Úlfur í sauðagæru – bók eitt: Orsakavöld



Inngangur.
Hér skrifa ég fyrsta kaflann í sögu minni sem ég ætla að sjá fyrir endann á, á næstu mánuðum eða ári. Þetta er fyrsta tilraun mín til þessa að skrifa sögu, en ég vonast eftir góðum árangri. Hugmyndina fékk ég bara einn góðann veðurdag. Allar persónur í þessari sögu eru uppskáldaðar, sérhver svipuð og/eða sameiginleg einkenni og atburðir, með mönnum lifandi og dauðum, eru hreinar tilviljanir. Einnig eru mörg staðarnöfn uppskálduð. Já og meðan ég man. Ef ég ætti að segja eitthvað um söguna, þá væri það mildur ævintýra sci-fi og kannski svolítil vitleysa og mun hún vera virkilega súr á köflum, en best að segja ekki of mikið. Ég geri mér einnig fulla grein fyrir því að notkun ritmálsins gæti verið ófullnægjandi á stöku stað, en þá er það fyrir mín eigin mistök og er fólki frjálst að benda mér á það, ef svo er gert í vinsamlegum og sanngjörnum tón. Endilega gefið síðan ykkar skoðun á sögunni og ef þið viljið getið þið komið með tillögur að söguþráðum eða breytingum. Þótt ég sé nokkurn veginn búinn að fastmóta hugmynd mína að sögunni er ég opinn fyrir góðum punktum. Ég er búinn að leita á gegnir.is að bók sem heitir Úlfur í sauðagæru en fann enga og geri því ráð fyrir að ég megi nota þetta nafn. Það eina sem ég fann var bók um Enterokokka í lyfjafræði sem bar heitið Úlfar í sauðagærum. Og að lokum; þrátt fyrir að sagan komi til með að stangast á við marga hluti í raunveruleikanum, þá er ég sjálfur maður staðreynda og trúi engan veginn á svona hluti, en skrifa um þá samt. En nóg komið af bullinu í mér.
Njótið.

Kafli1:athugasemd = það gæti verið svolítið ruglandi að svissað er mikið á milli tíma og aðstæðna í frásögninni. Try to keep up :D



Kafli 1:Hver er sinnar gæfu smiður.

Víðir sat á stólnum upp við vegginn, niðursokkinn í eigin hugsanir, þegar afgreiðsludaman hrópaði lukkutöluna.
-“Nr.37 er vinsamlegast beðinn um að koma að þjónustuborði, nr. 37”. Víðir reis upp og studdi sig við gulan vegginn er hann svimaði þegar blóðstreymið leitaði frá hausnum niður í tær, við það eitt að standa á fætur. Var hann gjörsamlega búinn að missa allt tímaskyn eftir að hafa setið á sama stað í rúma klukkustund og horft fram fyrir sig. Hann leiddist alltaf að lesa draslið sem stóð til boða í Heilsugæslunni. “Mikið var!” , hugsaði hann. Hugmyndin sú um að röðin væri loksins að sér komin skolaðist í burtu er aðrar hugsanir leituðu á hann.

Fyrir rúmu ári síðan hafði Erla móðir hans greinst með alvarleg einkenni geðhvarfasýki. “Það er það sem sálfræðingurinn hafði sagt. Geðhvarfasýki.” Víðir átti erfitt með það að gera sér fulla grein fyrir merkingu þessa orðs fyrstu vikurnar en kom þó til sjálfs síns og horfðist í augu við vandamálið. Honum fannst samt sem áður votta af ósanngirni í þessu öllu saman. Fyrst deyr faðir hans eftir 6 ára baráttu við alkóhólisma og lömunarveiki og síðan greinist móðir hans með geðhvarfasýki.

-“Nr. 37 er vinsamlegast beðinn um að gefa sig fram!”
Víðir rétti að fullu úr sér og hóf að ganga hægum skrefum, annars hugsi, að afgreiðsluborðinu til þess að rétta konunni miðann.

-“Þegar litið er til lengri tíma gætu kvillarnir magnast og sjúklingurinn lokað sig af. Ég býst ekki við því að það verði hjá því komist.”
Víðir gat ekki stillt sig um að liggja á hleri og á hurðinni var rifa hvort eð er. Mamma hans var þegar komin að anddyrinu og byrjuð að klæða sig í brúnu dúnúlpuna sem faðir hans hafði gefið henni í jólagjöf.
-“Síðustu jólin með Grétari,” hugsaði hún. Víðir hallaði sér lengra upp að hurðinni þegar að rám karlmannsrödd svaraði.
-“Hvað um drenginn?!? Þú getur varla ætlast til þess að hann þurfi að lifa við þetta eftir allt sem… allt sem hann hefur mátt þola! Hann… fjandinn hafi það!” sagði maðurinn og lækkaði röddina svo að nánast mætti heyra. “…hann má ekki við þessu. Þetta á eftir að brjóta hann gjörsamlega niður.”
Svarað var að bragði: “Við þurfum samt sem áður að gera ráð fyrir að… hmm… hvernig gæti ég orðað þetta? Já, við gætum þurft að koma drengnum fyrir hjá fósturfjölskyldu.”
Maðurinn með rámu röddina hló með hálfbrostinni röddu og sagði: “Gerir þú þér grein fyrir kaldhæðninni í því… ég meina… ég veit alveg af því hvernig hann er tilkominn en… hvað ef að ég gæti…”
Víði brá þegar að mamma hans togaði í hann.
-”Við erum að fara, ekki bara sitja þarna og góna út í loftið. Heiðar frændi kemur eftir smá stund.” Víðir stóð upp úr stólnum sem hann hafði mjakað nær hurðinni og dustaði rykið af buxnaskálmunum.
-”Hvað meinar hann með því, hvernig ég væri tilkominn?” Var honum hugsi. Hann var tilbúinn að rífa hurðina upp á gátt og krefjast svara þegar að mamma hans hóstaði aftur og hann gerði sig reiðubúinn í að fara.
-”Ertu ekki á leiðinni elskan mín. Þú átt eftir að fara í skóna og svo held ég að þú ættir að fara í sturtu þegar að þú kemur heim. Þú átt eftir að enda jafn skítugur og hann Ásbjörn frændi. Þú vilt ekki verða eins og hann frændi þinn, þótt góður maður sé. Svo líka á hann…” Víðir hætti að hlusta og var að fullvissa sig um að mamma hans vissi ekki af því að hann hafði verið að hlera.
-”Allt í lagi, allt í lagi! Ég er að koma.”

-”Nr. 37” Víðir datt aftur inn í veruleikann.
-”Ehh.. já. Gjörðu svo vel”
-”Það gera 2500 kr.” sagði konan. Víðir borgaði þegjandi og hljóðalaust og labbaði síðan á eftir læknisfræðinema í óþægilega blárri peysu sem hafði bent honum á að koma.
-”Sestu hér í stólinn væni og bíddu í svona þrjár mínútur.”
-”Frábært” hugsaði Víðir. “Enn meiri bið.” Hann hallaði sér aftur og andvarpaði.

Hurðinni á kennslustofunni var hratið upp og inn kom illa rakaður svarthærður maður í gráum jakkafötum með regnhlíf í annarri hendinni. Íslenskukennaranum varð svo mikið um og ó að hann missti krítina.
-”Það er eins gott að þú hefur góða ástæðu til þess að trufla kennslustundina svona. Við vorum að læra um andlagsstýringu sagnorða og…”
Maðurinn hallaði sér upp að íslenskukennaranum í flýti og hvíslaði eitthvað í eyra hans. Víðir sem hafði horft út um gluggan og dottað vaknaði loks til lífsins og ákvað að fylgjast með hvað væri í gangi. Honum brá heldur betur þegar að hann sá Heiðar. Hann hætti að standa á sama þegar að íslenskukennarinn leit út eins og hann hefði verið sleginn utan undir. Þessi óhagganlegi maður.
-”Jú,jú! Að sjálfsögðu!” sagði Ragnar íslenskukennari “Að sjálfsögðu!”
-”Víðir, komdu með mér! Þetta er áríðandi!” Allir í bekknum steinþögðu.

-”Jæja. Þá erum við búin að skrá þetta í gagnagrunninn og ekkert er því okkur að vandbúnaði.” Nýneminn í bláu peysunni kom inn í litla herbergið sem Víðir var í og benti honum á að rétta út hægri handlegginn og hafa hann máttlausan á stólarminum. Bundið var snæri ofarlega við öxlina á Víði.
-”Jæja. Ertu nokkuð hræddur við nálar kallinn minn?” Nýneminn setti upp frekar þvingað bros. Víði varð hugsi hvort hann þyrfti að vera svona vinalegur við alla þá sem til hans koma.
-”Neinei, ég er nú einu sinni 16 og hálfs árs.”
-”Allt í lagi, ég var nú ekki að gefa neitt í skyn. En leyfist mér að spyrja. Afhverju ætti 16 og hálfs árs drengur að vilja fara í leynilega blóðgreiningu. Heldur þú að þú fengir ekki samþykki foreldra þinna?”
-”Uhh… ég veit það ekki.”
-”Ókei ókei, ég skal ekkert vera að kvelja þig með svona spurningum. Þú hefur allan rétt til þess að gera þetta.” Nýneminn saup á eplasafanum sínum sem hann hafði meðferðis og sneri sér síðan aftur að Víði, stakk nálinni í hann og opnaði fyrir lokuna sem hélt aftur af blóðflæðinu inn í hylkið.

-”Hvað?!? Hva… Hvað ertu að segja? Þú… þú getur ekki… þú…” Víði vafðist tungu um tönn og hann byrjaði að naga á sér efri vörina með ákafa.
-”Víðir minn. Ég veit að svona hlutir eru erfiðir og ég veit…”
-”Veistu eitthvað um það?!? Ha? Veistu nokkurn skapaðan hlut um það? Ertu kannski bara að segja mér þetta, að þú vitir hvernig mér líður, til þess að reyna að láta mér líða betur?!? Hvernig… mér líður ekkert… ég meina…”
-”Víðir. Víðir! Horfðu á mig. Ég veit hvernig þetta er. Þetta er í ættinni. Pabbi minn og mömmu þinnar, ehh… afi þinn. Hann átti við sama vandamál að stríða.” Það var eitthvað við þessa setningu sem Víði fannst ekki passa. Heiðar virtist ekkert taka eftir því og hélt áfram.
-”Ég er líka búinn að tala við Svavar.”
-”Hver er Svavar?”
-”Svavar er sá sem lagði til að þú yrðir settur í umsjá fósturfjölskyldu og ég ræddi við hann um að fá að…”
-”Bíddu bíddu hægur. Er Svavar þessi sálfræðingur sem talaði við mömmu hitt í fyrra? Og hvað var svona kaldhæðnislegt við það, hv- hverra manna ég væri kominn?”
-”VARSTU AÐ HLERA ÞEGAR AÐ…” sagði Heiðar hastur, en lækkaði þó róminn þegar að hann sá svipinn á Víði. Gangavörðurinn gráhærði starði á þá í smástund en hélt síðan áfram sinni för í átt að ræstiskápnum.
-”Hver andskotinn drengur! Þú mátt ekki… þú… ohh! Það… það er meira inn í dæminu heldur en þig grunar og ég…” Heiðar skellti saman gómum og starði á hann. Víði leist ekki á blikuna og horfði hálftómum augum út í loftið og rétt kipraði varirnar í hljóðlausu hvæsi.
-”Það er eins gott að ég fái að vita hvað er í gangi. Ég hef allan rétt til þess!”
-”Fínt. En ég skal bara segja þér að það er margt meira en þig grunar í gangi og þú vilt örugglega ekki vita helminginn af því.”

Víðir fann hvernig losnaði um þrýstinginn í hendinni þegar skrúfað var frá hylkinu og hann horfði á blóðið seytlast inn.
-”Ahh, þarna. Fimmtíu millilítrar. Hvorki meira né minna. Svo er það bara eitt í viðbót. Þú þarft að setja þennan pinna upp í munnvikin og renna bómullinni eftir innanverðri kinninni og settu pinnan síðan ofan í þetta glas hérna þannig að endinn snúi upp.”
-”Uhh, allt í lagi” sagði Víðir og gerði eins og honum var sagt. Af því loknu tók nýneminn bæði blóðhylkið og pinnaglasið og setti upp á rönd í hvíta öskju og innsiglaði hana með strikamerki.
-”Jæja kallinn minn. Þar sem þetta er gert í fullri leynd þá hefur þú um tvennt að velja til þess að halda því þannig. Venjulega gerum við ekki svona lagað, en ég fékk leyfi frá yfirmönnum mínum til þess. Annaðhvort mætir þú hingað á fyrirfram ákveðnum tíma eða þá að þetta verður sett út á bak við rauða gáminn við norðanverða bygginguna kl 9 þarnæsta kvöld.”

-”Jæja?” spurði Víðir.
-”Jæja hvað?”
-”Ætlar þú ekki að segja mér hvað er í gangi?”
-”Viltu gefa mér smá tíma. Ég er að reyna að setja þetta allt saman í hausnum á mér.”
-”Þetta getur ekki verið svo…”
-”Bíddu bara rólegur. Ég þarf að raða þessu saman.”

-”Jæja, ég er farinn út. Bless í bili,” sagði Víðir og klæddi sig í hettupeysuna sína.
-”Ekki vera lengi Víðir, þú veist að klukkan er 8 og ég vil að þú sért kominn stundvíslega heim.”
-”Í guðanna bænum Harpa, hann er 16 eða 17 ára gamall. Víðir minn, vertu ekkert að hlusta á hana frænku þína, hún man bara ekki hvernig það er að vera unglingur,” sagði Heiðar og hló lágt.
-”Hann á samt ekkert að vera að þvælast úti til klukkan 3 á næturnar. Það er óhollt fyrir hann. Svo vaknar hann ekkert á morgnana.” sagði Harpa og fitjaði upp á nefið.
-”Takið því bara rólega. Ég ætlaði bara að fara að hitta hann Reimar og kannski Sævar líka. Bara í smástund. Ég verð kominn heim um svona 10.” Heiðar og Harpa kinkuðu lauslætislega kolli en Vigdís frænka hélt bara áfram að borða.
Víðir labbaði niður Vallargilið þungt hugsi. “Innan skamms fæ ég að vita betur hvernig ég er tilkominn.”

-”Ertu alveg viss um að þú viljir heyra þetta. Frá þessu verður ekki aftur snúið.”
-”Hversu oft þarf ég að segja þér já. Ég vil vita þetta. Ég hef rétt til þess.”
-”Allt í lagi. Ég skal segja þér það sem ég get og vil.”
-”Hvað meinar þú með…”
-”Ekki grípa fram í! Víðir… þú sko… hérna…” Heiðar byrjaði að anda hraðar og varir hans herptust. “Grímur og Erla eru ekki alvöru foreldrar þínir.”
-”Ha?!? Hvernig getur það… afhverju segja mér það núna en ekki…” Víðir draup höfði í smástund og leit síðan aftur upp með blöndu af undrun og reiði. “Ertu að segja mér að ég sé ættleiddur og enginn lét mig vita af því.”
-”Ekki beint Víðir.”
-”É- ég skil ekki.”
-”Ég get ekki beinlínis sagt að þú sért ættleiddur þar sem… sjáðu til. Veistu nokkuð hver Olga Rán er?”
-”Er það ekki systir þín sem lést fyrir… ertu að segja..?”
-”Já. Hún Olga var raunveruleg móðir þín.”
-”Þannig að… þannig að Grímur var ekki raunverulegur faðir minn og Erla er systir móður minnar?”
-”Já.”
-”Hver er þá alvöru faðir minn? Hvað hét hann eða hvað heitir hann? Er hann ennþá á lífi?” spurði Víðir með kökkinn í hálsinum.
Heiðar hrukkaði ennið lítillega og renndi hendinni yfir gránandi hárið og klóraði sér síðan í hnakkanum. “Tja, hérna er komið í það efni sem ég vil ekki segja þér.”
-”EN AFHVERJU!”
-”Víðir. Suma hluti er best að þegja yfir. Það mun ekki veita þér neina huggun né hugmynd að vita hver þessi maður var.”
-”Svo hann er látinn.”
-”Ahh.. ég hálfpartinn missti það út úr mér en jú. Víðir. Gerðu það fyrir mig og láttu þetta kyrrt liggja.”
-”En ég þarf… ahh… shit. Allt í lagi,” sagði Víðir og lét axlirnar síga. Eftir langa þögn spurði Víðir: “Hvað með mömmu… hana Erlu?”
-”Hún…” sagði Hreiðar og fól andlitið í greipum sér, hallaði sér aftur á stólnum og saug hressilega upp í nefið áður en hann lét hendurnar falla niður með síðum aftur, “hún er sterk kona en… meðferðin hefur ekki þau áhrif sem ætlast var til. Lyfin hennar eru hætt að virka og hún á erfitt orðið með það að hafa samskipti við fólk. Sálfræðingarnir eru ekki lengur vissir um hvort þetta sé í raun Geðhvarfasýki, en það virðist vera of seint þar sem þeir ná ekki sambandi við hana.”
Tár mynduðust í augum Víðis og hann spurði, “Ég vissi ekki… ég meina… ég vildi ekki heimsækja hana því að ég treysti mér ekki í það en ég vissi ekki að þetta myndi enda svona. Ég þorði ekkert að grennslast fyrir um hana.” sagði Víðir og titringur fór um hann.
Eftir stutta þögn spurði Víðir: ”Þarf ég virkilega að fara til fósturfjölskyldu?”
-”Tja, Svavar sagði að þú værir líklegast of gamall til þess að sætta þig við nýja fjölskyldu sem þú þekktir ekki neitt, þannig að ég lagði til að þú myndir vera hjá okkur. Ásbjörn frændi þinn er orðinn of gamall til að annast þig til frambúðar, þótt hann virðist búinn að gera það ágætlega hingað til. Þú flytur inn í gestaherbergið. Þar ætti að vera nóg pláss fyrir þig og mest af þeim eignum sem þú átt og þarfnast.”
Víðir starði lengi vel út í loftið tómum augum og spurði síðan: “Hef ég einhverra kosta völ?”
-”Ég… er ekki viss. Ég veit það ekki.” svaraði Heiðar

Víðir dróg með sér og sparkaði til stórum snjóköggli sem hann fann til hliðar á gangstéttinni. Eitthvað nagaði hann að innan. “Er þetta rétt? Á ég kannski að hætta við núna?” Hann leit á gamla Squinix tölvuúrið sitt. “21:07” Klukkan gæti verið vitlaus.
-”Ég veit að ég klúðraði málunum smávegis með öllu þessu leynistandi herra Grádal, en ég hef komið gildru að honum til þess eins að fá hann hingað aftur.”
-”Ekki svona hátt fábjáni. Þú veist að ég má ekki við því að missa þennan. Söger gæti orðið reiður og ég á ekki að þurfa að minna þig á hver fjármagnar þetta og borgar okkar launin. Ef þú hefðir spilað þetta rétt þá hefði hann ekki runnið þér úr greipum.”
-”Fyrirgefðu herra Grádal.”
-”Aftur segi ég. Ekki svona hátt. Og settu niður fjandans boxið, hann gæti komið hvenær sem er.”
Víðir horfði á eftir manneskjunum tveimur ganga aftur inn um bakdyrnar á heilsugæslunni. Hann hafði stokkið til hliðar í visinn runna þegar að hann heyrði hurðina opnast. Hann kannaðist við ‘fábjánann’. Það var nýneminn í bláu skyrtunni. En hvað herra ‘Grádal’ varðar. Þá vissi hann ekkert hver það var. Hann faldi sig lengi vel í runnunum. “21:25. Ætti ég að fara þangað. Hvaða gildra? En… ég þarf að vita þetta. Hvað ef ég er að ímynda mér þetta? Ég þarf að fá meiri svefn.”
Víðir lét síðan eftir forvitninni og nálgaðist öskjuna við rauða gáminn. Hann opnaði hana og hörfaði skyndilega. “Heh. Ég bjóst við að þetta myndi springa eða eitthvað svoleiðis.” Víðir komst að því að allt sem í öskjunni var passaði nákvæmlega í það sem um hafði verið samið. DNA greiningin. Á miða stóð:
-Olga Rán Vilhjálmsdóttir, f. 4.september(1978) d. 12.júní(1994)
-Benedikt Grettisson , f. 18. nóvember(1975) d. 28.júní(2004)
-”Ha? Var faðir minn á lífi fyrir 5 árum?” hugsaði Víðir.
Þegar Víðir skoðaði öskjuna sá hann að blóðgreininguna vantaði. Í staðinn var smá pappírssnifsi sem á stóð: “Tafir urðu á blóðgreiningunni. Þú þarft að koma til okkar aftur í fyrramálið herra Víðir Þór Benediktsson.”

Endir kafla 1