Skáletraði textinn eru minningar eða atburðir sem gerðust áður. Hefðbundni textinn er síðan ‘nútími’ sögunnar.
Bara til þess að fyrirbyggja misskilning.

———————————————————–

Hann greip í hálsmál hennar um leið og hún gekk inn og þrykkti henni upp að veggnum.
„Svikula drusla,“ hreytti hann í hana og gekk inn í eldhúsið. Hann opnaði ísskápinn og náði sér í bjór.
Hún stóð grafkyrr í sömu sporunum og hjartað barðist í brjóstinu.„Heldurðu að ég viti ekki með hverjum þú varst!“ sagði hann.
„Heldurðu að ég sé heimskur!“ bætti hann við öskrandi. Hún sagði ekki neitt, þorði það ekki,
sama hvað hún segði það væri rangt. „Helvítis dræsan þín!“ öskraði hann um leið og hann greip í hana og hrinti henni í gólfið,
ennið skall á borðbrúnina í fallinu. Tárin þrýstu sér fram í augnkrókana og kökkurinn í hálsinum var óbærilegur
en hún þorði ekki fyrir sitt litla líf að gráta. Hann sparkaði í hana og reif hana síðan á lappir.
Hún fann augnaráð hans stingast í sig en þorði ekki að mæta því.
Hann greip um háls hennar og þrýsti henni upp að veggnum. Hún leit á hann biðjandi augum.
„Ég veit að þú svafst hjá honum,“hvíslaði hann að henni. „Þú ert ógeðsleg, viðbjóður, ég ætti að fara frá þér,“
bætti hann við. Hún gat ekki andað lengur. Hann sleppti takinu og kýldi hana harkalega í andlitið. „Viðbjóður.“
sagði hann með fyrirlitningu og gekk í burtu.


Hún sat í bílnum, föst í umferðaröngþveiti, heitt mollulegt loftið inni í bílnum var slævandi. Fyrir utan reif vindurinn harkalega í berar greinar þeirra örfáu trjáa sem hafði verið plantað í vegkantinum. Grá skýjabreiðan gaf litatóninn fyrir umhverfið og vísbendingu um hugsanlega rigningu.
Allt í kringum hana sat fólk fast í bílum sínum, þjakað af þyngslum hversdagsins og þráði ekkert frekar en að komast heim.
Allt í einu fannst henni þetta yfirþyrmandi; niðurdrepandi umhverfið, innantómt líf. Hún slökkti á miðstöðinni og skrúfaði niður rúðuna.
Hún varð að vakna, hrista af sér slenið, það var meira í húfi en bara hún sjálf. Nú var komið að því að hún rifi sig út úr þessu vonleysi og tæki stjórnina í sínar hendur.
Hún lagði bílnum í stæðið hans fyrir framan bílskúrinn og flýtti sér inn. Hún lagði úlpuna á stólbakið í eldhúsinu og gekk rakleiðis inn í litla geymsluna, náði í tvær ferðatöskur og fór með þær upp í rökkvað svefnherbergið.
Hvernig hafði honum tekist að festa hana í þessu völundarhúsi. Hún fór að hugsa til baka. Hann hafði gert sig að guði í hennar augum, brotið hana niður svo að hún liti upp til hans. Ekkert var nógu gott, hún var aldrei nóg. Ekki nógu klár, ekki nógu góð, ekki nógu sæt, ekki nógu grönn. Því meira sem hún reyndi að þóknast honum því meira braut hann hana niður.
Hún opnaði kommóðuskúffuna og fór að pakka niður fötum. Þegar hún fór að fasta fannst henni hún sterk, nógu sterk. Þegar hún leyfði sér að njóta einhvers eða borða eitthvað fór hún að fyllast sektarkennd. Hún fór inn á baðherbergið og fékk nánast ofbirtu í augun. Hún slökkti ljósið yfir speglinum og fór að tæma úr hillum og skúffum.
Því verri sem hann varð, því lengri urðu fösturnar. Kannski, bara kannski ef hún grenntist eða ef hún gæti stjórnað því algjörlega hvernig hún borðaði. Kannski þá yrði hún nóg.
En nú hafði hún fengið styrk, núna átti hún von. Hún hafði fengið dýrmætustu gjöf sem nokkur gat hugsað sér og hann myndi ekki taka það frá henni.

Það barði einhver á baðherbergisdyrnar „Ertu að verða búin þarna inni?“
Gremjulegt kallið kippti henni upp úr hugleiðingum sínum.
Hún setti óléttuprófið í vasann, fór fram og reyndi að brosa að manninum sem beið.
Það var eins og fólkið á bensinstöðinni fyldi henni eftir með augnaráðinu, eins og þau vissu eitthvað.
Hún settist inn í bílinn og reyndi að setja í gang en hún var of skjálfhent.
Reyndi að anda djúpt til að róa sig niður en hún gat það ekki. Hún gat ekki eignast barn.
Ekkert barn átti það skilið að búa með honum. Ekkert barn átti skilið svona vanhæfa móður.
Hún gróf óléttuprófið upp úr vasanum og tárin fóru að streyma niður kinnarnar.
Hana hafði alltaf langað í börn, þetta átti ekki að fara svona. Hún varð bara að laga þetta.
Prófið var jákvætt.


Það voru liðin mörg ár síðan hún hafði heyrt í móður sinni en hún vissi að þau myndu taka henni opnum örmum. Þeim hafði aldrei líkað sérstaklega vel við hann og eftir að þeir faðir hennar lendtu í háfaða rifrildi hafði hann neytt hana til að gera upp á milli þeirra.
Þau vildu að hún færi frá honum og færi aftur í háskólann en blinduð af ást hafði hún talið sig hafa allt sem hún gæti viljað. Henni gramdist að þau vildu ekki taka í sátt manninn sem gerði hana hamingjusama. Þessvegna hafði hún misst sambandið við alla og smám saman einangrast.
Hún fór í gegnum allar hillur og skúffur í vinnuherberginu. Hann hafði alltaf haldið henni utanvið alla pappíra, fjármálin og allt það. Einhverstaðar átti samt að vera til bankabók sem hún hafði aðgang að. Hún blaðaði ómarkvisst i pappírsflóðinu, hvolfdi skúffum og rótaði í rykugum kössum. Ef hún hefði bara klárað háskólann, en honum gekk vel og hún þurfti ekkert að vinna. Niðurstaðan varð hlutastarf í móttöku, bara svo hún kæmist út úr húsinu á daginn. Hún dró frá gluggatjöldin og opnaði gluggann.
Hann vildi að hún hefði nægan tíma til að hugsa um heimilið og vera með matinn tilbúinn þegar hann kæmi heim. Hún dró djúpt andann og leit í kringum sig, það var þá sem hún kom auga á það. Auðvitað, geymdi hann allt sem henni viðkom efst í skápnum, svo að hún rækist aldrei á það fyrir tilviljun. Hún rótaði svolítið meira þangað til hún fann allt sem hún þurfti til að fara og snúa aldrei við.
Hún gekk um húsið í seinasta skipti, skimaði hvert herbergi eins og til að gá hvort hún hefði nokkru gleymt eða til að festa hvert smáatriði í huga sér. Þrátt fyrir allt þótti henni vænt um þetta hús. Það verið henni kærkomið skjól dagana sem hún hafði það ekki í sér að farða yfir marblettina, fara í vinnuna og láta sem allt væri í lagi. Þetta leit alveg nógu vel út í upphafi en einhverstaðar í leitinni að hamingju hafði hún týnt þræðinum og farið að sætta sig við eitthvað allt annað.
Hún fór með aðra töskuna út í bíl. Það var farið að rökkva þennan kalda október eftirmiðdag, ljósastauarnir hrukku í gang og reyndu sitt besta til að milda kalt haustið. Síðasta taskan stóð tilbúin í hlýlegu eldhúsinu fyrir neðan stigann. Hún gekk upp stigann og inn í vinnuherbergið til þess að pantaði sér sólarlandaferð. Hann myndi örugglega leita hennar fyrst hjá foreldrum hennar, svona myndi hún örugglega komast undan. Þetta var rétt ákvörðun, hún var viss um það, fyrir hana og fyrir barnið.

Útidyrahurðinni var skellt harkalega. „Hrönn!“ hann æddi inn öskuillur.
„Afhverju kemurðu því ekki inn í hálftóman hausinn á þér að þú átt ekki að leggja í stæðið mitt!“
Hún heyrði hann fara í eldhúsið og ná sér í bjór, síðan myndi hann fara inn í stofu og þá myndi hann sjá… „Hrönn!“
Spennuþrungin þöng fyllti upp í hvern krók og kima. „Hrönn, elskan, ertu að fara eitthvað?“
Uppgerð forvitnin var léleg tilraun til að fela reiðina, ef hún hefði bara flýtt sér… Hún gekk niður á stigapallinn, hjartað hamaðist í brjóstinu og hún var skraufaþurr í munninum. „Ertu að fara eitthvað!“ Hún hrökk við og reyndi að anda djúpt.
„Mig langaði bara að fara smá… Ég á inni sumarfrí og, og…“ „Hvert heldurðu eiginlega að þú ætlir?“ hreytti hann í hana í hæðnistón.
Hún leit niður í gólfið. „Kannski til mömmu eða…“ „Ætlarðu að svíkja mig,“ greip hann frammí fyrir henni. „Þú gætir allt eins stungið mig í bakið og snúið hnífnum.“ Hann leit á hana eins og hann gæti hvað á hverju byrjað að gráta.
„Ég, ég var ekkert búin að ákveða,“ útskýrði hún og settist í stigann. Hann spratt á fætur „Er það framhjáhaldið. Helvítis mellan þín!“ Hann greip bjórflöskuna af borðinu og grítti henni í gólfið. Grænt glerið splundraðist í allar áttir og froðan flæddi um allt þegar flaskann skall á flísarnar. Hún fann hvernig kökkurinn kom sér fyrir í hálsinum og tárin þrýstust fram í augnkrókana, ef hún hefði bara verið aðeins fljótari. Þetta varð að taka enda, hún gat ekki borið ábyrgð á að fæða saklaust barn inn á þetta heimili. „Ég geri allt fyrir þig,“ öskraði hann og kastaði keramik vasa af borðstofuborðinu í vegginn svoleiðis að myndirnar hrundu niður, rammarnir molnuðu og glerbrotin sáldruðust um öll gólf.
„Helvítis druslan þín, hver heldurðu að vilji þig annar en ég. Þú ert ekkert nema aumkunarverð lítil hóra sem enginn gæti viljað.“ Hún gróf andlitið í höndum sér þegar hann ruddi öllum pottablómunum úr gluggakistnni. „Ég gaf þér allt, allt sem þú gætir viljað og þetta eru þakkirnar sem ég fæ.“ Hann gekk í áttina að stiganum og hún stökk á fætur. „Þú getur ekki farið frá mér.“ Hvæsti hann um leið og hann gekk ákveðnum skrefum að henni upp stigann. Hún hörfaði og reyndi að skýla sér fyrir kjaftshögginu.
Hann grep í handleggna á henni, hristi hana og hrinti henni frá sér. Hún lenti með mjöðmina á handriðinu, kastaðist frammyfir og skall á steinflísarnar fyrir neðan.
[quote="Elie Wiesel"]"There may be times when we are powerless to prevent injustice, but there must never be a time when we fail to Protest!."[/quote]