Hef verið að safna kjark í að senda inn eitthvað af sögunum mínum, fer vonandi að verða aktívari.
————————————-

,,Mamma, þegar ég verð frísk, getum við þá málað herbergið mitt upp á nýtt? Eftir þessa spítalavist er ég búin að fá nóg af hvítum lit. Mig langar að mála herbergið mitt grænt, eða kannski blátt!”
,,Auðvitað getum við það, elskan, getum endurinnréttað í leiðinni.”
Mæðgurnar sátu inni í hvítu herbergi. Stólarnir sem þær sátu á voru hvítir, rúmið var hvítt, gardínurnar voru hvítar, föt stúlkunnar voru hvít og húð hennar var hvít.
Hárið á lækninum hennar var líka hvítt.
,,Afhverju eru spítalar alltaf svona hvítir og litlausir?” spurði stúlkan en fékk ekkert svar.
Þær þögðu.
Það eina sem heyrðist var bípið frá tækjunum og grenjandi rigningin sem barði á gluggana.
,,Mun ég komast héðan út?” spurði stúlkan og horfði beint í augu móður sinnar.
,,Auðvitað, elskan mín.”
Hún horfði framhjá dóttur sinni þegar hún svaraði.
Læknirinn kom og bað um að fá að tala við móðurina.
Stúlkan leit ekki upp heldur starði bara á hvítar hendur sínar.
Móðirin lokaði hurðinni á eftir sér.
,,Lyfjameðferðin ber engan árangur. Það er ekkert sem við getum gert, mér þykir innilega fyrir því.”
Læknirinn dirfðist ekki að horfa á hana.
,,Dóttir mín hefur gengið í gegnum Helvíti, fram og til baka, síðan hún fæddist. Hvernig getur þú, háskólamenntaður læknir og sérfræðingur, sagt mér að það sé ekkert sem þið getið gert?”
Hún hækkaði röddina og með hverju einasta orði mynduðust brestir í röddinni.
,,Borgaðir þú himinháa upphæð fyrir læknismenntun til þess eins að segja mér að þú getir ekki læknað tólf ára stúlku?!”
Hún var farin að öskra og fólkið á ganginum hraðaði sér framhjá eða fór aðra leið.
Læknirinn gat ekki sagt eitt einasta orð.
Móðirin hágrét en lækkaði svo röddina.
,,Hún er það eina sem ég á. Eiginmaður minn höndlaði þetta ekki og engin skyldmenni mín vilja koma nálægt henni, eins og hún sé smitandi! Ég hef eitt öllu sem ég á í að reyna að finna lækningu. Hún er bara saklaust barn!
Farðu, þú hefur ekkert meira að segja mér.”
Læknirinn fór.
Hún opnaði hurðina hægt.
Hún öskraði.
Veggirnir voru ekki lengur hvítir, rúmið var ekki lengur hvítt, föt stúlkunnar voru ekki lengur hvít og húð hennar var ekki lengur hvít.
Allt var útatað blóði dóttur hennar.
Hún sat á gólfinu með brotinn blómavasa, sem einu sinni hafði verið hvítur, í hægri hönd.
,,Engir litir!” öskraði hún.
,, Það eina sem ég sé eru hvítir veggir, hvít föt, hvítir blómavasar og hvítir læknar. Það eina sem mig dreymir eru hvítir gangar, hvít herbergi og læknar í hvítum fötum. Meira að segja húðin mín er hvít.
En mér finnst rauður fallegur litur.”