Þetta er í raun bara byrjun á sögu sem ég ætla mér svo að bæta meira við. En svo kom þetta eitt og sér út sem ágætis smásaga svo ég sendi þetta bara hér inn. Þetta verður ekki heldur endanlegur titill. :)



Hver ætli við séum í raun og veru?
Ætli við séum frumhugmyndin?
Erum við bara endurspeglun annars heims?
Annars og stærri heims…


Hann sat við skrifborðið og hugsaði. Hann hugsaði um það hvað allt hefði verið miklu betra hefði hann aldrei fæðst, aldrei stigið fæti á yfirborð jarðar. Af hverju þurfti ég að fæðast?! Allt væri miklu betra væri ég ekki til.

Regnið buldi á bárujárnsklæddu þakinu rétt líkt og tárin á skrifborðinu og vindurinn hvein eins og væri verið að refsa honum með svipu.

Seinustu vikur hafði hann vaknað upp í svitabaði við sama drauminn: Myrkrið umlukti hann um leið og hann tók fyrsta skrefið inn í það. Svo…fall. Fall úr ljósinu lengst niður í myrkrið. Ljóstýran varð alltaf minni og minni þar til hún hvarf alveg. Allt í einu stoppaði hann – einhver greip hann. Þessi einhver lagði hann svo niður og stökk upp. Upp í ljósið? Hann var fastur í myrkrinu. Aleinn í myrkrinu.

Hverja einustu nótt hafði hann dreymt þennan sama draum og alltaf var hann skilinn eftir einn í myrkrinu. Þetta þurfti að stoppa, þessu þurfti að linna, hann gat þetta ekki lengur. Hvernig get ég stoppað þetta?! Hann horfði í kringum sig. Allt í kringum hann lágu skítugir sokkar og nærbuxur. Uppi í gluggakistunni stóðu þrjár kókdósir; þeim var snyrtilega raðað upp en allar hálffullar. Illan daun hafði lagt úr horninu bak við rúmið síðustu þrjár vikur en hann hafði hvorki haft rænu né löngun til að kíkja þangað. Móðir hans hafði margbeðið hann um að taka til og reka skordýragarðinn út en hann hlustaði ekki á hana, ekki frekar en vanalega.

Það er ekkert mál að enda þetta rétt sísvona. Öllum yrði sama. Mamma skælir kannski fyrstu tvo dagana svo allir héldu að henni hefði þótt vænt um mig og pabbi þykist hugga hana þegar hún skrúfar frá tárunum. Helvítis pakk.

Hann skimaði yfir skrifborðið í leit að einhverju sem væri hægt að nota til að enda þetta líf. Heimurinn yrði betri, myndi bara losna við enn eina aumkunarverða mannveruna. Hann fann ekkert, ekki nema hægt væri að nota grænleitt, hálfétið Snickers eða blað útkrotað af niðurdrepandi ljóðum. Eitt ljóðið var skrifað með blóði:

Ég hélt, þegar myrkrið kom,
að þið mynduð hjálpa mér.
En þið gerðuð það ekki
og myrkrið varð mér sterkara.

Byrjunin á ljóðinu sást dauft en aftari parturinn var eins skýr og blóðdropi í mjólkurglasi. Skrifaði hann ljóðið aftur á bak?

Kuldinn á baðherberginu var mikill. Hann teygði sig í gluggann og lokaði honum. Rakvélarblöðin voru í skúffunni fyrir neðan vaskinn. Þau voru ofan í körfunni við hliðina á plástrunum og sárabindunum. Vona að ég þurfi ekki að nota þetta seinna. Hann tók blöðin upp og setti þau í vasann. Sárabindin og plástrana tók hann upp og henti í ruslið. Hann snéri sér næst að skápnum hægra megin við gluggann; þar sem lyfin voru geymd. Skápurinn var hátt uppi svo Ásta, systir hans, næði ekki í öll lyfin sem héngu þar og biðu eftir að mamma hans myndi svolgra þeim í sig með einum köldum. Hann tók nokkur lyfjaglös og stakk þeim í vasann við hliðina á rakvélarblöðunum. Restina af glösunum setti hann ofan á klósettið. Kannski að Ásta verði heppin eins og ég.

Hitinn bauð hann velkominn þegar hann steig inn í herbergið sitt – alveg eins og hann vildi hafa það. Hann settist við skrifborðið sitt og tók sér blýant í hönd. Hann tók upp nýtt og alveg hvítt blað upp úr næst efstu járnskúffunni fyrir neðan skrifborðið og lagði það fyrir framan sig. Án umhugsunar ritaði hann:

Eldur á það til að slokkna,
sé ekki hlúið að honum.

Hann lagðist svo upp í rúm og kveikti á litla leslampanum sem stóð út úr veggnum fyrir ofan rúmið eins og lítil grein á stórum kletti. Hann tók rakvélarblöðin og hélt á þeim í opnum lófanum. Hann helti svo úr lyfjaglösunum í lófann svo pillurnar huldu blöðin.
Þetta hlýtur að gera það. Hann skellti öllu saman upp í sig. Blöðin rifu hálsinn og blóðið lak út um allt eins og ís á heitum sumardegi. Pillurnar, sem áður höfðu glatt móður hans svo mikið en voru orðnar að andlegum dragbíti, fylgdu svo sömu leið.

Tilfinningaflóðið reið yfir hann.
Fyrst leiður, svo reiður, síðan sáttur. Þreyttur, svo ekkert…