Hann fékk sér einn sopa í viðbót úr Café Latté bollanum sínum, hugsandi um hversu mikið bollinn hafði hækkað í verði frá skólabyrjun, einungis 4 mánuðum áður. 450 kr. fyrir bollann og 50 kr. aukalega fyrir heslihnetusýrópið er kannski engin óviðráðanleg upphæð að greiða en hann minntist þess þó að fyrir sömu upphæð gat hann áður fengið súkkulaðibitaköku í kaupbæti. Aðrar áhyggjur og alvarlegri en hátt kaffiverð fylltu þó huga hans þessa stundina. Verðbólgan hafði hækkað afborganirnar af húsnæðisláninu um fimmtung frá því í fyrra og nú þurfti hann að velja á milli þess að segja upp áskriftinni af Stöð 2 og Stöð 2 Sport eða draga verulega úr djamminu um helgar.
Hann skildi hálffullan bollann eftir á borðinu og gekk út úr kaffihúsinu með félögunum og út í mannþvöguna á Austurvelli. Lögreglan hafði stillt sér upp fyrir framan Alþingishúsið og nú mátti hún þurfa að þola ósvífin orð í sinn garð fyrir að verja þessi „fífl“ í ríkisstjórninni sem augljóslega voru ekki að gera neitt fyrir almúgann í landinu. Hann dró eggjabakkann upp úr 10/11 pokanum og brosti til hinna sem voru mættir þarna í sömu erindagjörðum og hann, að tjá yfirvöldunum hug sinn með matvælakasti. Aldrei fyrr hafði hann verið róttækur og þess vegna var þetta ansi spennandi, einhvern veginn „eins og í útlöndum“ og málverk gömlu meistaranna af frönsku byltingunni komu upp í huga hans.
Fyrsta eggjakastinu fylgdi gríðarleg útrás, að sjá eggið brotna á steinveggnum og innihaldið frussast og leka út um allt á veggnum sem fyrir innan geymdi ráðamennina sem mistókst allt svo hrapallega. Lögreglan átti hans samúð en hann leit svo á að hún væri einungis á röngum stað og á röngum tíma, og vissulega að verja rangar manneskjur.
Hann leit í kringum sig og sá hvar ljósmyndari Chicago Tribune hafði tekið sér stöðu fyrir aftan þá félaga. Vongóður um örlitla skyndifrægð, að minnsta kosti á netinu, færði hann sig nær með egg í hvorri hendi og horfði alvarlegum augum, en þó með áberandi glott á vörum, inn í linsuna í þann mund sem smellt var af. „Dagurinn gerður ódauðlegur af fjölmiðlum og litli ég á meðal hetjanna“ hugsaði hann ánægður með sér er hann sneri sér aftur að vinunum og byltingunni.



Hún renndi augunum yfir matarbúrið og sá að það vantaði nokkurn veginn allt sem matarkyns mætti kalla. Síðan eiginmaður hennar hafði tekið sér stöðu meðal hinna andlitslausu fórnarlamba óeirðanna í júní í fyrra hafði hún, atvinnulaus og fátæk, átt erfitt með að fæða sig og börnin þrjú. Hún minntist þess að hafa sagt honum að þó hann styddi stjórnarandstöðuna þyrfti hann ekki að gera skoðanir sínar svo áberandi á götum úti, slíkt væri varasamt á þessum tímum. Hann hafði bara brosað til hennar, huggað hana með þeim orðum að ekkert myndi gerast og að einhverjir „yrðu nú að berjast fyrir réttlæti í þessu landi og koma Mugabe frá völdum.“
Einum látnum eiginmanni síðar var Mugabe enn við völd og ástandið í þjóðfélaginu hafði sjaldan eða aldrei verið verra.
Hún bað börnin um að hafa sig hæg á meðan hún yrði í burtu og gekk svo út um brotnar dyrnar og í átt að versluninni. Hún hafði litla sem enga hugmynd um hvað eggjabakkinn myndi kosta í dag en tók til öryggis með sér allt það peningamagn sem hún gat fundið í skápunum. Margt var ódýrara en egg í versluninni en sökum næringargildis eggjanna voru bestu kaupin í þeim.
Eftir að hafa náð einum af síðustu tveimur bökkunum úr kælinum rak hún auga í verðmerkinguna í hillunni og viti men, hún átti rétt svo nægilega fyrir þeim. Glöð í bragði stalst hún til að glugga í rekkann sem geymdi alþjóðleg tímarit á meðan enginn sá til. Hún prísaði sig sæla að þessi verslun náði að smygla öllum tímaritunum til landsins því sú stolna iðja hennar að glugga í tímaritin og láta sig dreyma um betra líf í öllum þessum framandi löndum á blaðsíðum þeirra var í raun eitt af því fáa sem hún gerði sér til gamans þessi misserin.
Á forsíðu Chicago Tribune var umræða um almennt versnandi efnahagsástand í heiminum og aðeins innar í blaðinu var grein um einhverja „cutlery revelution“ eða búsáhaldabyltingu á lítilli eyju norður í höfum. Á þessari eyju hafði áður ríkt ein mesta velsæld í öllum heiminum og þar á bæ sá fólk fram á harðnandi lífskjör í kjölfar hruns bankakerfisins.
Þó hún hafði vissulega smá meðaumkun með fólkinu, gat hún ekki annað en glott út í annað. Vesturlönd höfðu alltaf litið niður á Zimbabwe og nú þegar sjálft ríkasta „efnahagsundrið“ meðal þeirra átti í gríðarlegum erfiðleikum gátu þau kannski gert sér örlítið í hugarlund hvernig ástandið hafði verið hér í öll þessi ár.
Hún las greinina áfram með takmarkaðri enskukunnáttu sinni en þegar hún fletti yfir á næstu síðu fannst henni sem eitthvað stingi hana laust í hjartað. Á mynd af glottandi ungum manni með egg í hvorri hendi sá hún hvar fjöldinn allur af fólki henti þessum dýrmætu matvælum í fallega steinbyggingu. Undir myndinni var skýringartexti þar sem tekið var fram að afborganir á húsum hafði hækkað um fimmtung og fólk þurfti nú að láta sér linda að fórna ýmsum munaði, svo sem einkabílum og „flatskjám“ til að hafa efni á heimili sínu.
Pirruð og hneyksluð gekk hún frá blaðinu aftur í rekkann. Ef Vesturlönd láta sér svona smáatriði fyrir brjósti brenna og gera úr þeim svona gríðarlegt mál, hvernig í ósköpunum geta þau nokkurn tíma skilið hvað fellst í raunverulegri neyð?
Hún gekk að afgreiðslukassanum með hádegis- og kvöldmatinn fyrir litlu fjölskylduna hennar, týndi alla seðlana úr slitnu veskinu og rétti unglingnum restina af mánaðarlegu framfærslunni sem hún fékk frá ríkinu.
„Ekki nóg.“
Hún starði í forundran á unglingsbjánann.
„Hvað meinarðu, ekki nóg? Þetta á að duga miðað við það sem stóð á merkingunni!“
„Þú ert með alveg rétta upphæð miðað við verðið í gær. Við hækkuðum allt í morgun.“
„Um hversu mikið eiginlega?“
„Fimmtung.“
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.