Einn fagran morgun í litlu ljósfylltu rjóðri mátti finna tvö lítil börn að leika sér. Þau höfðu verið þarna í þónokkurn tíma saman, áður höfðu þau skoðað sindrandi stjörnurnar en núna lágu þau í rauðgullinni morgunsólinni að njóta lífsins. Þetta var alls ekki mannlaust ljósfyllt rjóður heldur mátti þar finna ýmiskonar fólk af öllum mögulegum toga arkandi framogtilbaka í gleðifylltri ofvirkni. En einsog fagur miðsumarsmorguninn, gróskumikill gróðurinn sem og sá visnaði var þetta einungis bakgrunnur fyrir þau, því fyrir alla utanaðkomandi skipti umhverfið engu, heldur drógust allra viti fylltra manna augu að þessu unga fólki.

Áður en þau höfðu komið þangað hafði staðurinn verið kaldur og votur, gróðurinn visnaður og aðeins óþjóðalýður þar á ferli í leit að einhverskonar skemmtun. Eftir komu þeirra var að vísu lýðurinn enn þarna, en aðeins sem glaðlegur viðauki í glæsilega tilveru þeirra.

Léttir og hlýlegir regndropar tóku að falla til jarðar, en þeim var sama eftir legu sína í dögginni. Drengurinn rís við og kallar gáskafullur “Ég er hershöfðingi!” og gefur frá sér létt stríðshljóð.

“Æji, ekki láta svona” segir hún og hann ætlar að fara að mótmæla en vingjarnlegt tillit stúlkunnar þaggar niðrí honum. Hann brosir við og kastar sér, henni að óvörum, í næsta drullupoll. Hún hlær við en skríkir svo þegar hann skvettir úr pollinum á hana og gapir af undrun þegar hann dregur hana ofan í með sér. Drengurinn hlær að svip hennar þartil lúmskt bros læðist yfir andlit stúlkunnar og hún skvettir upp í drenginn, sem hóstar við undrandi, en brosir svo og hjálpar henni upp úr.

Þau leggjast rennblaut upp að næsta tré og eru kyrr um stund. Þögnin er þægileg en eftir stutta stund lítur drengurinn á stúlkuna og sér að henni líður ekki sem allra best.

“Hvað amar að?” spyr hann, áhyggjufullur.
“Æj, ég hef bara smááhyggjur,” svarar hún.
“Nú?”
“Sjáðu til, ég er siðblind og hef ekki tilfinningar.”
“Nei, það passar ekki.”
“Jú, víst.”
“Nei, ég er nokkuð viss um að það passi ekki.”
“Jú, það passar víst. Ég veit það.”
“Nei, sjáðu til, þú hefur hlegið með mér og leikið með mér og skemmt þér með mér, svo þú hlýtur að hafa tilfinningar.”
“Já, þú meinar það.”
“Já, ég meina það. Þú ert gáskafull og skemmtileg stúlka. Afhverju hélstu annað?”
“Æji, pabbi sagði.”
“Já, pabbar segja alltaf. Ekki hlusta á það. Þú ert ekki siðblind fremur en ég, og ég er ekki siðblindur og ég veit það. Svo ég veit að þú ert ekki siðblind, því þú ert gáskafull og skemmtileg einsog ég.”

Eftir þessar samræður leit stúlkan upp og gaf frá sér hálfbros. Drengurinn brosti og hló með henni, þarsem þau léku sér áfram í glæsilegri tilveru sinni um stund. Dagar liðu og áfram léku börnin sér.

“Ég er kóngur í ríki mínu!” myndi drengurinn sem dæmi kalla.
“Nei, þú ert það bara ekki!” myndi stúlkan svara, hneyksluð.
“En jú, ég er kóngur í ríki mínu og þú ert drottning mín og við munum ríkja hér í rjóðrinu yfir undirboðurum okkar!” myndi hann þá svara, hissa á að stúlkan hafi ekki munað það.
“Já, það er rétt,” myndi stúlkan þá svara brosandi og áfram myndu þau leika sér.

Þartil allt í einu að stúlkan sagði miður sín “Ég þarf að fara úr rjóðrinu okkar, því pabbi minn vill fá mig heim að eilífu.”
“Það er ekki gott,” svarar drengurinn leiður en skilur hana.
“Takk fyrir tímann okkar hér í rjóðrinu,” segir stúlkan full trega og faðmar hann og kyssir á kinn.
“Ekkert mál, ég naut hans,” svarar hann og faðmar hana og kyssir tilbaka.

Að því búnu heldur stúlkan heim á leið og skilur strákinn eftir. Rjóðrið verður kalt og vott og misindismennirnir skríða uppá yfirborðið, en drengurinn á enn minninguna um glaðlegt andlit hennar til minja. Sú sýn veitir honum yl í kulda rjóðursins svo hann getur áhyggjulaus blandað geði við misindismennina sem áður voru aðeins nauðsynlegur bakgrunnur í glæsilegri tilveru.



—–

Mér datt þessi saga í hug í leit að barnslegri einfeldni til að setja niður í sögu, og ákvað að sjá hvernig mér gengi að setja það niður absúrd, þartil rómantíska yfirborðið læddist í söguna, og setti þessa sögu svo einnig í ljóðform sem æfingu í að setja sögur í ljóðform og því má einnig finna þessa sögu í ljóðformi með því að ýta hér, á þessa sögu í ljóðformi.