Hún gat ekki hætt að stara á blettinn, eins ógeðslegur og hann var. Hann hafði ekki verið þarna áður – hlaut að hafa komið fyrir stuttu. Hann var svo áberandi þarna einn á miðju gólfinu – hvítu teppalögðu gólfinu og hann, stór og rauður, rétt eins og hann réði yfir heiminum. Hann var eins og Satan í hænsnabúi. Bókstaflega.

Hvítur fullkomleikinn eyðilagður af rauðum viðbjóði sem virtist hafa sjálfstæðan vilja. Hann var að eyðileggja fyrir henni gólfið. Hún áætlaði að bletturinn væri ekki nema rétt um einn rúmmetri, sem var ekki nema lítill partur af öllu gólfinu, en hann var svo skerandi og öskrandi að hann fór langt með að eyðileggja það allt.

Og hún var að fara að halda boð. Fínt boð fyrir allt fína fólkið sem vann með manninum hennar. Þau hjónin voru samt ekkert fín. Nei, frekar venjuleg öllu heldur. En hún þurfti samt að þykjast og vera í einhverjum sýndarleik. Maðurinn hennar var ekkert hrifinn af því og lét hana skrifa á kortið að þetta ætti að vera látlaus boð. Hún skrifaði það og hugsaði svo með sér að þá yrði þá bara enn áhrifaríkara þegar gestirnir kæmu og sæju hversu fínt allt væri. Og sérstaklega hún; hún ætlaði sér að vera í sínu fínasta pússi og allt við veisluna – borðhald, skreytingar og allt umstang – yrði fullkomið.

En svo kom þessi helvítis blettur og eyðilagði allt. Hún lagði allt í veisluna; allt var orðið svo fínt og fullkomið en þá þurfti bletturinn að birtast. Hvað hafði hún gert til að verðskulda þetta? Hún hafði reyndar ætlað að þykjast vera fínni – snobbaðari – en hún var í raun og veru og ætlaði með því að ljúga. En var það að ljúga svona slæmt? Átti lygi að geta eyðilagt mannorð? Það fannst henni allavega ekki, og sérstaklega ekki ef lygin var svo smá og óbein.

En það var ekki hennar að velja og bletturinn var kominn, sama hvort henni líkaði það betur eða ver. Og hún þurfti að takast á við það. „Vandamál eru til að takast á við,“ eins og pabbi hennar hafði alltaf sagt. En svo hafði hann dáið vegna þess að hann nennti ekki að laga bremsuna í bílnum, lét hana alveg vera í staðinn. Það dró svolítið úr áhrifamætti þessa orðatiltækis.

Hvernig skyldi hún takast á við blettinn? Hann var fastur í teppinu, þornaður. Maðurinn hennar myndi samt ekki gera neitt mikið mál úr þessu; hann var hálfgerð gufa að hennar mati og vildi bara vera þannig. Samt sem áður frekar rúðustrikuð gufa því ekkert mátti út af bregða án þess að hann færi allur í kerfi. Hann lét samt lítið á því bera þegar hann fór í kerfi því hann var, jú, einungis gufa sem var fastur í valdakrukku eiginkonu sinnar.

En hún var farin að örvænta; bletturinn ætlaði ekki að fara af sjálfsdáðum og hún var eiginlega of góð til þess að gera eitthvað í málinu. Svo var maðurinn hennar ekki heima og hana langaði bara að gráta. Og það gerði hún; hún lagðist niður á gólfið og grét. Hún grét í nokkurn tíma, liggjandi á gólfinu, alveg þar til hún fékk þessa snilldar hugmynd: Hún gæti náttúrulega alveg stytt sér aldur. Þetta var allavega réttur staður og rétt stund.

Og það gerði hún. Nokkrar pillur úr boxinu með gula lokinu. Þær runnu auðveldlega niður með rauðvíninu. Hún fann hvernig líkaminn byrjaði smám saman að hægja á sér þar til hann stoppaði alveg og hún datt á gólfið. Beint ofan á blettinn.

Bletturinn sást ekki allt kvöldið og henni tókst að bjarga veislunni, þó það væri svona á síðustu stundu.