Ég virti fyrir mér fagurt andlitið á elsku stúlkunni minni. Fínmótað andlistfall með örlitlum roða í kinnunum sem helstu aðalsmerki, fullkomnuð með köldu, bláu augunum. Axlarsítt rauðleitt hárið hvíldi á hvítum koddanum. Við hliðina á rúminu, á litlu kommóðunni, var innrömmuð mynd af látinni móður hennar. Á þeirri mynd mátti sjá sömu rauðleitu lokkana sem smellpössuðu við andlitsfallið. Hún var ægifögur, móðir hennar. Ég komst ekki hjá því að velta fyrir mér þeirri dapurlegu staðreynd, að stúlkan mín myndi brátt hljóta sömu örlög og hún.

Fyrstu kynni okkar hafa alltaf verið mér einstaklega minnisstæð. Þakkargjörðarhátíðin fyrir næstum fjórðungi aldar, er ég heimsótti vinkonu mína, dóttur móðursystur minnar. Ég var nýsestur í upp á búið rúm hennar, er bankað var þrisvar sinnum lauslega að dyrum. Ekki leið á löngu þangað til hún birtist í dyragættinni að herberginu, í allri sinni dýrð, og kynnti sig sem skólasystur frænku minnar. Ég féll samstundis fyrir henni. Ég hefði ekki trúað með neinu móti, á þessu augnabliki, hörmulegu örlögunum sem biðu okkar.

Þrátt fyrir að hafa lifað til fjölda ára, hef ég ekki með nokkru móti haft ráðrúm til að svara öllum spurningum mínum um lífið og tilveruna. Með árunum hef ég þurft að læra að í sama hversu slæmri aðstöðu ég er í, þá skal ég ekki voga mér til að spyrja. Með því að fylgja þessari einföldu reglu, að spyrja einskis, kemst ég lífs af, þó byssu sé miðað á hnakkadrambið á mér. Ég virkilega fyrirlít þau örlög.

Ég stend enn yfir stúlkunni sem ég elska svo heitt, eiginkonu minni til margra ára. Hún sefur vært. Ég tek upp örmjóan hnífinn úr vasa mínum, handleik hann með báðum höndum um leið og ég reyni að tæma hugann. Ég skelf. Áður en ég veit af reiði ég til höggs í brjóstkassann á henni. Blóð spýtist í rauðleitt hárið og ég finn hvernig lífið fjarar út á augabragði.

Í hinum vasa mínum pípir lítið tæki. Staðfesting frá yfirmanni mínum um að verkefni mínu sé lokið.

Ég sest niður hjá látinni eiginkonu minni, og græt.