Endurfundir
Ég vakna við hávært tíst í fuglum fyrir utan gluggann minn. Frábært. Enn einn sólríkur sumarmorgunn í Reykjavík. Allt öðruvísi en heima. Hér blæs aldrei almennilega. Ég sest upp og lít út um gluggann á litla kjallaraherberginu mínu. Grasið bærist ekki.

Klukkan er ekki nema fimm en ég finn ekki til þreytu og ákveð því að fara á fætur. Ég lít fram á gang. Enginn á ferli. Ég bursta tennur og gríp svo með mér ABT-mjólk úr eldhúsinu og fartölvuna mína.

Það er hlýtt úti þótt snemmt sé. Ég geng rösklega stutta spölinn niður á Austurvöll og sest þar á bekk. Ókeypis netaðgangur stendur á gangstéttinni. Gamla konan sem leigir mér herbergið hefur heyrt minnst á internetið en orðið þráðlaust er ekki til í hennar orðaforða.

Tveir rónar hafa komið sér fyrir á sitthvorum bekknum á móti mér en þeir veita mér enga athygli. Sennilega eru þeir steinsofandi. Kannski er það ekki oft sem þeir fá svona gott svefnveður. Af gömlum vana renni ég í gegnum venjulegu rútínuna mína, skoða tölvupóstinn minn, les nýjustu fréttirnar á mbl.is og skoða veðurspánna fyrir næstu vikuna. Það lítur út fyrir að rónarnir munu fá nægt tóm til að sofa.

Ég fer aftur inn á mbl.is. Klukkan er orðin sex og von á morgunfréttunum sem hrúgast alltaf inn á síðuna um þetta leiti. Ég rek augun í frétt sem ber fyrirsögnina Maður lést á Austurvelli. Ég lít í kringum mig. Allt kyrrt. Það lítur ekki út fyrir að neitt hafi átt sér stað hér. Ég kíki samt á greinina. Maður lést á Austurvelli á 7. tímanum í morgun. Dánarorsök er enn óþekkt. Ég lít aftur á klukkuna. Nei, fréttamennirnir hljóta að hafa gert mistök, enda er klukkan ekki nema nýorðin 6, og enginn hefur dáið hér ennþá.

Ég halla mér aftur á bekknum og nýt þess að láta sólina leika um andlitið á mér. Nú rumskar annar róninn á bekknum sínum. Hann sest upp, lítur undarlega á mig, og leggst svo niður aftur. Skyldi það vera hann? Ég hrekk upp frá hugsunum mínum. Hvað var ég eiginlega að pæla? Fréttir tala um liðna atburði, ekki óorðna.

Ég ákveð að endurhlaða síðuna. Kannski hefur einhver séð mistökin og lagfært þetta. En nú rek ég augun í aðra tilkynningu. Ráðist var á mann á Austurvelli á 7. tímanum í morgun. Þetta hlýtur að vera grín. Það er ekki verið að ráðast á neinn hérna! Ég lít ráðvilltur í kringum mig. Rónarnir liggja enn kyrrir á bekkjunum sínum og það er engan annan að sjá né heyra.

Hvað er ég að rugla, spyr ég sjálfan mig. Auðvitað er enginn að fara að ráðast á neinn hérna. Þetta er bara einhver fréttamaður á flippi. Kannski er hann að gera ráð fyrir að enginn sé vaknaður ennþá til að lesa fréttirnar og er bara að leika sér. Með það í huga sný ég mér að ABT-mjólkinni og hefst handa við að opna hana.

Nú rumskar hinn róninn. Ég hrekk við og missi allt múslíið á gangstéttina. Andskotans. Ég lít á rónann svolítið pirraður, mér finnst þetta vera honum að kenna. Hvað er hann líka að bregða mér svona? Róninn sest upp og mætir augnaráði mínu. Ég er fljótur að líta undan, vil ekki styggja hann.

Ég sný mér aftur að tölvunni minni. Ráfa á milli vefsíðna í smá stund. Ég sé útundan mér að róninn hallar sér aftur. Svo kíki ég aftur á mbl.is. Það hefur ekkert nýtt komið inn og mér til mikillar ánægju sé ég að búið er að fjarlægja þessar tvær greinar sem höfðu verið að vefjast fyrir mér. Ég finn fyrir létti. Það er ekki eins og ég hafi trúað á forspáar fréttir, en þetta var bara óþægilegt. Svona uggur á fallegum morgni.

Ég les frétt um stríðið í Írak og fer svo aftur inn á yfirlitssíðuna en hrekk í kút. Árásamanns á Austurvelli enn leitað. Hálfspenntur, hálf efins, ýti ég á tengilinn.

Árásarmanns á Austurvelli enn leitað

Eins og greint var frá í fyrri tilkynningum var ráðist á mann á Austurvelli á 7. tímanum í morgun. Hlaut maðurinn alvarlega áverka og lést stuttu síðar í sjúkrabíl á leið á Landspítalann. Árásrmannsins er enn leitað. Þeir sem hafa upplýsingar varðandi málið eru beðnir að hafa samband við lögregluna í Reykjavík.


Hvað er í gangi? Nú er mér ekki lengur sama. Það er eitthvað skrýtið að gerast hérna. Hvað sem það er ákveð ég að það sé ekki vert að vera hérna lengur. Betra að skella sé bara heim í kalda sturtu og hrista þetta rugl af sér. Ég loka tölvunni og ætla að standa upp þegar ég heyri rödd á bakvið mig.

- Sæll.

Ég hrekk við. Lít snöggvast á bekkina og sé að rónarnir liggja kyrrir. Svo lít ég aftur fyrir mig. Þar stendur maður, nokkrum árum yngri en ég sjálfur, kannski rétt kominn yfir tvítugt. Hann er skælbrosandi. Hann réttir mér höndina.

- Pétur.

Andartaks þögn. Svo gríp ég ráðviltur í höndina og segi honum til nafns. Ég skil hvorki upp né niður í þessu. Hvað er þessi maður að gera hér svona snemma morguns og af hverju er hann að heilsa mér? Það liggur við að ég sé hálfhræddur við þennan ókunnuga mann.

Hann sest hjá mér, jafn brosandi og áður. Hann spjallar við mig eins og við séum gamlir félagar. Spyr hvað ég sé að gera úti svona snemma og talar um hversu einstakt veðurfarið hefur verið síðustu daga. Ég svara honum annars hugar. Svo stenst ég ekki mátið lengur.

- Hver ertu? spyr ég ákveðinn.

Pétur flissar. Flissið breytist í hlátur. Maginn iðar innra með mér. Af hverju er hann að hlæja?

- Ég? svarar hann. Ég? Haha. Sko. Ég er bara… Haha.

- Ertu fréttamaður? Ég er ennþá ákveðnari en áður. Nú skal ég fá svar. Það er eins og hann skynji alvöruna í spurningu minni og hann hættir að hlæja. Hann verður reyndar alveg grafalvarlegur á svipinn.

- Þekkirðu mig ekki?

Það er eins og eldingu sé slegið niður í hausinn á mér. Um leið sé ég hnífinn og hendi Pésa litla þrýsta honum djúpt inn í iðandi magann á mér. Sársaukinn gagntekur mig. Hann breiðir úr sér eins og gárur á vatni, með hverjum hjartslætti margfaldast hann um leið og blóðið yfirgefur líkama minn.

Ég gríp um hendi Pésa sem hafði verið svo lítill og sakleysislegur þegar hann bjó við hliðina á mér fyrir öllum þessum árum. Hann heldur enn fast í hnífinn í maganum á mér.

- Heldurðu að ég hafi ekki vitað að það varst þú? Hélstu að þú hefðir komist upp með það? Ég greini vott af brjálæði í rödd hans. Aumingja maðurinn hefur byrgt þetta inni öll þessi ár. Svo skiptir hann allt í einu um tón.

- Ég er búinn að vera að fylgjast með þér í smá tíma. Fréttirnar komu þér svolítið úr jafnvægi, er það ekki? Hann hljómar eins og spenntur listamaður sem þráir viðurkenningu verka sinna.

Ég horfi varnarlaus í augun á honum. Reyni að tala en hósta bara upp blóði. Útundan mér sé ég að rónarnir hafa hlaupið af stað í átt að Lækjartorgi.

- Ég…. Meira blóð. Fyrir…. Ég kemst ekki lengra.

- Mér er andskotans sama hvað þú hefur að segja. Nú hef ég tjáð mig, hreytir hann út úr sér. Ég finn hnífinn renna út úr mér og heyri fótatak hans þegar hann hleypur brott.
Ég sé fyrir mér andlitið á Pésa litla daginn sem við jörðuðum köttinn hans í garðinum heima hjá honum. Það síðasta sem ég heyri eru daufar sírenur í fjarska.