Hún horfði á ljósin blika inn um gluggann. Henni fannst þau svo falleg, svo friðsamleg. Hún sá litla stelpu koma hlaupandi inní stofuna, hún var í rauðum kjól og skóm í sama lit. Með litla rauða slaufu í hárinu. Hún brosti svo skein í götóttann tanngarðinn og kallaði síðan á einhvern. Sennilega pabba sinn því hann kom fljótlega til hennar og kyssti hana á kinnina. Óskaði henni gleðilegra jóla og tók hana í fangið.
Henni var orðið svo kalt núna, vildi óska þess að hún gæti verið hluti af þessu öllu saman sem fór fram fyrir augum hennar. En það gat hún ekki, þetta var ekki hennar heimili. Hún átti ekkert heimili. Einu sinni átti hún svoleiðis; heimili með pabba og mömmu. En ekki lengur. Aldrei aftur.
Hún hélt áfram að ráfa um bæinn og horfa inn um glugga hjá hamingjusömu fólki. Fólki sem var að halda heilög jól á heimilum sínum. Klukkan var orðin sex að kvöldi, hún var ekki með úr en það var augljóst miðað við það sem hún sá.
Ég verð að finna mér skjól áður en veðrið versnar, hugsaði hún með sér. Það var spáð snjóstormi þetta kvöld. Þetta yrðu þá ekki rauð jól eftir allt saman. Hún gekk í átt að næsta leikskóla í nágrenninu. Á leiðinni mætti hún fáum bílum, það var eðlilegt. Allir voru að njóta jólanna, allir nema hún.
Hliðið á leikskólanum var læst þannig að hún neyddist til þess að klifra yfir. Það var svolítið erfitt því henni var svo kalt að hendurnar hennar skulfu af kulda. Hún leit í kringum sig með varúð en hún sá engan þannig að hún gekk af stað inná leikvöllinn. Hann kom henni kunnulega fyrir sjónir, þetta var eins og að hitta gamlan vin. Hún hafði verið á þessum leikskóla þegar hún var lítil og átti ennþá mömmu og pabba. Þau höfðu skipst á að sækja hana eftir vinnuna, stundum hafði hún ekki viljað koma strax ef hún var að skemmta sér vel. Hún sá eftir því núna, vegna þess að það var bara tími sem hafði farið til spillis, tími sem hefði getað verið nýttur betur. Hún leit inn um gluggana og gekk í skugga um það að enginn væri inni, þó að hún byggist ekki við því. Að sjálfsögðu var þar enginn. Ekki á jólunum, ekki á sjálfu aðfangadagskvöldi.
Aftur fann hún kuldann nísta inn við beinin, og hún vafði fatalörfunum þéttar að sér. Hún reikaði um leikvöllin stefnulaust, ekki með neinn sérstakan áfangastað í huga. En fljótlega kólnaði ennþá meira og vindurinn reif í hana svo hún ákvað að finna sér skjól fyrir nóttina. Það var ekki úr mörgu að velja, annað hvort undir rennibrautinni eða inní litlum kofa sem var vel opin og veitti lítið skjól. Hvorugt myndi duga nógu vel fyrir hana. Hún skimaði því betur um leikvöllinn og kom auga á aðeins stærri kofa, með hurð og tveim gluggum. Hún rölti þangað og ætlaði inn en hurðin var harðlæst með hengilás. En heppnin var með henni, hún var með litla spennu í hárinu. Hún fjarlægði spennuna úr hárinu og hóf verk sitt. Oft tók þetta langan tíma því hún var alls ekki lagin við þetta. Auk þess skalf hún svo af kulda að þetta var nær ómögulegt. En hún átti enga aðra kosti og eftir dágóðann tíma hafðist þetta. Hún reif upp hurðina, hljóp inn og flýtti sér að loka hurðinni til þess snjórinn kæmist ekki inn.
Inní kofanum var rakt og ekki mikið hlýrra en fyrir utan, en hann veitti þó skjól við vindinum og það var nóg. Hún hafði haft það verra.
Hún kom sér fyrir í rakalausasta horninu í kofanum og hjúfraði sig saman í lítinn bolta. Hún vissi af reynslunni að það var besta staðan til þess að halda á sér hita. Hún veiddi síðan lítið súkkulaði stykki uppúr vasanum sem hún hafði verið að spara sér síðustu daga. Pipp-súkkulaði, það var jólamáltíðin hennar þetta árið. Þetta er þó betra heldur en árið áður, hugsaði hún fegin með sér. Þá hafði hún reynt að vinna sér inn pening með einu mögulegu leiðinni fyrir hennar aldur og aðstæður. Hún hafði reynt að selja sig, en þegar kallin neitaði að borga eftir greiðann varð hún reið. Hún hótaði honum á ýmsan hátt með loforðum sem hún sjálf vissi að hún myndi aldrei efna. Kallin virtist átta sig á því, vegna þess að þrátt fyrir það neitaði hann enn að borga, en hún hafði verið svo örvingluð í peninga að hún réðst á hann. Það voru hræðileg mistök. Hann var tvöfalt stærri en hún og undir áhrifum. Að sjálfsögðu ætlaði hann ekki að leyfa lítilli telpu að vaða yfir sig. Hann lúbarði hana og skildi hana eftir í blóði sínu í dimmu húsasundi í miðbæ Reykjavíkur. Hún hafði eytt aðfangadagskvöldinu á milli lífs og dauða. „Ég hefði átt að drepast í fyrra“ hvíslaði hún útí loftið í kofaræksninu.
Enn og aftur hjúfraði hún sig saman og vonaði að svefnin kæmi fljótt. Henni varð ekki að ósk sinni. Vondar hugsanir ásóttu hana, og gerðu það nær ómögulegt að sofna. Hún hugsaði um fjölskylduna sína og heimilið sem nú var brunnið til grunna. Allt sem henni var kært hafði farist í eldinum. En skilið hana eftir til þess að lifa ein í heiminum það sem eftir var. Hún óskaði þess oft að hún hefði líka brunnið, það var ákjósanlegara en þessi ömurlega tilvera.
Hún mundi þetta kvöld eins og það hefði gerst í gær. Mamma hennar hafði eldað hakk og spagettí, uppáhaldið hennar. Síðan hafði pabbi hennar baðað hana og háttað hana í litlu bleiku náttfötin hennar. Mamma hafði síðan komið og lesið fyrir hana söguna um rauðhettu og úlfinn. Hún varð alltaf svo hrædd þegar úlfurinn át rauðhettu og ömmuna þó að hún kynni söguna utan að. Síðan kysstu þau hana bæði góða nótt og hölluðu hurðinni. Hún mundi að hún átti erfitt með svefn þessa nóttina, hún var alltaf að horfa á kertið í glugganum sem mamma hennar kveikti á, á hverju kvöldi. Þegar hún spurði hana afhverju hún kveikti alltaf á því sagði mamma hennar að það róaði sálina fyrir svefninn. En þetta kvöld gat hún ekki sofnað og hún settist upp í rúminu og hún ákvað að skoða kertið aðeins betur. Hún mjakaði sér fram úr rúminu og tók andköf þegar litlu tærnar snertu kalt gólfið. Síðan tiplaði hún á tánum að glugganum. Kertið var næstum búið núna, loginn var alveg að deyja. En ef það slokknar á kertinu hugsaði hún, verður mamma leið. Hún ákvað því að halda kertinu logandi sama hvað. Hún tók það varlega upp og lagði það á skrifborðið, á skrifborðinu voru fullt af myndum sem hún hafði teiknað í leikskólanum. Hún tók eina þeirra og byrjaði að rífa hana í litla bita og stafla þeim í eina hrúgu. Síðan tók hún kertið aftur varlega upp og setti lítinn blaðsnepil inn í logann, það kveiknaði svo skyndilega á honum að henni brá þegar loginn sleikti hönd hennar. Hún sleppti kertinu strax og tók skref aftur á bak. Hún saug puttann sem hafði brunnið af mikilli áfergju og varð síðan litið á skrifborðið. Þar stóð allt í ljósum logum, eldurinn hafði þegar étið upp allar fallegu myndirnar hennar og var nú að teygja anga sína í átt að fataskápnum hennar. Hún stökk upp í rúm eins og hún héldi að það væri mikið öruggara. Hún hjúfraði sig í sængina og starði á logana breiða sig um litla herbergið hennar.
Það sem gerðist næst var allt í móðu fyrir henni. Eldurinn var eins og brjáluð skepna, hann æddi um hólf og gólf. Hún var farin að finna fyrir brennandi hitanum á enninu og sængurfötin hennar voru farin að sviðna. Hún byrjaði að hósta, og inn á milli hóstakviðana reyndi hún að kalla á foreldra sína án árángurs. Hún var farin að gráta og tárin skildu eftir rákur í sótugu andlitinu. Allt í einu var hurðin rifin upp og faðir hennar stóð í dyrunum, hann hikaði í tæpa sekúndu en síðan þusti hann inní herbergið. Rúmið var í því horni herbergisins sem var lengst frá hurðinni. Pabbi hennar þurfti því að vaða í gegnum eldinn til hennar. Hann tók nokkur risaskref þvert yfir herbergið og stökk uppí rúmið. Hann lyfti henni upp í fangið sitt með hraði og stökk svo út á gólf. Hún fann tærnar sínar brenna undan og hún reyndi að æpa en það leiddi bara af sér hóstakast.
Pabbi hennar hafði skilið hurðina eftir opna þannig að eldurinn var þegar komin inní stofu og var að éta upp sófasettið. Hún kom hvergi auga á mömmu sína og hún kallaði á hana. Eða það átti að vera kall, en hljómaði frekar eins og veiklulegt uml. „Ég finn hana“ hvíslaði pabbi hennar, ekki bara til hennar heldur var það líka eins og að hann væri að reyna að sannfæra sjálfan sig. Hann hljóp með hana framhjá eldhúsinu, inn í forstofu og síðan út. Henni varð litið til baka rétt áður en hurðin lokaðist og það sem hún sá hryllti hana meira en allt annað. Það stóð allt í ljósum logum, ekkert varð eftir. Eldurinn var nú komin alls staðar, hann hlífði engu. Síðan lokaðist hurðin. Pabbi hennar hljóp útá götu með hana og setti hana niður og sagði ákveðnum rómi „ Vertu kyrr ástin mín, ég ætla að ná í mömmu þína“. Síðan hljóp hann aftur inn. Hann kom aldrei aftur.

Tárin voru farin að streyma niður andlitið og hún fann til viðbjóðar . Hún hataði sjálfa sig, þetta var allt henni að kenna. Hún hafði drepið foreldra sína. Hún hafði lengi vonað að henni yrði refsað, sama hvernig. En hún slapp, fékk bara smá reykeitrun og ekkert annað. Fyrstu tvö árin var hún á fósturheimili. En samviskan nagaði hana, svo að þegar 7 ára afmælisdagurinn rann upp, strauk hún að heiman. Hún sá þau aldrei aftur. Síðan þá hafði hún átt í kasti við lögregluna, vegna þess að lagalega séð mátti hún ekki sofa úti. Oftast nær fann hún sér einhvert skjól, oní gám, inní runna, einstaka sinnum í hlýrri hjólageymslu ef hún var heppin.
En hún var orðin svo þreytt, svo þreytt á þessu lífi. Henni fannst eins og hún væri gamall bíll, ofkeyrð og illa meðfarin. Innst inni var hún ennþá bara litla saklausa stelpan sem hún sá í glugganum fyrr um daginn, hana vantaði bara foreldra sína.
Þar sem hún lá á hliðinni í grúfu fann hún eitthvað stingast inní síðuna á sér. Hún smeygði hendinni ofan í vasann á gatslitnu úlpunni sinni og fann það sem hafði valdið henni óþægindum. Lítið hvítt kerti sem hún hafði fundið ofan í ruslagám, nánast útbrunnið og eldspítnapakki sem hún hafði hnuplað af veitingastað. Hún settist upp og skimaði í kringum sig eftir einhverju sem hún gæti notað sem stjaka fyrir kertið. Hún kom fljótt auga á form sem litlu krakkarnir á leikskólanum léku sér með í sandkassanum. Það var grænt og í laginu eins og sæhestur. Hún mokaði sandi og mold af kofagólfinu ofan í formið þangað til að það var fullt, síðan strauk hún hendinni yfir það til að slétta það. Að lokum tók hún fram kertið og tróð því ofan í miðjuna á forminu, hún vandaði sig svo það yrði stöðugt. Þegar hún hafði fullvissað sig um að kertið myndi ekki velta tók hún upp eldspýturnar. Hún taldi þær í hljóði, aðeins 2 heilar voru eftir. Hún tók þá eldspýtu sem var í skárra ástandi en hin og kveikti varlega í. Hún færði sig að kertinu en þráðurinn var frosinn í gegn svo eldspýtan brann út og eldurinn dó. Hún flýtti sér að taka upp hina, sendi stutta bæn til Guðs og kveikti í. Og viti menn, kertið logaði. Hún andaði léttar, lagðist aftur niður í grúfu og starði heilluð á logan. Hún gat næstum því heyrt mömmu sína segja sér að nú gæti hún sofið vært, að nú væri sálin komin á góðan stað fyrir nóttina. Með þetta í huga sofnaði hún. Engir vondir draumar ásóttu hana þessa aðfangadagsnótt.
Dýrð sé móðurinni sem ól þig!