skýringu sem fær mig til þess að brosa á nýjan leik. Ég sá tárin leka niður vanga hennar og ég sjálfur speglaðist í votum augum hennar. Ég starði beint inní brotið hjarta, útgrátin augu og það fyllti hug minn af hlátri. Ég hló og hún mig sló en lífið dó, só.

Fljúgðu á undan hlátrinum á meðan dauðinn enn vakir.

„Ég vil byrja á því að óska syni mínum og Eydísi eiginkonu hans til hamingju með giftinguna. Ég á engin orð til þess að lýsa því hversu stoltur ég er. Því að finna förunaut er erfiðisvinna en nú hafa þau fundið hvort annað í miðjum erfiðleikatímum þar sem allt er svo óheillandi að kuldinn er hlýr. Þau hafa klifið tinda, séð sólina setjast og fundið fyrir ástinni springa. Ég vona að lífið og allir erfiðleikar þess munu aldrei stía þau í sundur heldur aðeins styrkja sterka strauma þeirra. Megin ástin lifa meðal ykkar til eilífðar nóns.“ Klapp, klapp, klapp.

Tíminn talar alltof hratt tungumál sem engin skilur.

Lífið verður líkara dauðanum með hverri sekúndunni. Ég hef mig afsakaðan úr minni eigin giftingu til þess að virða fyrir mér sorgir mínar og mistök. Ég hef drukkið mig of fullan af mínu eigin giftingar kampavíni. Ég er skömm. Það er þó enn hún sem angrar mig mest, það er hún sem heldur fyrir mér vöku meðan fuglarnir sofa. Stúlkan með augun sem fyllti mig af lífi og gerði allt miklu betra en mögulega var hægt. Nú gríp ég mín eigin tár vegna hennar. Nú sit ég einn á brúðkaupskvöldinu mínu með sjö ára gamalt kampavín á bekk við sjóinn og hugsa um hvar í ósköpunum hún sé. Hvar hún sé að hlægja af gömlum og nánast gleymdum ástum sem tók sig tvo daga að jafna sig á. Ég sé hana í sjónum, hún syndir með öllum hinum fiskinum samt svo miklu fallegri. Best að fara aftur inn, klára þetta helvítis brúðkaup. Klára lífið. Skýringin kom aldrei, rataði aldrei á réttan stað. Ég er einungis týndari en nokkru sinni fyrr. Kannski var engin skýring til. Þetta klúðraðist fyrir svo löngu: þegar ég stóð andspænis opnu hjarta hennar og hló. Lítið brot var meir en nóg til að hjarta mitt dó.