—–
Mistök.
Ég leit á hana þar sem hún lá svo sakleysisleg,steinsofandi í mjúkum tausófanum. Vissi ekki hvað beið hennar. Ég hinsvegar vissi það.
Í framtíðinni.
Eirðarleysið heltók mig og ég tók snögga ákvörðun um að skella mér í sturtu. Hún rumskaði örlítið þegar ég stóð upp úr sófanum.
,,Ég ætla í sturtu‘‘ hvíslaði ég.
,,Allt í lagi‘‘ muldraði hún hálfsofandi og sneri sér á hina hliðina.
Ég greip slitið handklæði af ofninum og hengdi það upp við hlið sturtuklefans. Það var eitthvað svo notalega venjulegt að heyra vatnið skella á sturtubotninum. Mér leið næstum því eins og ég væri venjulegur. Sú tilhugsun var þægileg en mér tókst ekki að blekkja sjálfan mig lengi. Áhyggjurnar tóku völdin á ný þegar ég steig undir bununa. Ég bókstaflega fann svitann renna burt með hreinu vatninu og minningarnar fór að ásækja mig. Það sem gerðist fyrir nokkrum klukkutímum síðan.
Mistök eru til að læra af þeim. Ég var búin að gera þessi mistök en ákvað að gera þau aftur án þess að svo minnsta sem hugsa um afleiðingarnar.
Ég lækkaði hitann. Algjör óþarfi að ofnota heita vatnið. Hrollurinn skreið upp bakið á mér og ég teygði mig í þvottapoka og skrúbbaði vandlega á mér andlitið. Reyndi að skrúbba burt hugsanirnar í leiðinni.
Morðingi.
Ég dæsti og slökkti á vatninu. Vildi að ég gæti bráðnað niður í niðurfallið og skilið áhyggjurnar eftir. En ég neyddist til að þurrka mér með skítugu handklæðinu og klæða mig í illa lyktandi fötin mín á ný.
Hún var vöknuð þegar ég kom af baðherberginu. Hún var áhyggjufull á svipinn og þá vissi ég að hún hafði uppgötvað mistök mín.
,,Fyrirgefðu…‘‘ muldraði ég.
Hún setti upp undrunarsvip og hló svo.
,,Fyrirgefðu? Hvað gerðirðu af þér?‘‘ spurði hún flissandi.
,,Ég veit það ekki, afhverju varstu með þennan áhyggjusvip?‘‘ spurði ég og leið eins og hálfvita. Hún stóð upp af sófanum og tók í höndina á mér.
,,Ég bara veit ekki hvernig við eigum við að fara að þessu. Við erum gjörsamlega blönk‘‘
Svo innilega sakleysisleg.
,,Við finnum ráð‘‘ sagði ég og gekk vægast sagt ömurlega í að vera hughreystandi.
Hún hikaði.
,,Sérðu eftir þessu?‘‘ spurði hún hálfhvíslandi röddu.
Ekki þessa spurningu, af öllum spurningum.
,,Já,‘‘ svaraði ég ,,dauðsé eftir þessu‘‘

-Árið 1982, 17. Nóvember-
,,Stjóri, við fundum barn‘‘
,,En hvað ég er hissa, hvað er barn að gera á fæðingarheimilinu?‘‘ kaldhæðnin leyndi sér ekki.
,,Þetta er ekkert venjulegt barn‘‘
,,Hvað meinarðu?‘‘
,,Það stendur á miða þess að það hafi fæðst 16. Nóvember árið 2013‘‘
,,Klúður‘‘
,,Við gerum ekki svona klúður. Þar að auki er undirskriftin fölsuð eða eitthvað, þessi kona vinnur ekki hérna að minnsta kosti‘‘
,,Komdu með barnið‘‘
Hjúkrunakonan hvarf fram í smástund og kom til baka með mig í fanginu.
,,Ertu búin að fletta upp foreldrum barnsins?‘‘
,,Já, þau eru ekki á skrá hérna en…‘‘
,,En?‘‘
,,Ég kannast við nafn móðurinnar‘‘
,,Hvernig? Hver er hún?‘‘
,,Ekki reiðast en systir mín á dóttur með sömu kennitölu og sama nafn‘‘
,,Unglingaólétta?‘‘
,,Útilokað, hún er tveggja ára‘‘
,,Ertu að reyna að vera fyndin?‘‘

Í marga mánuði var reynt að finna almennilega skýringu á þessu. Fólk talaði um yfirnáttúruleg öfl og háþróað fólk úr fjarlægðri framtíð hafi sent þetta barn til þeirra til að miðla þekkingu framtíðarinnar til fortíðar.
Lögreglan sagði einfaldlega; Fölsun.
Fjölmiðlararnir hættu ekki fyr en löngu eftir að mér var komið fyrir á munaðarleysingjahælinu.

-Árið 1983, 2. Febrúar-
Ég hafði komið mér vel fyrir í þykku teppi. Eitthver hélt fast utan um mig og muldraði þægileg orð til mín af og til. Þrjú stutt bönk og svo hurð opnuð.
,,Er pláss fyrir nokkra mánaða strák hjá ykkur?‘‘ spurði röddin sem hafði talað reglulega til mín undanfarnar mínútur. Tyggjókúla sprakk og soghljóð heyrðist þegar eitthver endurheimti tyggjóið upp í munn sinn.
,,Að sjálfsögðu‘‘ sagði konurödd. Há rödd og miklu notalegri en þessi sem hélt á mér.
Lögreglumaðurinn rétti konunni mig og hvarf svo sjónum mínum. Mér fannst ég vera einn og yfirgefinn. Þar að auki var ég glorhungraður.
Svo ég reigði höfuðið aftur og orgaði af öllum lífs og sálar kröftum.
,,Ég er strax farin að kunna við þig‘‘ sagði konan. Andardráttur hennar var blandaður fiskilykt og allt of sætri tyggjólykt. Hún vafði teppinu utan af mér eins og hún væri að taka hýði utan af appelsínu. Þessi líking átti kannski vel við þar sem teppið var skærappelsínugult.
,,Ertu svangur, greyið mitt?‘‘

-Árið 1988, 29. Ágúst-
,,Keli!‘‘ kallaði smámælt rödd til mín. Ég ranghvolfdi augunum þegar ég sá hver hafði kallað.
,,Hvað?‘‘ svaraði ég álíka smámæltur.
,,Kemurðu í mömmó? Þú mátt vera pabbinn!‘‘ sagði hún og brosti svo sást í glænýju fullorðinstönnina hennar.
,,Ég vil ekki leika við stelpur‘‘ sagði ég og ullaði.
Viðbrögð hennar voru langt frá því sem ég hafði átt von á. Ég hafði annaðhvort átt von á því að hún færi að grenja og klagaði eða að hún strunsaði reiðilega í burtu.
En hún setti upp fullorðinslegt glott.
,,En Gunni sagði að þú værir skotinn í mér‘‘ sagði hún ögrandi.
Þú munt sjá eftir þessu, Gunni. Eins gott að finna flott svar.
,,Ég er of ungur til að vera pabbi‘‘ svaraði ég, smá fúll yfir að besti vinur minn hafði svikið mig.
Hún hló. Fallegar, rósrauðar kinnarnar afmynduðust örlítið þegar djúpur spékoppur myndaðist við munnvikið.
Þvílík fegurð.
,,Þessi leikur er til að æfa sig í að vera fullorðinn‘‘ sagði hún brosandi en hljómaði samt eins og þetta væri grafalvarlegt mál.
,,Ég ætla aldrei að eignast börn‘‘ sagði ég þrjóskur.
,,En eitthverntíman giftirðu þig og þá þarftu að vera vel æfður í að vera góður við konuna þína‘‘ sagði hún.
En gaman.
,,Ég ætla aldrei að giftast heldur‘‘
Núna fyrst var hún sorgmædd.
,,Ekki einu sinni mér?‘‘
Þú hlýtur að vera að grínast!
,,Allir að hátta sig! Kominn svefntími!‘‘ gargaði fóstran og ég sneri mér við í nokkrar sekúndur. Þegar ég leit aftur til baka var hún horfin ásamt spékoppunum sínum.
Ég bið hana bara fyrirgefningar á morgun.
Svo tók ég í höndina á fóstru minni og leyfði henni að leiða mig inn í herbergi. Hún hjálpaði mér að hátta mig og las svo myndabók fyrir mig.
,,Á morgun er fyrsti skóladagurinn þinn‘‘ sagði hún þegar hún hafði lokið við bókina.
Æði.
,,Mig langar ekki að byrja í skóla‘‘
,,Engar áhyggjur, þetta verður besti dagur lífs þíns‘‘ sagði hún hughreystandi. Stóð svo upp, slökkti ljósin og lokaði hurðinni.
Ég lokaði augunum og ímyndaði mér að ég væri að labba á tunglinu. Skyndilega varð mér rosalega heitt og henti sænginni af mér. Það breytti engu svo ég galopnaði gluggann og klæddi mig úr náttfötunum. Lagðist svo aftur í rúmið og lokaði augunum á ný.
Það liðu nokkrar mínútur.
Ljós. Of mikið.
Ég opnaði augun. Hitinn hafði hækkað heilmikið og ég var byrjaður að svitna á fullu. Herbergið var fullt af gráleitu og björtu ljósi. Ég stóð á fætur og ætlaði að slökkva á ljósinu, þrýsti á slökkvarann en þá kom bara meira ljós svo ég slökkti aftur. Þá sá ég að ljósið kom frá mér. Húðin var sjálflýsandi og óhugnaleg.
Er ég að deyja?
Ég opnaði hurðina sem lá að ganginum og leit örvæntingarfullur á fóstruna sem átti að vakta ganginn þessa nóttina.
,,Er ekki allt í lagi, Hrafnkell minn?‘‘
Hún virti mig áhyggjufull fyrir sér.
,,Ertu veikur?‘‘ spurði hún.
,,Ég er að deyja‘‘ sagði ég.
Áhyggjurnar í augnaráði hennar margfölduðust og hún hrópaði á hjálp.
Þá kom meira ljós og ég blindaðist í smástund. Þegar ég opnaði augun stóð ég á túni, berfættur og á nærbuxunum einum. Þessi dagur var svo sannarlega ekki besti dagur lífs míns.