Leiddist eitt kvöld og ákvað að skrifa eitthvað sem hafði blundað í mér lengi, þótt ég vissi ekki alveg hvert ég væri að fara með það.

———————
Ég er sirena.
Í alvöru. Ég er tálkvendi; fædd til þess eins að vekja athygli, heilla, ljúga, pretta og svíkja.
Þrátt fyrir ungan aldur má segja að ég eigi ágætan feril að baki, ófá hjörtu sem ég hef dregið að mér með augnaráðinu einu saman; heillað algjörlega upp úr skónum, fólk sem hefur enganveginn getað losnað mig úr huga sér; hefur ekki getað séð sólina fyrir mér, ekki getað hætt að hugsa um mig, þráð nálægð mína; þráð að heyra rödd mína, fá að snerta mig, komast nálæg mér - eignast mig algjörlega alla.
Byrjar allt í eintómri hamingju en síðan, skyndilega; upp úr þurru, þegar fólk á síst von á – ríf ég hjartað úr því, rispa það, krem, mölbrýt og flegi síðan til baka með bros á vör.
Þannig á ég að vera. Þess er einfaldlega ætlast að mér.
Finna mér fórnarlömb, fara djúpt í huga þeirra og lesa í meðvitundina hvernig ég eigi að fara að, láta síðan til skara skríða. Eyðileggja líf. Tortýma.
Ekki kalla mig vonda. Ég er ekki kaldhjörtuð. Í alvöru.
Ég bað ekki um að fæðast, og þá sérstaklega ekki svona. Ég get ekkert að þessu gert.
Mér var stillt upp við vegg strax og færi gafst og ég get hvorki hreyft legg né lið.
Þú getur ekki ímyndað þér hversu sárt það er fyrir mig að þurfa að fara djúpt í fólk og finna fyrir öllu sem það hefur gengið í gegnum; sjá öll ljótu orðin sem voru sögð, fóru beint í hjartað á fólki og rifu í það; synda í gegnum allar minningarnar og fara hægt í gegnum líf fólks; horfa á brostna drauma, loforð sem voru svikin, nagandi lygar, ágirnd sem át sig í gegnum alla skynsemi, vonir sem urðu að engu…
Ég kem inn í líf fólks og smátt og smátt fylli ég upp í tómarúmið í lífi þess.
Nærvera mín fær það til þess að horfa framhjá öllum sorgum og mistökum, og fær það til að einblína á allt það góða sem lífið hefur upp á að bjóða.
Ég fæ fólk til þess að horfa fram á við; fyllast von um bjarta framtíð, gleyma því gamla og byrja algjörlega upp á nýtt. Líf laust við alla gamla drauga, laust við byrgðina, vandamálin og þá djöfla sem það hefur þurft að draga í gegnum tilveruna.
Ég er ljósið í lífi þess. Tilgangurinn; þessi sem gerði þeim ljóst að lífið hefur upp á svo miklu meira að bjóða en eintómt myrkur.
Síðan - þegar það er algjörlega grunlaust í hamingjunni – læðist ég að þeim aftan frá og brýt það algjörlega niður.
Ég nota orð; klóra mig í gegnum alla gleðina og ríf og tæti allt sem ég hef byggt upp. Hlæ af þeim, hæðist að þeim; sannfæri þau um hversu tilgangslaus þau eru. Segi þeim að hvert einasta atriði frá mér hafi verið lygar; ekkert nema helvítis lygar.
Hræki framan í þau, og síðan skil ég þau eftir. Alein.
Ég er ekki kaldhjörtuð. Í alvöru. Mér finnst það viðbjóðslegt þegar ég sný baki við því, eftir að hafa mölvað niður alla lífshamingju, og heyri þau öskra nafnið mitt.
Örvæntingarfull, sár, stundum reið – en verst þykir mér þegar hrein sorg skín í gegn.
Hún fer beint í gegnum mig og skilur eftir sig djúp ör.
Ég græt eftir á.
Vil ekki vera svona. Vil ekki þurfa að ganga í gegnum þetta aftur og aftur.
Ég hef virkilega fundið fórnarlömb sem ég hef tengst tilfinningalega. Örfá að vísu, en nógu mörg til þess að finna að með hverju skiptinu sem ég braut einhvern niður, hataði ég sjálfa mig meira, heitar og innilegra.
Ég var heldur ekki að ljúga að þeim sem ég tengdist. Þegar ég var að sýna þeim fram á hversu mikils virði líf þeirra væri, þá leið mér vel. Ég var að hrósa fólki sem ég vildi virkilega hrósa og að liði vel.
Þessvegna hreinsa ég allt út. Ég vil ekki muna eftir andlitunum sem mér þótti vænt um; sjá svipinn á þeim þegar ég brást þeim, niðurlægði þau.
Ég hef oft velt því fyrir mér að stytta líf mitt; enda þennan lygavef sem ég lifi í.
Ekkert nema eintómar blekkingar, aftur og aftur.
En ég vil ekki bregðast mínum líkum. Hinum.
Ég er samt ekki kaldhjörtuð. Í alvöru